Nr. 916/2024 Úrskurður
Hinn 19. september 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 916/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24060126
Kæra [...]
-
1 Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 14. júní 2024 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og brottvísa henni frá landinu. Var kæranda gert að yfirgefa landið án tafar ellegar sæta endurkomubanni í tvö ár.
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal nefndin meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju til þeirrar stofnunar sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessarar fer fram endurskoðun á ákvörðun Útlendingastofnunar sem m.a. felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort taka eigi mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 36. gr. laganna og hvort skilyrði fyrir brottvísun og endurkomubanni séu uppfyllt. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt.
Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hennar verði tekin til efnismeðferðar samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að mál kæranda verði tekið til meðferðar á ný.
-
2 Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 24. nóvember 2023. Kærandi kom m.a. til viðtals hjá Útlendingastofnun 6. maí 2024, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Í viðtali greindi kærandi frá því að hafa komið til Perú árið 2016 og dvalið þar í um þrjá mánuði. Kærandi hafi ekki haft dvalarleyfi þar í landi. Útlendingastofnun ákvað 14. júní 2024 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að henni skyldi brottvísað frá landinu. Útlendingastofnun taldi að kærandi hefði slík tengsl við Perú að eðlilegt og sanngjarnt væri að hún dveldi þar, ferðaðist eða yrði flutt þangað, sbr. d-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun taldi að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Það var mat stofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði send til Perú. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda sama dag og barst greinargerð kæranda 27. júní 2024 ásamt fylgigagni.
-
3 Greinargerð til kærunefndar
Farið hefur verið yfir greinargerð kæranda og mat lagt á þau sjónarmið er þar koma fram. Í ljósi niðurstöðu málsins verður greinargerð kæranda ekki reifuð nánar.
- 4Aðstæður kæranda
Kærandi er kona á [...] sem kom hingað til lands ásamt maka sínum, þremur börnum og bróður sínum. Sæta mál þeirra fyrrnefndu meðferð samkvæmt 37. gr. laga um útlendinga en mál bróður hennar sætir griðlandsmeðferð samkvæmt 36. gr. laganna. Samkvæmt framburði kæranda ferðaðist hún til Perú árið 2016 og dvaldi þar í landi í þrjá mánuði með vinum sínum. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 24. nóvember 2023. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hún hafi ekki verið með dvalarleyfi í Perú. Kærandi vilji ekki snúa aftur til Perú þar sem hún óttist nánar tilgreind glæpasamtök frá heimaríki sem séu með tengsl við Perú. Kærandi greindi frá því að vera með lágan blóðþrýsting og glíma stundum við þunglyndi. Kærandi hafi fengið kvíðaköst og eigi erfitt með að eiga samskipti við fólk. Kærandi hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi í heimaríki af hálfu glæpagengis.
- 5Reglur stjórnsýsluréttar og málsmeðferð samkvæmt lögum um útlendinga
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi dvalið í Perú í um þrjá mánuði. Að mati stofnunarinnar sé ekki óvarlegt að áætla að kærandi hafi myndað tengsl við Perú á þeim þremur mánuðum sem hún dvaldi þar í landi ásamt vinum sínum. Frásögn kæranda um að hún hafi íhugað að fara þangað aftur í leit að öryggi renni stoðum undir það, enda sé ekki óeðlilegt að leita til lands sem hún hafi fengið að kynnast og þekki af eigin raun. Þar að auki sé móðurmál kæranda spænska, sem sé opinbert tungumál í Perú. Það sé því mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi heimild til að ferðast til Perú og geti sótt þar um alþjóðlega vernd. Með tilliti til landaupplýsinga sé það einnig mat Útlendingastofnunar að kæranda standi til boða heilbrigðisþjónusta og önnur úrræði sem hún kunni að þarfnast í Perú og að ekki sé hætta á að hún þurfi að óttast ofsóknir eða að verða senda áfram til heimaríkis síns í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að fyrir liggi fullnægjandi sönnun þess að kærandi hafi haft heimild til dvalar í Perú og að engar lögformlegar hindranir væru á því að hún geti snúið sjálfviljug þangað. Að minnsta kosti geti kærandi ferðast til Perú og sótt um alþjóðlega vernd hjá yfirvöldum við komuna þangað.
Í d-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Í frumvarpi til laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að með frumvarpinu sé lagt til að ákvæðið mæli fyrir um þau tilvik þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi slík tengsl við annað ríki að sanngjarnt og eðlilegt geti talist að hann dvelji þar. Við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt skuli m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Geti ákvæðið þannig einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hafi ekki dvalið í ríkinu en hafi náin fjölskyldutengsl við það, svo sem þegar maki umsækjanda sé ríkisborgari þess ríkis og geti á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi. Í lögskýringargögnum kemur fram að það sé í höndum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála að meta hvert og eitt mál á einstaklingsgrundvelli, m.a. með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda, stöðu hans í því ríki sem hann hefur tengsl við og aðstæðum í ríkinu.
Samkvæmt framburði kæranda dvaldi hún í Perú í um þrjá mánuði árið 2016 sem ferðamaður ásamt vinum sínum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún hafi ekki haft dvalarleyfi í Perú auk þess sem enginn náinn fjölskyldumeðlimur hafi verið búsettur þar í landi. Hún tók þó fram að hún gæti ferðast aftur þangað til lands.
Við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt í skilningi d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Geti ákvæðið þannig einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hafi ekki dvalið í ríkinu en hafi náin fjölskyldutengsl við það, svo sem þegar maki umsækjanda sé ríkisborgari þess ríkis og geti á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi. Eins og atvikum er háttað í máli kæranda verður ákvæðinu ekki beitt einvörðungu á grundvelli þess að kærandi hafi dvalið í Perú í þrjá mánuði sem ferðamaður. Auk þess ber framburður kæranda með sér að hún hafi ekki náin fjölskyldutengsl í Perú þannig að hún geti á þeim grundvelli lagt fram umsókn um dvalarleyfi í landinu. Þrátt fyrir að kærandi hafi greint frá því að geta ferðast til Perú og þrátt fyrir að engar lögformlegar hindranir séu á því að hún fari þangað til lands í því skyni að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd, verður talið að tengsl kæranda við landið séu ekki nægilega rík til að ákvæði d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verði beitt í máli hennar. Með vísan til fyrirliggjandi gagna og framburðar kæranda, er ekki unnt að leggja til grundvallar að kærandi hafi slík tengsl við viðtökuríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hún dvelji þar, ferðist eða sé flutt þangað í skilningi d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þar sem skilyrðum fyrir beitingu d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið fullnægt skal umsókn kæranda tekin til efnismeðferðar.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar eru felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnunar að taka mál kæranda til efnismeðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.
Þorsteinn Gunnarsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares