Hoppa yfir valmynd
31. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 159/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 159/2017

Miðvikudaginn 31. maí 2017

A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. apríl 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. október 2016 að veita kæranda uppbót til kaupa á bifreið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 22. september 2016. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti að veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr. með ákvörðun, dags. 11. október 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. apríl 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. maí 2017, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist nefndinni að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Þann 10. maí 2017 bárust athugasemdir frá kæranda og viðbótargagn.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá samþykktan styrk til kaupa á bifreið.

Í kæru segir að kærandi sé með langvinnan óafturkræfan [sjúkdóm]. Hún geti ekki gengið meira en um 100 metra án þess að hvíla sig vegna [...] og óski hún því eftir að styrkur til hennar verði endurskoðaður.

Kæranda hafi verið bent á að hún ætti rétt á hærri styrk en henni hafi verið veittur. Hún þurfi ekki hjálpartæki að staðaldri en hún fari ekkert án bifreiðar. Fyrir lengri ferðir t.d. í verslunarmiðstöðvar notist hún við göngu- eða innkaupagrind eða hjólastól sé þess kostur. Að öðru leyti sé hún með verulega takmarkaða hreyfigetu en noti ekki hjálpartæki að staðaldri ef um mjög stuttar vegalengdir sé að ræða.

Í skýringum kæranda segir að hún hafi ekki nýtt uppbótina sem henni hafi verið veitt þar sem bíll, sem hún hefði efni á að kaupa með þessari uppbót, yrði sennilega gamall og þá væntanlega með mikla bilanatíðni. Kærandi hafi fyllt út umsókn um uppbót/styrk til kaupa á bifreið hjá Tryggingastofnun, stofnunin sé þjónustustofnun og eigi að veita skjólstæðingum sínum þær upplýsingar sem þeir þurfi á að halda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga. Henni hafi ekki verið gerð grein fyrir því að um tvo mismunandi hluti væri að ræða, hafi hún því ekki áttað sig því að möguleiki væri að fá hærri upphæð en Tryggingastofnun hafði veitt henni. Þær upplýsingar hafi hún ekki fengið fyrr en á fundi B þann X 2017. Kærandi telji með vísan til framangreinds að það hafi verið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa, dags. 11. október 2017, þar sem samþykkt var að veita kæranda uppbót.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega sex mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. október 2016, þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 26. apríl 2017. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar og 5. gr. laga um úrskurðanefnd velferðarmála var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til framangreinds er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 2. maí 2017, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með bréfi, mótteknu 10. maí 2017, bárust athugasemdir kæranda og fylgigagn. Þar segir að hún hafi fengið ráðgjöf hjá Tryggingastofnun þegar hún fyllti út umsókn sína en henni hafi ekki verið gerð grein fyrir að um tvo mismunandi hluti, þ.e. uppbót og styrk, væri að ræða. Hún hafi því ekki áttað sig á að möguleiki væri á því að fá hærri upphæð. Hún hafi fyrst fengið þær upplýsingar á fundi B þann X 2017.

Við mat á því hvort afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr lítur úrskurðarnefndin til þess að samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið. Á eyðublaðinu koma fram upplýsingar sem útskýra í stuttu máli hver munurinn sé á uppbót annars vegar og styrk hins vegar og þar á meðal upplýsingar um fjárhæðir. Í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. október 2016, var kæranda tilkynnt formlega um að samþykkt hafi verið að kærandi uppfyllti skilyrði til að fá uppbót til bifreiðakaupa en ekki var getið formlega um synjun stofnunarinnar á umsókn um styrk til bifreiðakaupa. Í niðurlagi ákvörðunar Tryggingastofnunar var kærandi upplýst um kærufrest og einnig var henni gefinn kostur á að fá nánari rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar. Með hliðsjón af framangreindu og þeirri staðreynd að það liðu rúmlega sex mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun þangað til ákvörðunin var kærð, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta