Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálaráðherrar Íslands og Bretlands funda í Lundúnum

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Chris Skidmore ráðherra háskóla-, nýsköpunar- og vísindamála i Bretlandi. - mynd
Aukið samstarf Íslands og Bretlands á sviði mennta- og vísindamála í ljósi væntanlegrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var viðfangsefni fundar Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Chris Skidmore ráðherra háskóla-, nýsköpunar- og vísindamála í Lundúnum í dag. Fundurinn er haldinn í kjölfar bréfaskrifta Skidmore til ráðherra þar sem hann þakkaði henni fyrir að hvetja íslenska námsmenn til þess að halda áfram að sækja um nám í breskum háskólum þrátt fyrir Brexit.

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að jafnræði ríki meðal landa á evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að skólagjöldum í breska háskóla eftir Brexit. Þetta myndi þýða mögulega lækkun á skólagjöldum fyrir íslenska námsmenn við breska háskóla en sem stendur greiða íslenskir nemendur hærri skólagjöld við breska háskóla en námsmenn frá ríkjum Evrópusambandsins. Þetta mikla hagsmunamál var eitt af þeim atriðum sem ráðherra setti á dagskrá fundarins.

„Við leggjum áherslu á efla samstarf við Bretland á sviði mennta- og vísindamála óháð Brexit. Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands og eitt helsta samstarfsland okkar á sviði mennta- og vísindamála. Það er hægt að gera enn betur í að bæta kjör námsmanna og því lagði ég áherslu á að ræða sérstaklega lækkun skólagjalda fyrir íslenska námsmenn í breskum háskólum. Það gæti fjölgað íslenskum nemendum sem velja að læra í Bretlandi og eflt samband ríkjanna enn frekar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Ísland og Bretland eiga náið samstarf á sviði mennta- og vísindamála en frá árinu 2014 hafa rúmlega 2000 einstaklingar í ríkjunum farið í nemenda- og starfsmannaskipti í gegnum Erasmus+ áætlunina. Þá er Bretland eitt helsta samstarfsland Íslands á vísindasviðinu í Sjóndeildarhring 2020 (e. Horizon 2020), áttundu rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB.

Ráðherrarnir ræddu einnig tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni og sameiginlegar áherslur í þeim efnum. Líkt og Íslendingar hafa Bretar einnig lagt meiri áherslu á skapandi greinar, tækni- og verkmenntun í sinni stefnumótun, meðal annars til að búa samfélagið betur undir breytingar vegna örrar tækniþróunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta