Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 49/2025 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 21. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 49/2025

í stjórnsýslumálum nr. KNU24100134 og KNU24100143

 

Endurteknar umsóknir í málum

[…], […] og barns

 

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 960/2024, dags. 1. október 2024 staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 23. maí 2024, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir K) og barni hennar, […], fd. […], ríkisborgara Írak (hér eftir B) um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 962/2024, dags. 1. október 2024 staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. maí 2024, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir A).

Hinn 21. október 2024 bárust kærunefnd endurteknar umsóknir kæranda, A og B. Kærendur lögðu fram gögn 22. október 2024. Viðbótargögn bárust 28. október 2024, 1. og 3. desember 2024.

Af greinargerð kærenda má ráða að umsóknir þeirra byggi á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.         Málsástæður og rök kæranda

Fram kemur í beiðni um endurtekna umsókn, dags. 21. október 2024, að K hafi verið beitt ofbeldi af eiginmanni sínum (M) sem glími við alvarleg andleg veikindi. M hafi staðfest þetta sjálfur og að hann hafi hótað móður sinni og kæranda með hníf. Kærendur telji ómögulegt fyrir íröksk stjórnvöld að veita þeim fullnægjandi stuðning og vernd. Fjölskyldan gæti ekki framfleytt sér og þau myndu enda á götunni. Þá sé staða kvenna alvarleg í landinu og K geti ekki fengið vernd. K óttist um stöðu sína í heimaríki og einnig hér á landi vegna ofbeldis og hótana M. K glími auk þess við ýmsa kvilla sjálf. K hafi óskað eftir skilnaði frá M í Írak og það hafi haft slæmar afleiðingar, bróðir hennar og M hafi beitt hana ofbeldi. A og B hafi verið vitni að ofbeldi föður síns í garð móður. A og B óttist að faðir þeirra fái ekki þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarfnist í heimaríki. Þá geti K leitað til aðila sem hjálpi henni, s.s. Kvennaathvarfsins og annarra úrræða hér á landi. K lagði fram stuðningsbréf fjölskylduráðgjafa, dags. 16. október 2024, þar sem frásögn K af aðstæðum sínum og líðan eru rakin.

Í tölvubréfi, dags. 28. október 2024 voru nýjar upplýsingar í máli kærenda og B lagðar fram. Þar kemur fram að hinn 27. október 2024 hafi K verið beitt ofbeldi af hálfu M og lögreglan hafi handtekið hann. K hafi þurft að leita læknisaðstoðar. Hún og A hafi hlotið meiðsl. K hyggist sækja um skilnað frá eiginmanni sínum. Viðbótargögn voru lögð fram 1. desember 2024 og 3. desember 2024.


 

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Endurtekin umsókn á grundvelli 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga

Ákvæði 35. gr. a. laga um útlendinga kom nýtt inn í lög um útlendinga með lögum nr. 14 frá 27. mars 2023. Samkvæmt ákvæðinu skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi ekki um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 14/2023 kemur fram að mælikvarðann um ,,sýnilega auknar líkur“ verði að túlka með hliðsjón af því að líkur séu á því að önnur niðurstaða fáist í málið vegna upplýsinga sem ekki lágu fyrir við meðferð upphaflegrar umsóknar. Gerir orðalag ákvæðisins og útskýringar í greinargerð því ekki þá kröfu að fullvissa sé fyrir því að niðurstaðan verði önnur en í fyrri umsókn. Þá verður einnig að líta til þess að við mat á endurtekinni umsókn má oft útiloka að hinar nýju upplýsingar hafi áhrif á fyrri niðurstöðu.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurði í máli kærenda og B 1. október 2024. Með úrskurðunum var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur B uppfylltu ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ættu þau því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda og B væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.

Kærendur byggja endurteknar umsóknir sínar og B á því að nú liggi fyrir upplýsingar um versnandi stöðu kærenda og B vegna alvarlegra andlegra veikinda M. Þau geti ekki snúið aftur til heimaríkis og ljóst að sýnilega auknar líkur séu á að fallist verði á fyrri umsóknir þeirra. Þá sé staða þeirra breytt þar sem M hafi verið handtekinn vegna ofbeldis gagnvart K, A og B.

Í framlagðri lögregluskýrslu, dags. 28. október 2024, kemur fram að hinn 27. október 2024 hafi M verið handtekinn vegna ofbeldis á hendur K, þar sem A og B hafi einnig verið mögulegir árásarþolar. Kærendur og B hafi verið flutt á slysadeild, þar sem tekin hafi verið skýrsla af K, að viðstöddum túlki, félagsráðgjafa og fulltrúa barnaverndar. K hafi verið með áverka á baki, upphandleggjum og bólgin í andliti. A hafi verið með áverka á hægri upphandlegg. M hafi samþykkt að fara af heimilinu. Kærendur hafa auk þess lagt fram heilbrigðisgögn vegna heilsufars M, stuðningsyfirlýsingu fjölskylduráðgjafa og gögn varðandi andlega heilsu K. Kærunefnd hefur þegar fjallað ítarlega um stöðu kærenda, B og M í heimaríki. Með vísan til heimilda um heimasvæði kærenda í heimaríki var lagt til grundvallar að kærendum og B standi til boða raunhæf vernd vegna heimilisofbeldis, m.a. réttarfarsleg úrræði sem og stuðningsúrræði. Verður ekki talið að staða þeirra hafi breyst verulega eða að framlögð gögn styðji við þá málsástæðu kærenda að þau hafi ekki möguleika á að fá stuðning og vernd stjórnvalda í heimaríki. Af gögnum máls kærenda er ljóst að K hefur áður leitað til lögreglu og annarra stjórnvalda vegna ofbeldis eiginmanns síns og bróður og fengið aðstoð, m.a. hafi þeir verið sakfelldir og dæmdir til fangelsisrefsingar. Þá lítur kærunefnd til þess að þrátt fyrir ýmsar hindranir, þá sé raunhæfur möguleiki fyrir K að sækja um skilnað frá eiginmanni sínum í heimaríki.

Það er því mat kærunefndar að framangreindar upplýsingar í máli kærenda og B leiði ekki til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsóknir þeirra samkvæmt 24. gr. laga um útlendinga og eru skilyrði ákvæðis 35. gr. a laga um útlendinga ekki uppfyllt.

Að framangreindu virtu er endurteknum umsóknum kærenda og B vísað frá.

 

Úrskurðarorð:

Endurteknar umsóknir kærenda og barns er vísað frá.

The appellants´ and the childs´ subsequent applications are dismissed.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir, settur nefndarmaður

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta