Hoppa yfir valmynd
3. júní 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Viðbragðáætlanir ræddar um land allt

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra halda á næstunni fundi um land allt til að ræða viðbrögð við inflúensufaraldri.

Fulltrúar sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hitta sóttvarnalækna, lögreglustjóra, forystumenn sveitarfélaga og heilbrigðisstarfsmenn á alls fimmtán fundum víðs vegar um landið núna í júní til að ræða svæðisáætlanir um viðbrögð vegna inflúensufaraldurs. Þannig á að samræma aðgerðir í héraði og á landsvísu ef inflúensa A (H1N1) breiðist út hérlendis. Fyrsti fundurinn af þessu tagi var á Akranesi í gær og tókst vel. Á morgun er hliðstæður fundur á Selfossi og á föstudag í Stykkishólmi og á Suðurnesjum. Áætlað er að vinnu við svæðisáætlanir ljúki fyrir 1. september 2009.

Inflúensa A (H1N1) breiðist áfram út í heiminum. Alls hafa nú verið greind 19.159 tilfelli, þar af 605 í ríkjum ESB og EFTA.

Skráð dauðsföll af völdum veikinnar eru 117 talsins, þar af 97 í Mexíkó, 17 í Bandaríkjunum, 2 í Kanada og 1 í Kosta Ríka.

  • Á Íslandi hefur einungis eitt tilfelli sýkingar af völdum hinnar nýju inflúensu A (H1N1) verið staðfest.
  • Læknar eru áfram hvattir til að senda sýni til veirugreiningar samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis.
  • Viðbúnaðarstig hér á landi er óbreytt, þ.e. unnið er samkvæmt hættustigi.
  • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur enn ekki aukið viðbúnað sinn og farið upp á sjötta og efsta stigið. Stofnunin hefur því ekki lýst yfir heimsfaraldri og jafnvel þótt hún geri það verður óbreyttur viðbúnaður hérlendis, enda inflúensufaraldurinn vægur.

Tilkynningar um viðbúnað vegna inflúensu A (H1N1) eru birtar á influensa.is, bæði á íslensku og ensku, og á almannavarnir.is. Þar er einnig að finna ýmsar upplýsingar um inflúensuna og ráðstafanir í því sambandi, einnig á landlaeknir.is og á heimasíðum Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins - ECDC, http://www.ecdc.europa.eu/ og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar - WHO, http://www.who.int/en/.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta