Erlendir nemendur efla háskólastig á Íslandi
Nýlega efndi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, til vinnustofu um erlenda nemendur ásamt fulltrúum háskólanna, fyrirtækja sem að miklu leyti byggja á erlendri sérfræðiþekkingu og Íslandsstofu.
Þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til stefnumarkandi umræðu um erlenda háskólanema og þýðingu þeirra fyrir háskóla landsins og samfélagið í heild. Rúmlega tvö þúsund erlendir ríkisborgarar eru við nám í íslenskum háskólum. Mikill meirihluti þeirra kemur frá löndum utan evrópska efnahagssvæðisins. Auk þessa koma á hverju ári fleiri hundruð skiptinemar til náms við íslenska háskóla. Á vinnustofunni var m.a. rætt hvernig erlendir nemendur efla háskólastigið hér á landi og hvar styrkleikar í námsframboði íslensku háskólanna liggja.
Fjármögnun útgjalda ríkisins vegna nemenda frá löndum utan EES var einnig rædd en á hinum Norðurlöndunum hafa sérstök skólagjöld fyrir þennan hóp nemenda verið sett. Þá var ávinningur íslensks efnahagslífs af erlendum nemendum einnig gerður að umræðuefni og hvort unnt sé að mæta skorti á sérfræðingum með því að mennta fleiri erlenda nemendur hér á landi.
Tillaga þess efnis að erlendir nemendur fái þriggja ára dvalarleyfi að námi loknu hefur verið lögð fram af ríkisstjórn, en til þessa hefur slíkt dvalarleyfi aðeins gilt í 6 mánuði. Með þessu aukast möguleikar á að laða að erlenda nemendur, með tilheyrandi eflingu íslenskra háskóla. Um leið skapast möguleiki á fjárfestingu í aukinni þekkingu fyrir íslenskt atvinnulíf og skýr stefnumótun því mikilvæg um þetta málefni.
Sjá einnig: