Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2000 Heilbrigðisráðuneytið

12. -18. ágúst

Fréttapistill vikunnar
12. - 18. ágúst


Fjórir umsækjendur um stöðu forstjóra Lyfjastofnunar.
Fjórir sóttu um stöðu forstjóra Lyfjastofnunar, en umsóknarfrestur rann út 31. júlí. Umsækjendur eru; Sigurður Karlsson viðskiptafræðingur, Ingólf J. Petersen, lyfjafræðingur, Jóhann M. Lenharðsson, lyfjafræðingur og Rannveig Gunnarsdóttir, lyfjafræðingur. Lyfjastofnun er ný stofnun sem tekur við hlutverki Lyfjaeftirlits ríkisins og Lyfjanefndar ríkisins, samkvæmt lögum nr. 108/2000. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar forstjóra Lyfjastofnunar til fimm ára.

Aðgerðir til að auka aðsókn fólks í störf við öldrunarþjónustu.
Ákveðið hefur verið að efna til samstarfsverkefnis milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, landlæknisembættisins og öldrunarstofnana til að laða fólk til starfa í öldrunarþjónustu. Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að skipa nefnd til að vinna að verkefninu. Hlutverk nefndarinnar felst meðal annars í því að stuðla að viðhorfsbreytingu meðal almennings til starfa í öldrunarþjónustu og bæta þá ímynd sem störf í þágu aldraðra hafa. Formaður nefndarinnar og fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verður Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri. Landlæknisembættið mun tilnefna tvo fulltrúa í nefndina, deild hjúkrunarforstjóra sjúkrahúsa í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga tilnefnir einn fulltrúa og sömuleiðis deild forstöðumanna elli- og hjúkrunarheimila í Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu.

Varað við faraldri af völdum lifrarbólgu C.
Landlæknisembættið, sóttvarnarlæknir og Landspítali - háskólasjúkrahús vekja athygli á alvarlegum faraldri af völdum lifrarbólgu C sem gengur yfir landið um þessar mundir. Á næstu vikum verður lögð áhersla á að koma fræðslu til sjúklinga, almennings og heilbrigðisstétta um þennan sjúkdóm, smitleiðir, horfur, meðferð og forvarnir. Á undanförnum 15 árum hefur orðið mikil fjölgun sjúkdómstilfella af völdum lifrarbólgu C hér á landi og fer nýgengi sjúkdómsins stöðugt vaxandi, fyrst og fremst meðal fíkniefnaneytenda sem sprauta sig. Um síðustu áramót var vitað um 600 manns með lifrarbólgu C, flestir á aldrinum 20 - 39 ára. Upplýsingar um áhættuþætti þeirra sem sýkst hafa eru kunnar í rúmlega 60% tilvika. Af þeim hafa 89% sögu um fíkniefnaneyslu í æð. Í umfjöllun um málið á heimasíðu landlæknisembættisins segir að fylgikvillar þessa sjúkdóms muni gera vart við sig í vaxandi mæli á komandi árum og áratugum. Meðferð sú sem standi til boða gagnist aðeins í um 30% tilvika og eina raunhæfa leiðin til að draga úr útbreiðslu sjúkdómsins sé að stemma stigu við fíkniefnaneyslu með öllum tiltækum ráðum.
Nánar á heimasíðu landlæknisembættisins >

Reykingamönnum fækkar.
Hlutfall Íslendinga sem reykja hefur lækkað úr 27% í 22% samkvæmt könnun á vegum tóbaksvarnarnefndar. Í könnuninni kemur fram að á fyrri helmingi þessa árs hefur reykingamönnum fækkað um 18%. Til samanburðar má geta þess að undanfarin þrjú ár hefur reykingamönnum fækkað um 1% á hverju ári, samkvæmt könnunum tóbaksvarnarráðs og hlýtur þetta því að teljast góður árangur í baráttunni gegn reykingum. Þorsteinn Njálsson, formaður tóbaksvarnarnefndar, telur nauðsynlegt að hækka verulega verð á sígarettum til að varðveita þennan árangur. Verðhækkanir á tóbaki eru taldar eitt helsta vopnið gegn reykingum í heiminum, að því er fram kom á 11. alþjóðlegu ráðstefnunni um tóbaksvarnir sem haldin var í Chicago í Bandaríkjunum í síðustu viku.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
18. ágúst 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta