Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 321/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 321/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040050

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. apríl 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Marokkó (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um að afturkalla dvalarleyfi hans, sbr. 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hin kærða ákvörðun var birt fyrir kæranda þann 23. apríl sl.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að afturkalla dvalarleyfi hans verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Þann 19. janúar 2016 lagði kærandi fram umsókn til Útlendingastofnunar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Þann 2. júní 2016 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi á þeim grundvelli með gildistíma til 3. júní 2017. Samkvæmt því sem kemur fram í hinni kærðu ákvörðun lagði kærandi fram umsókn um framlengingu á síðastnefndu dvalarleyfi til Útlendingastofnunar þann 14. júní 2017. Sú umsókn barst hins vegar of seint og því var kæranda veitt nýtt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 18. ágúst 2017 með gildistíma til 18. ágúst 2018. Þann 7. desember 2017 bárust Útlendingastofnun upplýsingar frá lögreglu um að kærandi hefði verið búsettur um tíma í Svíþjóð. Kærandi hafi hlotið fangelsisdóm þar í landi auk þess að vera gerð brottvísun og endurkomubann inn á Schengen-svæðið til 16. janúar 2019.

Með bréfi, dags. þann 5. mars sl., tilkynnti Útlendingastofnun kæranda um hugsanlega afturköllun dvalarleyfis. Kærandi kom athugasemdum sínum á framfæri við Útlendingastofnun með bréfi, dags. 16. mars sl. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. apríl sl., var dvalarleyfi kæranda afturkallað. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 25. apríl 2018. Með kæru fylgdu athugasemdir kæranda og frekari athugasemdir bárust þann 7. maí sl. Með bréfi, dags. 7. maí sl., skipaði Útlendingastofnun kæranda löglærðan talsmann, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 28. maí sl.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til ákvæðis 59. gr. laga um útlendinga sem fjallar um heimild til afturköllunar dvalarleyfis. Benti Útlendingastofnun á að umsóknir kæranda um dvalarleyfi hér á landi hefðu verið ýmsum annmörkum háðar. Til dæmis hefði kærandi ekki getið þess í umsóknunum að hann hefði búið eða starfað í öðru ríki en heimaríki þrátt fyrir að gögn málsins bentu til þess að kærandi hefði starfað á Ítalíu. Þá hefði kærandi ekki veitt upplýsingar um dóm og refsingu sem hann hefði hlotið í Svíþjóð þann 16. janúar 2014 fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga væri það eitt af grunnskilyrðum fyrir útgáfu dvalarleyfis að ekki lægju fyrir atvik sem valdið gætu því að umsækjanda yrði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum útlendingalaga. Tók stofnunin m.a. fram að það að leyfishafi hafi hlotið dóm og verið vísað brott frá öðru norrænu landi væru atriði sem gætu valdið brottvísun eða frávísun samkvæmt XII. kafla laga um útlendinga og vísaði í því samhengi til c. liðar 1. mgr. 98. gr. og e. liðar 1. mgr. 106. gr. laganna. Ljóst væri að þær upplýsingar sem kærandi hafi ekki lagt fram hefðu getað haft verulega þýðingu við umrædda leyfisveitingu. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að skilyrði 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga væru uppfyllt og var dvalarleyfi kæranda afturkallað af þeirri ástæðu.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er tekið fram að árið 2012 hafi hann fengið atvinnuleyfi á Ítalíu sem gilt hafi í sex mánuði í senn. Litla vinnu hafi verið að fá þar í landi og kærandi því dvalið þar í skamman tíma. Kærandi hafi aldrei sótt um alþjóðlega vernd á Ítalíu eða í öðru ríki Evrópu. Árið 2014 hafi kærandi verið staddur í Svíþjóð og hlotið þar dóm fyrir þjófnað. Hafi refsing hans af sænskum dómstólum verið ákveðin fangelsisvist í átta mánuði en kærandi hafi þó aðeins þurft að sitja inni í fimm mánuði. Eftir að afplánun kæranda í Svíþjóð hafi lokið hafi hann verið sendur með flugvél til Marokkó. Sænsk stjórnvöld hafi ekki upplýst kæranda um að hann hafi fengið brottvísun og endurkomubann inn á Schengen-svæðið með gildistíma til 19. janúar 2019.

Vorið 2015 hafi kærandi komið hingað til lands sem ferðamaður. Á meðan þeirri dvöl hafi staðið hafi kærandi kynnst íslenskri konu, þau hafið sambúð og gengið í hjónaband. Í kjölfarið hafi kærandi sótt um og fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 2. júní 2016. Í ágúst 2017 hafi kærandi ferðast ásamt eiginkonu sinni til Brussel í Belgíu. Þar hafi för kæranda verið stöðvuð á þeim grundvelli að hann væri með skráð endurkomubann inn á Schengen-svæðið. Kæranda hafi þá fyrst verið ljóst að hann hefði hlotið endurkomubann. Hann hafi verið sendur til Marokkó og síðar ferðast aftur til Íslands til eiginkonu sinnar. Eiginkona kæranda vilji ekki flytja til Marokkó.

