Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Þjónusta HTÍ við kornabörn aukin

Þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar við ungabörn hefur farið mjög vaxandi undanfarin tvö ár og verður enn aukin í haust. Um 30 af hundraði fleiri börn hafa verið heyrnarmæld á stofnuninni sjálfri, en aukningin er yfir 200% þegar horft er til allra þeirra barna sem hafa verið heyrnarmæld á stofnuninni og inná spítölum, en samtals voru heyrnarmæld um 4.300 börn á árinu 2008.

Heyrnar- og talmeinastöðin stefnir að því að heyrnarmæla að minnsta kosti 95% allra barna sem fæðast á sjúkrahúsum landsins, en í þessu felst mikið öryggi fyrir þá nýju einstaklinga sem njóta munu þjónustunnar. Á árinu 2008 náðist að mæla tæplega 94% allra fæddra barna á Landspítalanum og talan hefur enn hækkað ef fyrstu mánuðir ársins 2009 eru skoðaðir.

Árangurinn hefur orðið betri eftir því sem á hefur liðið og má það rekja til árvekni þeirra sem umsjón hafa með mælingunum. Einnig er ljóst að foreldrar og annað fagfólk sem sinnir börnum er meðvitaðra um verkefnið og að mögulegt er að heyrnarmæla nýfædd börn. Þannig hefur aðsókn hjá HTÍ farið vaxandi og er 30% aukning í komu barna á HTÍ það sem af er árinu 2009.

Í apríl 2007 var farið að heyrnarmæla börn sem fæddust á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Á tveggja ára tímabili hafa rúmlega 6000 börn verið heyrnarmæld eða um 79% allra barna sem fæddust á þessu tímabili á sjúkrahúsinu. Tvö börn hafa greinst heyrnarlaus og hafa farið í kuðungsígræðslu, þrjú til viðbótar eru heyrnarskert en 83 börn eru enn í frekari rannsóknum og hafa 47 af þeim staðist heyrnarmælingu á öðru eyra.

Í upphafi fóru þrír hjúkrunarfræðingar á námskeið til að læra að heyrnarmæla en reyndin hefur orðið sú að einn hjúkrunarfræðingur hefur sinnt verkefninu að mestu. Starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvar hafa að einhverju leyti leyst hana af í sumarfríum. Á fyrstu átta mánuðum verkefnisins þurfti að vísa rúmlega 5% barna til frekari mælinga á HTÍ en á næstu tólf mánuðum fór hlutfallið niður í 3,6% og á síðustu þremur mánuðum verkefnisins er hlutfallið komið niður í 2% sem verður að teljast mjög gott. Tölurnar staðfesta mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsmaðurinn sem framkvæmir mælinguna hafi fengið góða þjálfun við mælingar til að áreiðanleikinn sé sem mestur.

Ákveðið hefur verið að halda áfram að heyrnarmæla börn sem fæðast á LSH og hefur verið undirritaður samningur þar um. Þá er unnið að því að bjóða börnum sem fæðast í Reykjanesbæ, á Selfossi og á Akranesi að koma á HTÍ til heyrnarmælingar og verður sú þjónusta foreldrum að kostnaðarlausu. Þá er stefnt að því að byrja að heyrnarmæla börn sem fæðast á Akureyri frá og með september 2009.

HTÍ er með aðstöðu á Heilsugæslustöðinni á Akureyri og mun heyrnarfræðingur fara vikulega norður og sjá meðal annars um heyrnarmælingar á nýburum. Um 95% barna fæðast á þessum fimm stöðum á landinu. Foreldrum barna sem fæðast annars staðar stendur til boða að koma með börn sín á HTÍ í Reykjavík eða á Akureyri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta