Hoppa yfir valmynd
27. júní 2007 Innviðaráðuneytið

Verður leiðtogaskóli umferðarfræðslu á höfuðborgarsvæðinu

Sigfús Grétarsson, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, og Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu, rituðu í gær undir samstarfssamning um að skólinn yrði leiðtogaskóli í umferðarfræðslu grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Viðstaddir undirritunina voru Kristján L. Möller samgönguráðherra og Guðbjartur Hannesson, skólastjóri Grundarskóla á Akranesi.

Samið um umferðarfræðslu í skólum
Samið um umferðarfræðslu í skólum á Seltjarnarnesi í gær.

Í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir því að efla umferðarfræðslu í grunnskólum með því að gera hana að föstum lið í námskrá leikskóla og grunnskóla og gera hana skipulegri í framhaldsskólum.

Markmið fræðslunnar er að:

1. Koma umferðarfræðslu inn í skólanámskrár allra grunnskóla.

2. Halda námskeið í umferðarfræðslu fyrir grunnskólakennara í grunnskólum landsins þeim að kostnaðarlausu.

3. Vera öðrum grunnskólum í landinu til fyrirmyndar til ráðgjafar á sviði umferðarfræðslu.

4. Efla námsefnisgerð í umferðarfræðslu og stuðla að þróun náms- og fræðsluvefs um umferðarmál.

Grundaskóli á Akranesi er móðurskóli í umferðarfræðslu á Íslandi. Leiðtogaskólar eru nú þegar þrír, hver í sínum landsfjórðungi, þ.e. Brekkuskóli á Akureyri, Grunnskóli Reyðarfjarðar og Flóaskóli í Villingaholtshreppi. Með undirrituninni bættist Grunnskóli Seltjarnarness við þennan hóp sem leiðir umferðarfræðslu í grunnskólum landsins undir stjórn Umferðarstofu. Við þetta tækifæri var samningur Umferðarstofu og Grundaskóla framlengdur.

Kristján L. Möller og aðrir sem voru við undirritunina lýstu ánægju sinni með samninginn sem væri enn eitt mikilvægt skref í átt til aukins umferðaröryggis.


Samið um umferðarfræðslu í skólum
Samgönguráðherra mælti nokkur orð við undirritunina. Frá vinstri Guðbjartur Hannesson, Kristján L. Möller, Karl Ragnars og Sigfús Grétarsson. Aftan við þá standa Birna Hreiðarsdóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir og Birgir Hákonarson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta