Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. apríl 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 25/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún teldist ekki vera í virkri atvinnuleit. Fyrir liggi að hún hafi sinnt starfsemi B og C við hönnun og sölu á skartgripum. Þá hafi fulltrúar Vinnumálastofnunar ítrekað óskað eftir því að kærandi óskaði eftir samningi um þróun eigin viðskiptahugmyndar á grundvelli reglugerðar nr. 12/2009. Hafi hún ekki orðið við tilmælum ráðgjafa og hafi stofnuninni ekki borist umsókn um þróun eigin viðskiptahugmyndar. Án slíks samnings sé atvinnuleitendum óheimilt að standa að sjálfstæðum rekstri samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 25. febrúar 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 25. ágúst 2011.

Kæranda var sent bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 12. desember 2011, þar sem kæranda var gefinn kostur á að senda inn skriflega afstöðu sína til málsins. Svarbréf kæranda er dagsett 13. desember 2011.

 

Í gögnum máls þessa, svo sem í samskiptasögu Vinnumálastofnunar, kemur fram að kæranda hafi tvívegis verið bent á að sækja um „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ og að hún hafi sjálf sagst ætla að gera það. Hún hafi þó ekki gert fyrr en eftir að hin kærða ákvörðun hafði verið tekin. Í viðtali hjá Vinnumálastofnun, 11. október 2011, tók kærandi fram að hún væri með heimasíðuna C og að hún vildi þróa hana frekar.

 

Á fundi Vinnumálastofnunar, 16. janúar 2012, var talið af þeim gögnum og upplýsingum sem stofnunin hafði undir höndum að kærandi væri ekki í virkri atvinnuleit. Var það mat byggt á því að kærandi hafði ekki sinnt ítrekuðum tilmælum ráðgjafa stofnunarinnar að sækja um „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ á grundvelli reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009. Enn fremur væri kærandi með starfsemi á C og slíkt væri óheimilt nema með samningi við stofnunina um þróun eigin viðskiptahugmyndar. Kærandi teldist ekki í virkri atvinnuleit og var umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta hafnað.

 

Kærandi mótmælir því að Vinnumálastofnun hafi ítrekað bent henni á að sækja um „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ heldur hafi hún iðulega sjálf haft samband við Vinnumálastofnun að eigin frumkvæði í því skyni að afla upplýsinga. Varðandi þá staðhæfingu Vinnumálastofnunar að kærandi sinni starfsemi B/C kveður kærandi enga starfsemi hafa verið á þeirri heimasíðu síðustu ár vegna náms og fæðingarorlofs og hafi heimasíðan því aldrei farið almennilega á flug. Kærandi bendir á að henni hafi verið ráðlagt að loka síðunni ekki, meðal annars ef hún færi af stað aftur með sölu skartgripa eftir nám/fæðingarorlof. Kærandi bendir á staðfestingu frá Kortaþjónustunni ehf. þess efnis að nettenging hennar hafi verið lokuð í nokkur ár. Í bréfi frá Kortaþjónustunni ehf. kemur fram staðfesting þess efnis að engar færslur hafi borist til Kortaþjónustunnar ehf. frá 25. nóvember 2008 á D, en samningnum hafi verið lokað 5. ágúst 2010. Kærandi bendir einnig á staðfestingu frá Neytendastofu þess efnis að fagstimpill hennar, E, hafi verið í bið í nokkur ár vegna þess að hún hafi ekki verið í neinni starfsemi meðan á náminu og fæðingarorlofinu hafi staðið.

 

Á heimasíðu kæranda, F, 6. mars 2013 kemur fram að árið 2001 hafi kærandi stofnað „F og hafi hún unnið að uppbyggingu fyrirtækisins síðan. F hafi opnað heimasíðuna C í apríl 2007.

           

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. maí 2012, kemur fram að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit á meðan hún þáði atvinnuleysisbætur. Virk atvinnuleit launamanns sé eitt af þeim skilyrðum er atvinnuleitandi þurfi að uppfylla til að geta talist tryggður samkvæmt lögunum, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Nánar sé kveðið á um það í a–h-liðum 1. mgr. 14. gr. hvað teljist vera virk atvinnuleit. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur sé fær til flestra almennra starfa. Jafnframt sé kveðið á um það í h-lið 14. gr. laganna að atvinnuleitandi þurfi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum, sem standa honum til boða. Með undirritun á staðfestingu á rafrænni umsókn þá samþykki atvinnuleitendur að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem þeim bjóðist þann tíma sem atvinnuleysi vari.

 

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að kæranda hafi ítrekað verið bent á að sækja um „Eigið frumkvöðlastarf“ enda séu slík úrræði einmitt í boði fyrir atvinnuleitendur sem hafi viðskiptahugmyndir sem þeir vilji koma í framkvæmd. Kærandi hafi lýst því yfir við stofnunina að hún ætli að sækja um þetta úrræði en þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi kærandi enn ekki skilað inn umsókn um úrræðið. Til að atvinnuleitandi teljist í virkri atvinnuleit þurfi hann meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi honum til boða, sbr. h-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi hafi ekki sótt um „Eigið frumkvöðlastarf“ fyrr en 13. mars 2012. Umsókn kæranda var hafnað á fundi 16. maí 2012 enda hafði hún þá verið felld af skrá Vinnumálastofnunar þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi sótti ekki um úrræðið fyrr en eftir að stofnunin hafði metið að hún væri ekki í virkri atvinnuleit.

