Mál nr. 31/2017 Úrskurður 29. maí 2017
Mál nr. 31/2017 Eiginnafn: Victoria
Hinn 29. maí 2017 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 31/2017 en erindið barst nefndinni 23. maí.
Til að hægt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá þarf öllum skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn að vera fullnægt. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Nafnið skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977, um íslenska stafsetningu.
Í máli þessu reynir á skilyrði (3). Ritháttur nafnsins er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn c er ekki í íslenska stafrófinu og þar sem bókstafurinn a er ekki ritað á eftir einhljóðinu i. Á þennan rithátt nafnsins er því aðeins heimilt að fallast ef hann telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.
Til stuðnings við mat á hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn hefur mannanafnanefnd stuðst við vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 19. janúar 2015, og byggðar eru á greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn og eldri vinnulagsreglum. Er í reglunum byggt á því að hugtakið hefð í lögum um mannanöfn varði einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli 1703 þegar manntal var tekið fyrsta sinni. Vinnulagsreglurnar eru svohljóðandi:
Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;
Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.
Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands bera 20 stúlkur nafnið Victoria í þjóðskrá sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna varðandi hefð. Sú elsta er fædd árið 1965. Nafnið kemur jafnframt fyrir í 9 manntölum frá 1703 til 1920. Með vísan til þessa telst rithátturinn Victoria hefðaður í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn.
Eiginnafnið Victoria (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Victoriu og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Victoria (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.