Kærandi hafi ekki greint íslenskum stjórnvöldum frá þeim dómi og refsingu sem hann hafi hlotið í Svíþjóð því hann hafi óttast viðbrögð eiginkonu sinnar. Áður en kærandi hafi kynnst eiginkonu sinni hafi hann glímt við áfengisvanda og verið mjög drukkinn er hann framdi hinn refsiverða verknað. Hann hafi ekkert munað fyrr en hann hafi vaknað á lögreglustöðunni í Svíþjóð. Þá hafi það ekki verið kærandi sem hafi framið umræddan þjófnað heldur vinur hans. Til sé upptaka sem styðji frásögn kæranda en allar varnir hans hafi verið virtar að vettugi við meðferð máls hans í Svíþjóð. Þar í landi hafi kærandi upplifað mikla fordóma í sinn garð.

Kærandi bendir á að dómur sænskra dómstóla yfir honum hafi verið kveðinn upp þann 16. janúar 2014. Því séu aðeins um átta mánuðir þar til fimm ár séu liðin frá því að hann gerðist sekur um refsiverðan verknað. Í c. lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga sé kveðið á um heimild en ekki skyldu til að vísa útlendingi úr landi ef hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum geti varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði. Telur kærandi að við mat á því hvort beiti eigi þessu ákvæði verði að taka tillit til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Kærandi hafi ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi á Íslandi, hann hafi dvalið hér á landi í 3 ár, verið löghlýðinn og reglusamur borgari, stundi atvinnu og greiði skatta. Ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Það yrði kæranda og eiginkonu hans verulega þungbært ef dvalarleyfi kærandi yrði afturkallað og honum gert að yfirgefa landið. 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að afturkalla dvalarleyfi kæranda, sbr. 59. gr. laga um útlendinga. Eins og að framan greinir dvaldi kærandi hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum reglum stjórnsýsluréttar. Þá segir í 2. mgr. sama ákvæðis að eftir afturköllun leyfis á grundvelli rangra upplýsinga eða þess að leynt var atvikum sem verulega þýðingu gátu haft við útgáfu þess leyfis skuli réttarstaða útlendings samkvæmt lögum um útlendinga vera eins og hann hefði aldrei fengið útgefið það leyfi sem og önnur leyfi byggð á sömu forsendum.

Eins og áður hefur verið rakið lagði kærandi í fyrsta sinn fram umsókn til Útlendingastofnunar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 19. janúar 2016 með því að fylla út sérstakt umsóknareyðublað sem útbúið er af Útlendingastofnun, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Í umsóknareyðublaðinu var óskað eftir upplýsingum um tiltekin atriði, m.a. hvort kærandi hafi búið í öðru landi en heimalandi í meira en sex mánuði og hvort kærandi hafi hlotið dóm. Í síðari umsókn sem kærandi lagði fram þann 14. júní 2017 var óskað eftir sömu upplýsingum. Í báðum umsóknum kæranda veitti hann ekki upplýsingar um hvort hann hafi áður búið í öðru landi og þá merkti kærandi við valmöguleikann „nei“ um hvort hann hafi hlotið dóm. Í málinu liggur m.a. fyrir að kærandi var dæmdur til refsingar í Svíþjóð þann 16. janúar 2014 fyrir innbrot og þjófnað. Var refsing kæranda ákveðin fangelsisvist í átta mánuði. Þá hlaut kærandi brottvísun og endurkomubann til Svíþjóðar í fimm ár. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sem liggja fyrir í málinu gildir endurkomubannið á Schengen-svæðinu til 16. janúar 2019.

Í ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga er fjallað um grunnskilyrði dvalarleyfis. Samkvæmt d. lið þess ákvæðis er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við VI.-XI. kafla laganna samkvæmt umsókn uppfylli hann það skilyrði að ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Í XII. kafla laga um útlendinga er fjallað um frávísun og brottvísun. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 106. gr. laganna er heimilt að vísa útlendingi frá landi við komuna til landsins eða allt að sjö sólahringum frá komu ef honum hefur verið vísað úr landi hér eða í öðru norrænu ríki, endurkomubann er í gildi og honum hefur ekki verið veitt heimild til að koma til landsins. Þá segir m.a. í c. lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði.

Kærunefnd telur ljóst að með því að veita ekki upplýsingar um áðurnefndan dóm og viðurlög sem kærandi sætti í Svíþjóð hafi hann, gegn betri vitund, leynt atvikum eða veitt rangar upplýsingar í skilningi 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga. Svo heimilt sé að afturkalla dvalarleyfi útlendings samkvæmt því ákvæði þurfa þau atvik eða þær upplýsingar sem um ræðir þó að hafa verulega þýðingu. Atvik eða upplýsingar er varða dóma, viðurlög og t.d. endurkomubönn sem umsækjendur um dvalarleyfi geta haft áhrif á hvort grunnskilyrði dvalarleyfis teljist uppfyllt, sbr. d. liður 1. mgr. 55. gr. laganna, og geta þar með haft verulega þýðingu fyrir úrlausn slíkra mála. Fyrir liggur að kærandi var þann 16. janúar 2014 dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir brot gegn sænskum hegningarlögum. Í því ljósi og með vísan til þess að kærandi leyndi eða veitti rangar upplýsingar um þann dóm og viðurlög sem hann sætti í Svíþjóð er það mat nefndarinnar að skilyrði 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga fyrir afturköllun á dvalarleyfi kæranda séu uppfyllt.

Þar sem skilyrðum 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er uppfyllt er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi kæranda. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 20 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                        Gunnar Páll Baldvinsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta