Hafnarfjarðarbær hlaut EDI-bikarinn!
Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri tók við bikarnum frá Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir framúrskarandi árangur í rafrænum viðskiptum á liðnu ári. Bæjarstjóri sagði meðal annars:
Bæði í innkaupa- og upplýsingastefnu Hafnarfjarðarbæjar er lögð áhersla á rafrænar lausnir með hliðsjón af umhverfis- og hagkvæmissjónarmiðum.
Í samræmi við þessar stefnur hefur bærinn á undanförnum árum tekið þátt í ýmsum verkefnum sem tengst hafa rafrænum lausnum.
Eitt af þessum verkefnum er innleiðing og notkun rafrænna reikninga eða svokallaða e-Reikninga.
Verkefnið er tvískipt annars vegar varðar það reikninga sem sveitarfélagið gefur út og hins vegar reikningar sem sveitarfélagið móttekur vegna kaupa á vöru eða þjónustu.
Verkefnið hófst í byrjun ársins 2010 en á þessu rúma ári hefur árangurinn verið umfram væntingar en sveitarfélagið gefur út um 200.000 reikninga á ári en um 62% þeirra er á rafrænu formi.
Mótteknir reikningar eru um 25.000 á ári frá um 400 þjónustuaðilum, nú er um 20% af innsendum reikningum orðnir rafrænir.
Ávinningur af upptöku rafrænna reikninga er mikill en um er að ræða hagkvæma og umhverfisvæna lausn þar sem allir hagnast.
Mánudagspistill bæjarstjóra frá 21. febrúar 2011 fjallar um málið og rafræna reikninga í Hafnarfirði.