Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkissjóður eignast allt hlutafé í Auðkenni ehf.

Ríkissjóður og eigendur Auðkennis ehf., sem gefur út rafræn persónuskilríki, hafa náð samkomulagi um að eignarhald félagsins verði fært til ríkisins. Bankar, Síminn og sparisjóðir voru stærstu eigendur Auðkennis og náðist samkomulag um að kaupverðið myndi nema bókfærðu hlutafé félagsins, um 948 m.kr., sem er um 80% af því fjármagni sem eigendur félagsins hafa hingað til lagt því til í formi hlutafjár til að þróa lausnina. Samhliða samkomulagi um kaupin var undirrituð yfirlýsing um fyrirkomulag rekstrar og framþróunar lausnar félagsins í samstarfi við stærstu þjónustuveitendur, sem í dag eru auk ríkis og sveitarfélaga aðallega viðskiptabankarnir þrír.  

Auðkenni gefur út rafræn skilríki á netinu sem jafngilda því að framvísa persónuskilríkjum og hægt er að nota þau til fullgildrar undirritunar sem jafngildir eigin undirritun.  

Kaupin samrýmast þróun í rafrænni auðkenningu 

Aðilar samkomulagsins eru sammála um að kaup ríkisins á Auðkenni séu í samræmi við þá miklu þróun rafrænnar auðkenningar sem orðið hefur í samfélaginu og mun áfram aukast, ekki síst samhliða aukinni, bættri og aðgengilegri stafrænni opinberri þjónustu. Ríkið gefur út almenn skilríki, s.s. ökuskírteini og vegabréf og nú einnig rafræn skilríki. Meginverkefni Auðkennis verður að tryggja áframhaldandi þróun og útbreiðslu rafrænna skilríkja meðal almennings, sem einnig styður við þróun tengdrar stafrænnar þjónustu innan hins opinbera geira og einkageirans og sjálfbæra þróun félagsins. 

Starfsmenn fjármálastofnana munu annast virkjun rafrænna skilríkja eins og verið hefur en stefnt er að því að ríkið taki við þessari þjónustu frá og með 1. janúar 2022.  

Eftir eigendaskiptin verður auðkenningarþjónusta áfram veitt án endurgjalds fyrir notendur, en þjónustuaðilar geta innheimt þjónustugjald fyrir tengda traustþjónustu á borð við undirritanir, innsigli og tímastimplarnir. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta