15. fundur stjórnarskrárnefndar
Dagskrá
- Fundargerð síðasta fundar
- Viðbrögð við umsögnum um áfangaskýrslu (1)
- Þátttaka í ráðstefnu Háskólans á Akureyri 1. desember
- Tilhögun og undirbúningur vinnudags í nóvember
- Önnur mál
Fundargerð
15. fundur – haldinn föstudaginn 24. október 2014, kl. 10.30, í Safnahúsinu (Þjóðmenningar-húsinu), Reykjavík.
Mættir voru eftirtaldir: Páll Þórhallsson, formaður, Birgir Ármannsson, Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Páll Valur Björnsson, Valgerður Bjarnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir. Aðalheiður Ámundadóttir hafði boðað forföll.
Þá sat fundinn Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis og ritari nefndarinnar.
Formaður setti fundinn og stýrði honum.
1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð 14. fundar, sem haldinn var föstudaginn 10. október 2014, var send nefndarmönnum með tölvupósti 23. október. Fundargerðin var samþykkt án athugasemda.
2. Viðbrögð við umsögnum um áfangaskýrslu (1)
Lagt var fram yfirlit yfir umsagnir um fyrstu áfangaskýrslu nefndarinnar (Samantekt SG 23.10.2014). Þar er annars vegar gefið yfirlit yfir almenn atriði, svo sem fjölda og meginflokka, og hins vegar gerð nánari grein fyrir einstökum umsögnum (með efnisútdrætti og nafni sendanda) í tengslum við spurningar í skýrslunni og atriði utan við skýrsluna.
Rætt var almennt um yfirlitið en talið ótímabært að taka efnislega afstöðu til einstakra umsagna/atriða. Yfirlitið verður birt á vefnum stjornarskra.is.
3. Þátttaka í ráðstefnu Háskólans á Akureyri 1. desember
Drög að dagskrá málþingsins voru lögð fram og rædd. Nefndarmönnum líst vel á þær hugmyndir sem þar koma fram.4. Tilhögun og undirbúningur vinnudags í nóvemberFormaður lýsti hugmyndum sínum um tilhögun vinnudags nefndarinnar í nóvember. Nefndarmenn voru sammála um að fjalla þar nánar um meginlínur varðandi þau fjögur málefni sem fyrsta áfangaskýrsla tekur til. Tilgangur vinnudagsins er að skýra betur um hvað er sátt, hvar/hvað ber á milli og hvort/hvernig hægt sé að nálgast þar sameiginlega niðurstöðu sem nánari útfærsla verði byggð á. Formaður mun setja fram tillögur að nánari dagskrá og tilhögun vinnudagsins, fyrirkomulagi vinnuskjala o.þ.h., á næsta fundi nefndarinnar.
5. Önnur mál
Ekkert var tekið fyrir undir þessum lið.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.45.
SG skrifaði fundargerð.