Ráðherrar ræða velferð á krepputímum
Áhrif efnahagssamdráttar á velferðarmálin, félags- og heilbrigðismál, samstarf Norðurlandanna í baráttunni gegn afleiðingum inflúensu, og framtíðarskipulag norrænna stofnana á sviði velferðarmála, allt eru þetta viðfangsefni félags- og heilbrigðisráðherra Norðurlandanna, sem halda árlegan fund sinn á Íslandi dagana 29. og 30. júní.
Fundurinn hefst síðdegis í dag, mánudaginn 29. júní, og lýkur um hádegisbil á morgun með blaðamannafundi ráðherranna.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, bjóða til fundarins, en fimm starfsbræður þeirra annars staðar af Norðurlöndum hafa boðað komu sína.
Á fundinum mun Stefán Ólafsson, prófessor, meðal annarra, gera grein fyrir áhrifum efnahagssamdráttarins á velferðarþjónustuna hér á landi og fara yfir hvað Íslendingar geta lært af t.d. Finnum, Færeyingum og Svíum, en ráðherrar allra landanna sækja fundinn.
Norrænu lýðheilsuverðlaunin verða afhent á fundinum, en þau eru veitt einstaklingi eða samtökum, sem hafa skarað framúr á sviði lýðheilsu, að mati sérstakrar nefndar á vegum Norræna lýðheilsuháskólans í Gautaborg.
Norrænu ráðherrarnir halda blaðamannafund og greina frá niðurstöðum fundarins á morgun, þriðjudag, í Gullteigi á Grand hóteli og hefst sá fundur kl. 12:00.