Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu kynnt í sænska þinginu
Jón Erlingur Jónasson, skrifstofustjóri á skrifstofu tvíhliða samstarfs og svæðisbundinna málefna í utanríkisráðuneytinu, kynnti áherslur og inntak formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu á málþingi í sænska þinginu, Riksdagen, í vikunni.
Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna þeirra ríkja sem liggja á eða að norðurslóðum. Ísland fer með formennsku í ráðinu 2019-2021 og fer formennskan fram undir yfirskriftinni, Saman til sjálfbærni á norðurslóðum. Sú yfirskrift vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjist samvinnu yfir landamærin. Hún minnir einnig á að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist öðru fremur um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Formennska í ráðinu er veigamikið verkefni sem m.a. felur í sér að kynna Norðurskautsráðið og einkum áherslur Íslands sem formennskuríkis á erlendum vettvangi.