Umsóknarfrestur Heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs framlengdur til 17. október
Enn er opið fyrir umsóknir í Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífs um þróunarsamvinnu og hefur umsóknarfrestur verið framlengdur til og með mánudeginum 17. október. Sjóðurinn ver allt að 200 m.kr. til samstarfsverkefna íslenskra fyrirtækja í þróunarlöndum á yfirstandandi ári. Fyrirtæki tefla fram fjárfestingu, nýskapandi þekkingu og lausnum til verkefna í þróunarlöndum. Áhersla er á að verkefnin skapi atvinnu og nýja þekkingu í þróunarlöndum auk þess að styðja við framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Áhrifamikil leið til að uppræta fátækt og bæta lífskjör í heiminum er að styðja við atvinnu- og efnahagsuppbyggingu í þróunarríkjum. Aðkoma einkageirans er lykilforsenda árangurs í þróunarsamvinnu á heimsvísu. Framlag hans hefur á liðnum áratug aukist um 10% á ársgrundvelli og nemur nú helmingi af heildarþróunarframlagi til jafns við framlag hins opinbera.
Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu hefur stutt verkefni á ólíkum sviðum svo sem endurnýjanlegrar orku, sjávarútvegs- og fiskimála, fjármála- og lögfræðiráðgjafar, matvælaframleiðslu og heilbrigðistækni. Sjóðurinn leggur áherslu á að verkefni styðji við einhver hinna þverlægu markmiða þróunarstefnu Íslands og stuðli að mannréttindum, hafi jákvæð loftslags- og umhverfisáhrif eða efli jafnrétti kynjanna.
,,Á þriðja tug íslenskra fyrirtækja hafa þegar notið stuðnings úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu. Íslensk fyrirtæki búa yfir þekkingu og hæfni sem getur stuðlað að sjálfbærum hagvexti og atvinnutækifærum í þróunarlöndum og geta um leið búið í haginn fyrir framtíðarmakaði. Ég hvet íslensk fyrirtæki til að skoða tækifæri í þróunarsamvinnu með stuðningi Heimsmarkmiðasjóðsins“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu var stofnaður í lok árs 2018. Hann veitir fyritækjum allt að 200.000 evru styrk til verkefna í þróunarlöndum á móti sama eða hærra framlagi fyrirtækja. Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum að fengnu áliti þriggja manna matshóps sem skipaður er þremur óháðum sérfræðingum á sviði þróunarsamvinnu. Umsóknir þurfa að berast á netfangið [email protected] fyrir miðnætti mánudaginn 17. október nk. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.