Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2019

Íslensk þátttaka á innflutningskaupstefnunni í Sjanghæ

Starfsfólk íslenska sendiráðsins í Peking og Íslandsstofu fyrir framan annan íslensku básanna í Sjanghæ - mynd

Alþjóðleg vörusýning helguð innflutningi til Kína, China International Import Expo, var haldin í annað sinn í Sjanghæ dagana 4.-9. nóvember sl. Kínverska viðskiptaráðuneytið stendur fyrir sýningunni sem er ætlað að sýna fram á opnun kínverska markaðarins og virka þátttöku Kína í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi. Þjóðarleiðtogar víðs vegar að sóttu opnunarviðburð sýningarinnar í ár og var Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra á meðal gesta fyrir Íslands hönd.

Íslandsstofa stóð fyrir sameiginlegum básum ellefu íslenskra fyrirtækja á sýningunni og voru þeirra á meðal útflytjendur mat- og drykkjarvöru, snyrtivöru, leikfanga og stoðtækja. Íslensku fyrirtækin fengu mikla athygli enda í nógu að snúast við að svara fyrirspurnum gesta sem í heildina töldu 900.000 manns.

Sérstakur viðburður um aukin viðskipti norðurlandanna við Hubei hérað í Kína fór fram á hliðarlínum sýningarinnar. Gunnar Snorri Gunnarsson ávarpaði viðburðinn og lagði áherslu á aukin viðskiptatækifæri Íslands og Hubei héraðs á sviði ferðaþjónustu og farþegaflutninga. Þess má til gamans geta að Wuhan borg sem gegnir hlutverki stjórnsýslumiðstöðvar Hubei héraðs er vinabær Kópavogs.

Íslensk fyrirtæki líta í auknum mæli til Kína sem markaðar fyrir vörur sínar og þjónustu í kjölfar gildistöku fríverslunarsamnings ríkjanna árið 2014. Útflutningur Íslands á Kínamarkað hefur ríflega þrefaldast á þeim fimm árum sem samningurinn hefur verið í gildi og er Kína nú sjöundi stærsti útflutningsmarkaður íslenskra fyrirtækja og helsti viðskiptaaðili Íslands í Asíu.

  • Íslensk þátttaka á innflutningskaupstefnunni í Sjanghæ - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta