Ársskýrslur ráðherra birtar
Ársskýrslur ráðherra eru nú gefnar út í annað sinn. Aukið gagnsæi um ráðstöfun og nýtingu fjármuna er markmiðið með skýrslunum sem er einnig ætlað að vera grundvöllur fyrir umræðu um stefnumörkun og forgangsröðun hins opinbera.
Ársskýrslur ráðherra eru birtar samkvæmt lögum um opinber fjármál. Í lögunum er kveðið á um að hver ráðherra skuli birta slíka skýrslu þar sem gera skal grein fyrir útgjöldum málefnasviða og málaflokka og bera saman við fjárheimildir fjárlaga. Þá skal í ársskýrslum gera grein fyrir fjárveitingum til einstakra ríkisaðila og verkefna og leggja mat á ávinning af þeim með tilliti til aðgerða, markmiða og mælikvarða sem settir hafa verið fram í fjármálaáætlun.
Ársskýrslur ráðherra veita heildstæða samantekt um þróun útgjalda og mat á árangri. Samanburður er gerður við sett markmið í því skyni að skýra samhengi fjármuna og stefnumótunar. Þannig er tryggð yfirsýn og eftirfylgni með framgangi settra markmiða í fjármálaáætlun á einstökum málefnasviðum sem ráðherrar bera ábyrgð á.