 

Það sé ljóst að kærandi hafi ekki sinnt ítrekuðum tilmælum ráðgjafa Vinnumálastofnunar um að sækja um „Eigið frumkvöðlastarf“ og þrátt fyrir að hafa tjáð stofnuninni að hún ætlaði að skila inn umsókn hafi kærandi ekki staðið við það fyrr en tæpum þremur mánuðum eftir að stofnunin hafi metið að hún væri ekki í virkri atvinnuleit og hafi ekki uppfyllt skilyrði 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ætti því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. júní 2012. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 31. maí 2012. Þar mótmælir kærandi því meðal annars að hún hafi ekki verið virk í atvinnuleit og enn fremur því að henni hafi ítrekað verið bent á að gera samning um þróun eigin viðskiptahugmyndar. Þá bendir kærandi á að heimasíðan C og B sé ekki virk og ekki í notkun. Heimasíðan sé barn síns tíma og samkvæmt ráðleggingum þurfi að gera nýja ef kærandi fari aftur af stað.

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 25. ágúst 2011. Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi verið í virkri atvinnuleit skv. a-lið 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 13. gr. laganna er gerð grein fyrir almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Nánar er kveðið á um það í a–h-liðum 14. gr. hvað telst vera virk atvinnuleit. Eitt af skilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé fær til flestra almennra starfa. Jafnframt er kveðið á um það í h-lið 14. gr. laganna að atvinnuleitandi þurfi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða. Með undirritun á staðfestingu á rafrænni umsókn samþykkja atvinnuleitendur, þ. á m. kærandi, að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem þeim býðst þann tíma sem atvinnuleysi varir.

 

Kærandi er gullsmiður og í samskiptasögu Vinnumálastofnunar 31. ágúst 2011 kemur fram að hana langi að hanna sína eigin línu. Vinnumálastofnun mæltist til þess við kæranda, fyrst 13. september 2010 og síðan aftur 5. september 2011, að hún sækti um „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“. Það gerði hún ekki fyrr en eftir að Vinnumálastofnun hafði fellt hana út af atvinnuleysisbótum.

 

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi lengi unnið að þróun fyrirtækis tengdu skartgripagerð. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur til dæmis fram að hún hafi stofnað fyrirtækið árið 2001 og unnið að uppbyggingu þess síðan þá. Þá kemur fram að hún hafi opnað heimasíðu félagsins árið 2007. Í rökstuðningi kæranda í kærumáli um notkun á vörumerki hennar E segist hún hafa hannað myndmerkið árið 1999 og stofnað fyrirtækið árið 2001. Hún segist einnig hafa öðlast vörumerkjarétt að vörumerki sínu með samfelldri notkun þess um langt skeið.

 

Svo virðist sem vitneskja hafi verið af hálfu Vinnumálastofnunar um vilja kæranda til að stofna sitt eigið fyrirtæki allt frá árinu 2007. Hún þáði bætur meðan hún var í námi tengdu skartgripagerð í G og sótti námskeið á vegum Vinnumálastofnunar er varða nýsköpun. Af hálfu Vinnumálastofnunar var kæranda í september 2010 bent á að sækja um úrræðið „Þróun viðskiptahugmyndar“ til að geta unnið að þróun fyrirtækis síns samhliða töku bóta. Henni var einnig bent á mögulegar styrkveitingar vegna verkefnisins. Hlé varð á töku bóta vegna fæðingarorlofs kæranda en hún sótti aftur um að komast inn í kerfið í september 2011. Þá var henni aftur bent á „Brautargengisnámskeið“ og úrræðið „Eigið frumkvöðlastarf“. Samkvæmt samskiptasögu virðist á þessum tímapunkti hafa legið fyrir af hálfu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki verið virk í atvinnuleit þar sem hún hafi unnið að þróun viðskiptahugmyndar sinnar og var mál hennar ítrekað skoðað næstu mánuði. Í janúar 2012 var síðan tekin sú ákvörðun að taka kæranda af bótum. Sú ákvörðun var byggð á því að hún uppfyllti ekki það skilyrði fyrir töku atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit, þar sem hún vinni að þróun eigin viðskiptahugmyndar. Var meðal annars horft til þess að hún hafi ekki nýtt sér það úrræði Vinnumálastofnunar að sækja um heimild til þróunar á eigin viðskiptahugmynd.

 

Af gögnum málsins virðist ljóst að kærandi hefur langt skeið unnið við þróun eigin fyrirtækis og hafi af þeim sökum ekki verið í virkri atvinnuleit. Virk atvinnuleit er eitt af grunnskilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna.

 

Með hliðsjón af framansögðu og röksemdum Vinnumálastofnunar er sú ákvörðun stofnunarinnar að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. janúar 2012 um niðurfellingu bótaréttar A er staðfest.

 

 

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta