Kynnti sér framkvæmdir í Vaðlaheiðargöngum
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í dag miðstöð Vegagerðarinnar á Akureyri og skoðaði einnig framkvæmdirnar við Vaðlaheiðargöng. Alls hafa verið sprengdir tæplega 2.700 metrar Eyjafjarðarmegin í göngunum en greftri þar var hætt í lok ágúst og byrjað að bora í Fnjóskadal og eru gangamenn komnir vel á annað hundrað metra inn þeim megin.
Forráðamenn Vegagerðarinnar á Akureyri og Ósafls, fyrirtækis Marti og ÍAV sem annast gangagerðina, greindu frá stöðunni.
Borun var hætt Eyjafjarðarmegin vegna mikils vatns sem skyndilega kom úr heitri vatnsæð í göngunum. Hefur bæði vatnsmagnið og hitinn tafið verkið en nú er unnið að þéttingu og lokun fyrir vatnið en á meðan verður lögð áhersla á borun Fnjóskadalsmegin. Þrátt fyrir tafir er verkið nokkurn veginn á áætlun og eru verklok áætluð í árslok 2016. Gegnumbrot er áætlað í september á næsta ári.
Í miðstöð Vegagerðarinnar á Akureyri kynntu þeir Gunnar H. Guðmundsson svæðisstjóri og Guðmundur Heiðreksson, deildarstjóri tæknideildar, helstu framkvæmdir sem standa yfir og eru fyrirhugaðar á Norðursvæði. Meðal annars sýndu þeir áætlanir um nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum og hvernig bregðast mætti við ef stórflóð í framhaldi af eldgosi myndu skemma mannvirkið.