Nýir ofanflóðagarðar vígðir í Neskaupsstað
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði formlega ný ofanflóðamannvirki á Tröllagiljasvæðinu í Neskaupsstað við hátíðlega athöfn í vikunni.
Framkvæmdirnar voru unnar á árunum 2008 til 2017 en um er að ræða um 660 m langan þvergarð, um 420 m langan leiðigarð og 24 snjóflóðavarnarkeilur. Markmið með byggingu snjóflóðamannvirkjanna er að taka við snjóflóðum, stöðva flóðin og beina hluta þeirra í sjó.
Varnargarðarnir undir Tröllagiljum eru hluti af bæjarlandslaginu á Neskaupsstað. Var við hönnun þeirra og byggingu lögð áhersla á útlit mannvirkisins, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Þannig var hluti vígsluathafnarinnar Hágarðahlaup Knattspyrnudeildar Þróttar sem ráðherra ræsti, þar sem hlaupið var eftir þeim stígum sem orðið hafa til við framkvæmdir við snjóflóðamannvirkin.
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, setti athöfnina og bauð gesti velkomna. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, flutti ávarp og Írena Fönn Clemmensen flutti tvö ljóð. Að því loknu ávarpaði ráðherra samkomuna og sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur blessaði mannvirkin í framhaldinu.
Að lokinni vígsluathöfn bauð Fjarðabyggð til kaffisamsætis í Safnahúsinu í Neskaupsstað.