Hoppa yfir valmynd
7. september 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2004

Þriðjudaginn, 7. september 2004

   

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

   

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. febrúar 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 16. febrúar 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 15. desember 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„A var í námi á haustönn 2002 en vegna læknisaðgerðar var henni ekki kleift að ljúka 75% af náminu og tekið var tillit til þessa af hálfu Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem greiddi henni framfærslulán til jafns á við að hafa lokið 75% námi. Á vorönn 2003 var A skráð í mastersnám innan B-háskóla. Hún var skráð í eitt námskeið innan B-háskóla og tvö námskeið innan D-háskóla vegna þessa náms. Samanlagt vægi þessara námskeiða jafngildir yfir 75% námi. Vegna veikinda á meðgöngu gat A ekki klárað þessi námskeið sem staðfestist með meðfylgjandi læknisvottorði.

Vegna veikinda á vorönn var beiðni A hafnað um fullan fæðingarstyrk þar sem hún sótti ekki um sjúkradagpeninga fyrir þetta tímabil. Áður en beiðni A var hafnað hafði hún enga vitneskju um að sjúkradagpeningar stæðu henni til boða sem námsmanni og á þeim tímapunkti var umsóknarfrestur hennar fyrir sjúkradagpeninga liðinn. Að auki stóð A í þeirri von að geta klárað þessi námskeið en veikindi hennar vörðu það lengi að henni var það ókleift.

Byggt á ofangreindum upplýsingum og meðfylgjandi læknavottorðum teljum við að beiðni A hafi ekki hlotið sanngjarna meðferð og þar af leiðandi óskum þess að kæra okkar verði tekin til greina og að A verði veittur fullur fæðingarstyrkur.“

 

Með bréfi, dags. 17. mars 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. mars 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Kærandi sótti með umsókn, dags. 26 ágúst 2003, um fæðingarstyrk námsmanna frá 1. september 2003. Umsókn hennar var vegna barns, sem fætt er 7. september 2003, en væntanlegur fæðingardagur þess var 10. september 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. er það að jafnaði skilyrði fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kæranda var með bréfi, dags. 15. desember 2003, synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki skilyrði um 6 mánaða samfellt nám.

Einu gögnin sem kærandi hefur lagt fram um nám sitt síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns síns og námsframvindu er staðfesting frá B-háskóla, dags. 13. febrúar 2003, þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið að heimila kæranda innritun í einstaklingsbundið M.A. nám í E-fræði.

Í 1. mgr. 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2 mgr. 7. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 915/2002, skal fylgja með umsóknum í slíkum tilvikum staðfesting frá viðkomandi skóla um að móðir hafi verið skráð í nám á því tímabili sem um ræðir og vottorð frá lækni. Er tryggingayfirlækni gert að meta læknisfræðilega hvort skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.

Undanþáguákvæði þetta kemur ekki til álita í máli kæranda, þar sem hún hefur ekki lagt fram neina staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins, heldur einungis, eins og fyrr er nefnt, samþykki B-háskóla fyrir heimild til innritunar. Þá fékk kærandi hvorki greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður né var á biðtíma eftir dagpeningum, eins og gert er að skilyrði í ákvæðinu.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. ffl. Rétt þykir að vekja athygli á að eins og fram kemur í bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 15. desember 2003, hefur kæranda í stað fæðingarstyrks námsmanna verið greiddur lægri fæðingarstyrkur.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. apríl 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Þá segir að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr., sbr. reglugerð nr. 915/2002, skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og sýnt viðunandi námsárangur.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000, sbr. 4. gr. reglugerðarbreytingar nr. 915/2002 er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þótt hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám skv. 1. mgr. 14. gr. og hafa fengið sjúkradagpeninga sem námsmaður eða vera á biðtíma eftir dagpeningum. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Með hliðsjón af því að kærandi elur barn 7. september 2003 er tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu frá 7. september 2002 fram að fæðingardegi barns.

Kærandi kveðst hafa verið skráð í nám veturinn 2002-2003. Gögn sem lögð hafa verið fram því til staðfestingar er bréf frá B-háskóla dags. 13. febrúar 2003, þar sem staðfest er að samþykkt hafi verið að heimila kæranda innritun í einstaklingsbundið M.A. nám í E-fræði.

Kærandi lagði fram læknisvottorð, dags. 21. janúar 2004, þar sem kemur fram að fyrstu fjóra mánuði meðgöngu hafi hún haft skerta starfsgetu, vegna meðgöngutengdra veikinda. Fram kemur að seinni hluti meðgöngu hafi gengið ágætlega.

Ekki liggur fyrir staðfesting frá skóla um að kærandi hafi verið skráð í fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns eða upplýsingar um námsárangur hennar. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði um 75-100% nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 19. gr. ffl. sbr. og 1. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Þá uppfyllti hún ekki skilyrði undanþáguákvæðis 1. mgr. 14. a. reglugerðar nr. 909/2000 um skráningu í fullt nám og greiðslu sjúkradagpeninga. Hún hefur því ekki öðlast rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

   

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

     

     

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta