Mælti fyrir myndlistarstefnu á Alþingi
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um myndlistarstefnu til ársins 2030 á Alþingi. Tillagan felur í sér bæði stefnu og aðgerðaáætlun í myndlist sem miða að því að efla myndlistarmenningu á Íslandi.
„Ný myndlistarstefna er gríðarlega stórt skref í þá átt að stórbæta starfsumhverfi myndlistarmanna og -safna á Íslandi. Myndlistarlíf á Íslandi er í miklum blóma og hér er sjónum beint að tækifærum til enn frekari vaxtar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Stefnan byggir á vinnu verkefnahóps með fulltrúum frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, myndlistarráði, Listasafni Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, listskreytingasjóði, i8 Gallerí og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti, en hópnum var falið að móta heildstæða stefnu um málefni myndlistar á Íslandi til ársins 2030.
Í myndlistarstefnunni eru fjögur meginmarkmið:
- Á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning.
- Stuðningskerfi myndlistar verði einfalt og skilvirkt.
- Íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein.
- Íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Þingsályktunartillögunni fylgir svo aðgerðaáætlun til ársins 2030 sem unnið verður í samræmi við til að tryggja framgang myndlistar í landinu. Sem dæmi um aðgerðir á áætluninni má nefna:
- Lögð verði áhersla á þjálfun í skapandi hugsun, eflingu listkennslu og myndlæsi innan skólakerfisins.
- Aðgengi almennings verði aukið að Listasafni Íslands.
- Stofnaður verði starfshópur sem móti framtíðarsýn fyrir uppbyggingu Listasafns Íslands sem höfuðsafns á heimsmælikvarða.
- Komið verði á fót upplýsingaveitu og tengslaneti sem auki samstarf um rannsóknir á sviði lista.
- Myndlistarsjóður verði efldur og fái tækifæri til að styðja við fjölbreytt verkefni á víðu sviði myndlistar.
- Ítarleg greining verði gerð á þeim möguleika að færa myndlist í 11% virðisaukaskattsþrep.