Utanríkisráðuneytið og UNICEF bregðast við neyð barna
Samstarf UNICEF og utanríkisráðuneytisins er mikilvægur liður í þróunarsamvinnu Íslands og íslensk stjórnvöld hafa veitt framlög til UNICEF alþjóðlega um árabil. Mikilvægur hluti framlaganna frá íslenska ríkisinu til UNICEF á heimsvísu eru svokölluð kjarnaframlög (e. regular resources) sem ekki eru eyrnamerkt ákveðnum verkefnum. Árið 2016 studdi íslenska ríkið UNICEF alþjóðlega með kjarnaframlagi upp á tæplega milljón bandaríkjadala, og þökk sé þeim stuðningi náði UNICEF að sinna neyðaraðgerðum á svæðum sem náðu til milljóna barna.
Óeyrnamerkt framlög gera UNICEF kleift að skipuleggja sig fram í tímann, bregðast strax við þegar neyðarástand brýst út og vera til staðar þar sem þörfin er mest hverju sinni. Þau gera UNICEF kleift að sinna þróunar- og hjálparstarfi á svæðum sem njóta lítillar athygli fjölmiðla og umheimsins almennt og að ná til allra berskjölduðustu barnanna. Jafnframt gera framlögin UNICEF kleift að takast á við orsakir og afleiðingar hamfara með því að styðja við innviði samfélaga og uppbyggingu sem hjálpa fjölskyldum og samfélögum að vera betur í stakk búin til að takast á við hamfarir sem kynnu að skella á í framtíðinni.
Framlög frá Íslandi gegna því ómissandi hlutverki í að vernda og bæta líf barna um allan heim, óháð því hvort þörf þeirra hafi vakið athygli alþjóðasamfélagsins. Þökk sé slíkum stuðningi getur UNICEF barist fyrir réttindum allra barna á heimsvísu og stuðlað að varanlegum umbótum í heiminum.
Ómetanlegur stuðningur við börn í Jemen, Eþíópíu og Nígeríu
Árið 2016 nýttist stuðningur frá íslenska ríkinu á svæðum þar sem neyð barna er gífurleg:
Í Jemen var 1,7 milljónum barna hjálpað að halda áfram námi, meðal annars í bráðabirgðaskólum sem settir voru upp eftir að skólarnir þeirra voru gjöreyðilagðir í átökum. Auk þess tryggði UNICEF 165.000 manns aðgengi að hreinu drykkjarvatni í borginni Dhamar með því að setja upp vatnsdælur og útvegaði 10.200 manns í borginni Sana hreint vatn og hreinlætisvörur.
Eftir mikla þurrka ásamt miklum flóðum í Eþíópíu voru mörg börn í mjög viðkvæmri stöðu. UNICEF og samstarfsaðilar brugðust við neyðarástandinu og þökk sé framlögum m.a frá Íslandi náðist að tryggja 153.600 manns hreint drykkjarvatn og hreinlætisaðstöðu, 1,6 milljón grunnskólabörn byrjuðu aftur í skóla og 9,3 milljónir barna um allt landið fengu næringarþjónustu. Auk þess setti UNICEF á laggirnar 13 hópa af heilsu- og næringarsérfræðingum sem ferðuðust á milli svæða með hæstu tíðni ungbarnadauða og sinntu ungbarnavernd og fræðslu fyrir verðandi mæður.
Skortur á uppskeru, hækkandi matvælaverð og stórfelldur fólksflótti vegna árása vígahreyfingarinnar Boko Haram skapaði algjört neyðarástand í Nígeríu á árinu, og mikill fjöldi barna var í lífshættu sökum vannæringar og smitsjúkdóma. Óeyrnamerkt framlög skiptu sköpum í að ná til barna sem þurftu nauðsynlega hjálp. Meðal annars voru 56 milljón börn bólusett gegn mænusótt og 25 milljón börn fengu alhliða heilsu- og næringarþjónustu.
Almenn framlög frá Íslandi nýttust einnig í baráttu UNICEF fyrir börn í Palestínu, Mósambík og Sýrlandi. Nú rétt fyrir jólin ákvað utanríkisráðuneytið einnig að styðja neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen um 30 milljónir.
Þessi stuðningur er ómetanlegur og gerir UNICEF kleift að vera til staðar fyrir börn og gæta að velferð þeirra um allan heim.