Hoppa yfir valmynd
9. júní 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Annað inflúensutilvik staðfest

Sextugur karlmaður á höfuðborgarsvæðinu greindist með inflúensu A (H1N1). Þetta er annað tilvikið sem staðfest er hér á landi. Maðurinn er á batavegi. Fylgst er með fjölskyldu og fleirum sem viðkomandi hefur umgengist eftir heimkomuna en smit hjá öðrum hefur ekki verið staðfest. Maðurinn kom til Íslands frá Bandaríkjunum 3. júní síðastliðinn en veiktist eftir að heim var komið og því ekki talið að hann hafi smitað aðra á leið sinni til Íslands. Í framhaldinu var tekið sýni til rannsóknar sem staðfesti greininguna.

Þetta er í annað sinn sem inflúensa A (H1N1) greinist á Íslandi. Fyrra tilfellið var staðfest 22. maí og þar átti líka í hlut karlmaður sem var að koma frá Bandaríkjunum.

Viðbúnaður hérlendis vegna inflúensufaraldurs er óbreyttur og áfram er unnið að samhæfingu viðbragðsaðila þar að lútandi, meðal annars með svæðisáætlunum sem ræddar eru þessa dagana um allt land á fundum á vegum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

  • Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins greinir frá því í dag að alls séu yfir 26.000 tilfelli inflúensu A (H1N1) staðfest í heiminum, þar af hátt í tólf hundruð í ríkjum ESB og EFTA.
  • Inflúensa A (H1N1) hefur dregið 139 manns til dauða, þar af 106 í Mexíkó og 27 í Bandaríkjunum.

Tilkynningar um viðbúnað vegna inflúensu A (H1N1) eru birtar á influensa.is, bæði á íslensku og ensku, og á almannavarnir.is. Þar er einnig að finna ýmsar upplýsingar um inflúensuna og ráðstafanir í því sambandi á landlaeknir.is, og á heimasíðum Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins - ECDC, http://www.ecdc.europa.eu/ og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar - WHO, http://www.who.int/en/.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta