Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 315/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. ágúst 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 315/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070002

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU21080005, dags. 18. nóvember 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 22. nóvember 2021. Hinn 29. nóvember 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 10. desember 2021, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað.

    Hinn 1. júlí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá stoðdeild ríkislögreglustjóra 5. júlí 2022. Þá bárust athugasemdir og gögn frá kæranda 7. júlí 2022.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að hún lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hennar ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsókn kæranda því tekin til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til þess að samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsókna í skilningi framangreinds ákvæðis miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda sé framkvæmd með flutningi til viðtökuríkis. Þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir og kærandi sé enn á landinu telur hún að stjórnvöldum sé skylt að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar hér á landi.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi 12. júní 2021 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 12. júní 2022. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hennar sjálfrar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 4. júlí 2022 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá stoðdeild. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í svari stoðdeildar, dags. 5. júlí 2022, kemur fram að 16. maí 2022 hafi stoðdeild reynt að ná í kæranda símleiðis en án árangurs. Þá hafi stoðdeild farið í búsetuúrræði kæranda en kærandi ekki svarað. Þá hafi kærandi hringt til baka þann sama dag og henni greint frá því að til stæði að fara með hana til Grikklands. Kærandi hafi óskað eftir að haft yrði samband við lögmann hennar. Þá hafi stoðdeild haft samband við lögmann kæranda sem hafi greint frá því að hann skyldi tala við hana um flutning hennar úr landi og boðað hana á fund 18. maí 2022. Hinn 18. maí 2022 hafi stoðdeild borist smáskilaboð frá lögmanni kæranda þar sem fram hafi komið að hún ætlaði að hugsa málið. Þá hafi stoðdeild farið í búsetuúrræði kæranda 23. maí 2022 en hún ekki svarað dyrabjöllu auk þess sem hún hafi ekki svarað í síma. Þá hafi stoðdeild sent skilaboð í farsíma kæranda og hún beðin um að hafa samband. Þann sama dag hafi lögmaður kæranda haft samband við stoðdeild þar sem hann hafi greint frá því að vera bíða eftir áliti geðlæknis vegna kæranda en hún hafi glímt við andlega vanheilsu. Þá hafi stoðdeild borist tölvubréf frá lögmanni kæranda 24. maí 2022 sem hafi innihaldið bréf frá sálfræðingi um andlega heilsu kæranda.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 5. júlí 2022, var kærandi upplýstur um afstöðu stoðdeildar og henni gefin frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd 7. júlí 2022. Í svari kæranda kemur fram að samkvæmt yfirliti frá stoðdeild hafi verið haft samband við hana 16. maí 2022 en hún hafi ekki fengið fyrir fram boðun og hafi því ekki verið viðstödd heimili sitt, enda hafi hún ekki átt von á heimsókn frá stoðdeild. Kærandi hafi hringt í stoðdeild samdægurs en vegna tungumálaörðugleika hafi hún óskað eftir því að haft yrði samband við lögmann hennar. Síðar sama dag hafi lögmaður hennar fengið símtal frá stoðdeild þar sem hann óskaði þess að öllum samskiptum vegna málsins yrði beint til hans. Í kjölfarið hafi lögmaður kæranda boðað hana á fund sinn 18. maí 2022 en eftir fundinn hafi borist skilaboð frá lögmanni hennar til stoðdeildar þar sem fram hafi komið að kærandi skyldi hugsa málið. Hinn 23. maí 2022 hafi stoðdeild komið í búsetuúrræði kæranda án fyrirvara. Tveimur klukkustundum síðar hafi stoðdeild fengið upplýsingar um að kærandi ætti við alvarleg andleg vandamál að stríða og að gögn væru væntanleg sem væru til þess fallin að varpa ljósi á það hvort lífi hennar og heilsu yrði stefnt í hættu við brottvísun. Hinn 24. maí 2022 hafi lögmaður kæranda sent tölvubréf til stoðdeildar með skýrslu frá sálfræðingi þar sem lagst var gegn brottvísun hennar. Allt að einu virðist stoðdeild byggja á því að kærandi hafi tafið mál sitt og ekki sýnt samstarfsvilja án þess að það sé rökstutt sérstaklega hvenær og með hvaða hætti. Kærandi mótmæli því að hún hafi með einhverjum hætti tafið mál sitt. Eins og að framan greinir hafi ávallt verið hægt að ná sambandi við kæranda samdægurs. Þá beri að líta til þess að kærandi tali ekki ensku auk þess sem hún eigi langa áfallasögu að baki. Af þeim sökum hafi kærandi óskað eftir því að öll samskipti við stoðdeild færu fram í gegnum lögmann sinn en stoðdeild hafi virt þá beiðni að vettugi þrátt fyrir að lögmaður hennar hafi að eigin frumkvæði haft samband við stoðdeild á tímabilinu sem um ræðir. Stoðdeild hafi því átt að vera kunnugt um hagsmunagæslu hans. Þá vísar kærandi til þess að stoðdeild hafi síðast reynt að hafa samband við kæranda 23. maí 2022, þ.e. 187 dögum eftir úrskurð kærunefndar. Kærandi vísar þá til þess að engin gögn liggi fyrir um hvort stoðdeild hafi verið búin að undirbúa flutning, t.d. með því að bóka flugmiða eða útbúa ferðaskilríki. Þannig hafi eina tilraun stoðdeildar falist í því að ræða með almennum hætti við kæranda um hugsanlega brottvísun, en af gögnum málsins megi ráða að engar frekari aðgerðir hafi verið fyrirhugaðar til þess að undirbúa flutning. Aðgerðir stoðdeildar og framkvæmdin sé því ómarkviss, eins og svör stoðdeildar gefi til kynna. Að mati kæranda standist það ekki skoðun að fresta framkvæmd ákvörðunar úr öllu hófi, enda sé það verulega íþyngjandi fyrir hana að bíða allan þennan tíma. Þá sé ekkert í málinu sem gefi til kynna að kærandi hafi tafið mál sitt eða reynt að koma sér undan stjórnvöldum en hún hafi ávallt svarað öllum skilaboðum stoðdeildar samdægurs. Jafnframt sé ekki óeðlilegt að einstaklingur með áfallastreituröskun sem tali hvorki íslensku né ensku óski eftir aðstoð lögmanns í samskiptum sínum við stoðdeild. Þá sé í svörum stoðdeildar eingöngu bókað að hún hafi ætlað að hugsa málið en hún hafi aldrei neitað að undirgangast Covid-19 sýnatöku eða greint frá því að hún vilji ekki snúa aftur til viðtökuríkis. Þá hafi aldrei verið lagt fyrir kæranda tilkynningarblað í tengslum við hinn fyrirhugaða brottflutning. Kærandi telur að stoðdeild hafi ekki rökstutt með hvaða hætti hún eigi að hafa tafið mál sitt eða með hvaða hætti hún hafi komið í veg fyrir brottflutning. Kærandi hafi ekki gert neitt sem hafi komið í veg fyrir að íslenskum stjórnvöldum væri kleift að endursenda hana til Grikklands. Af svari stoðdeildar megi ráða að stoðdeild hafi einungis kannað með almennum hætti afstöðu kæranda til fyrirhugaðs flutnings til Grikklands og að ekki hafi verið gerðar frekari tilraunir af hálfur stoðdeildar til að undirbúa flutning á kæranda og framkvæmdin því ómarkviss af hálfu stoðdeildar. Kærandi vísar til úrskurða kærunefndar málum nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 og KNU21080008 frá 22. september 2021 og telur málin sambærileg.

Líkt og fram hefur komið hafði stoðdeild samband við kæranda 16. maí 2022 auk þess sem stoðdeild fór í búsetuúrræði kæranda þann sama dag en hún hafi ekki verið heima. Þá hafi kærandi hringt til baka og stoðdeild greint henni frá því að til stæði að fara með hana til Grikklands. Kærandi hafi óskað eftir að haft yrði samband við lögmann hennar. Stoðdeild hafi þá haft samband við lögmann kæranda og hann greint frá því að hann skyldi boða hana á fund 18. maí 2022 til að ræða við hana um flutning úr landi. Hinn 18. maí 2022 hafi stoðdeild borist skilaboð frá lögmanni kæranda þar sem fram hafi komið að hún ætlaði að hugsa málið. Þá hafi stoðdeild farið í búsetuúrræði kæranda 23. maí 2022 en hún ekki verið heima. Í kjölfarið hafi stoðdeild sent henni skilaboð og hún beðin um að hafa samband. Þann sama dag hafi lögmaður kæranda haft samband við stoðdeild og greint frá því að vera bíða eftir áliti geðlæknis þar sem kærandi ætti við andlega vanheilsu að stríða. Þá hafi stoðdeild borist tölvubréf frá lögmanni kæranda 24. maí 2022 sem hafi innihaldið bréf frá sálfræðingi Göngudeildar sóttvarna, dags. 23. maí 2022, um andlega heilsu kæranda, og samskiptaseðil frá Göngudeild sóttvarna, dags. 1. nóvember 2021, þar sem fram kemur að kærandi hafi hitt sálfræðing þar í eitt skipti. Kærandi hafi í þeim tíma m.a. greint frá því að vera kvíðin og einmana. Í bréfi sálfræðingsins kemur fram að hún hafi verið beðin um að taka saman og staðfesta það sem fram hafi komið í samtali hennar við kæranda á Göngudeild 1. nóvember 2021, tæpum sjö mánuðum áður. Ekki var um formlegt mat á andlegri heilsu kæranda að ræða.

Af svari stoðdeildar má ráða að ekki hafi verið gerðar frekari tilraunir af hálfu stoðdeildar til að undirbúa flutning kæranda til Grikklands en frá síðustu samskiptum stoðdeildar við lögmann kæranda liðu tæpar þrjár vikur þangað til frestur til að flytja kæranda rann út. Þá hafi stoðdeild aldrei birt fyrir kæranda „Tilkynningu um framkvæmd frávísunar frá Íslandi til Grikklands“. Kærunefnd telur að framkvæmd stoðdeildar sé ómarkviss að þessu leyti.

Með hliðsjón af framangreindu er því ekki grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hennar ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreinds er því fallist á atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hún eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.


 

Úrskurðarorð:

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decisions of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant’s application for international protection in Iceland.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                       Gunnar Páll Baldvinsson


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta