Hoppa yfir valmynd
7. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 189/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 189/2017

Miðvikudaginn 7. júní 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. maí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. febrúar 2017 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 22. desember 2016. Með örorkumati, dags. 6. febrúar 2017, var umsókn kæranda synjað og fyrra mat um örorkustyrk var látið standa óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2016, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Þann 30. maí 2017 bárust athugasemdir frá B.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski þess að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um 75% örorku verði felld úr gildi og að umsókn hennar um örorkulífeyri verði samþykkt.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um nýtt örorkumat hjá nýjum matslækni. Kærandi hafi verið í þráhyggjukasti hjá matslækni og hafi sagt það sem hún hafi talið sig þurfa að segja til að losna út frá lækninum. Vegna hennar eigin hegðunar þá gruni hana að matslæknirinn hafi ekki metið hana rétt.

Í skýringum  B, kemur fram að kærandi hafi þann 16. mars 2017 óskað aðstoðar við að kæra örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins. Vegna anna hafi ekki verið unnt að ljúka vinnslu kærunnar í tíma og óskað sé eftir að tekið verði tillit til þess.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. febrúar 2017, þar sem kæranda var synjað um um örorkulífeyri og tengdar greiðslur og fyrra örorkumat um örorkustyrk var látið standa óbreytt.  

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og tíu dagar frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 6. febrúar 2017 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. maí 2017. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1.      afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2.      veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 6. febrúar 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2017, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Með bréfi, dags 26. maí 2017, greinir B frá ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þar kemur fram að vegna mikilla anna félagsráðgjafans hafi tafist að leggja fram kæru í tíma þó svo að kærandi hafi óskað eftir aðstoð þeirra vegna málsins innan kærufrests.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru framangreindar ástæður ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta