Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 38/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 20. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 38/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110001

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.             Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 31. október 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. október 2022, um að synja honum um fjölskyldusameiningu við [...], [...], ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd K) á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að taka mál hans til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

K var veitt alþjóðleg vernd hér á landi með ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 3. desember 2020. Umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu er dagsett. 13. mars 2021. Umsóknin var móttekin hjá Útlendingastofnun 12. maí 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. október 2022, var umsókn kæranda synjað. Var ákvörðunin kærð til kærunefndar 31. október 2022. Hinn 21. nóvember 2022 barst kærunefnd greinargerð kæranda.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að K hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi 20. desember 2020. Hinn 12. maí 2021 hafi K lagt fram umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu við K. Með umsókn kæranda hafi K lagt fram fæðingarvottorð kæranda, þar sem hún hafi verið tiltekin sem kynmóðir hans, og yfirlýsingu um ættleiðingu útgefna 21. mars 2021. Samkvæmt yfirlýsingunni um ættleiðingu hafi tvö vitni komið fyrir dómstól í Sómalíu og lýst því yfir að K og fyrrverandi eiginmaður hennar, M, hafi ættleitt kæranda eftir að kynmóðir hans hafi látið sig hverfa eftir fæðingu hans 17. apríl 2017. Þar sem ættleiðingin hafi átt sér stað árið 2017 var miðað við að fjölskyldutengsl þau sem byggt var á við umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu hafi orðið til áður en umsókn K um alþjóðlega vernd var lögð fram. Var það mat Útlendingastofnunar að 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í málinu. Útlendingastofnun tók fram í ákvörðun sinni að þar sem umsóknin varðaði barn þá liti stofnunin til 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og yrði ákvörðun í máli kæranda því tekin með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Í ákvörðuninni er vísað til þess að vegna þess að gögn frá heimaríki kæranda séu almennt talin óáreiðanleg vegna veikleika í almannaskráningum hafi stofnunin ákveðið að senda fylgigögn með umsókn kæranda í áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum. Í rannsóknarskýrslu lögreglunnar, dags. 3. mars 2022, hafi meðal annars komið fram að framangreint ættleiðingarvottorð væri ekki öryggisskjal, grunnefnið (pappírinn) væri ekki öryggispappír og bæri enga öryggisþætti og væri skjalið því ótraust að forminu til.

Þá kemur fram í ákvörðuninni að Útlendingastofnun hefði óskað eftir því að dómsmálaráðuneyti hefði milligöngu um að senda fyrir hönd stofnunarinnar beiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um minnisblað um mat á erlendum ættleiðingargögnum. Hafi minnisblað sýslumanns borist Útlendingastofnun 6. júlí 2022. Í minnisblaðinu hafi komið fram að við mat á því hvort erlend ættleiðing væri gild þyrftu að fylgja með ýmis gögn, svo sem erlent ættleiðingarskjal, skjal sem sýndi að ættleiða mætti barnið, fæðingarvottorð barnsins sem útgefið hefði verið áður en ættleiðing hafi farið fram og tilgreindi kynforeldra barnsins, erlent vegabréf barnsins og gögn um lög og reglur um ættleiðingu í ættleiðingarríki ef um væri að ræða ríki utan Haag samningsins. Útlendingastofnun vísaði í ákvörðuninni til þess að með umsókn kæranda hefði einungis fylgt vottorð um ættleiðingu og fæðingarvottorð þar sem K væri skráð sem kynforeldri kæranda. K hefði hins vegar ávallt verið í skýr í svörum sínum þess efnis að kærandi væri ekki líffræðilegt barn hennar heldur hefði hún tekið hann í fóstur þegar hann hefði verið ungabarn. Þá segir í ákvörðuninni að óumdeilt væri að kærandi væri ekki líffræðilegt barn K. Þá hefði K ekki skilað inn neinum gögnum sem sýndu fram á forsjá hennar yfir kæranda annað en sómalska yfirlýsingu um ættleiðingu sem hafi verið metin ótraust að forminu til og einnig óskýra yfirlýsingu um forsjá. Var það mat Útlendingastofnunar að ættleiðing kæranda uppfyllti ekki íslensk lög eða alþjóðalög um ættleiðingu enda væri Sómalía ekki aðili að Haag samningnum. Tók stofnunin fram að eiginmaður K og ættleiðingarforeldri kæranda hefði ákveðið að draga umsókn sína um fjölskyldusameiningu við K til baka og væri hann enn búsettur í heimaríki kæranda.

Að framangreindu virtu var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga til fjölskyldusameiningar við K.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi byggi á því að eiga rétt á fjölskyldusameiningu þar sem foreldri hans hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til lágmarksréttinda sinna samkvæmt stjórnsýslurétti í því sambandi, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993, sem og réttinda og skyldna sem leiði af lögum um útlendinga. Um sé að ræða ákvörðun sem varði barn og skuli því tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi, sbr. meðal annars 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992. Kærandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eigi börn útlendings sem nýtur alþjóðlegrar verndar einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Fjölskyldusameining sé ríkur réttur handhafa alþjóðlegrar verndar og sé ljáð vægi meginreglu í útlendingarétti. Því verði að túlka allar undantekningar á heimild til fjölskyldusameiningar þröngt og meta vafa kæranda í hag í samræmi við almennt viðurkenndar lögskýringaraðferðir.

Þar sem ættleiðing hafi átt sér stað fyrir tíma umsóknar K um alþjóðlega vernd hafi það verið mat Útlendingastofnunar að 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í málinu. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun með þessu gagnályktað frá 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og gert ráð fyrir því að um fjölskyldutengsl sem verði til eftir að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram fari eftir ákvæðum VIII. kafla laga um útlendinga og geti þær ættleiðingar sem fari fram fyrir umsókn um alþjóðlega vernd ekki átt þar undir. Kærandi telur framangreinda túlkun Útlendingastofnunar efnislega ranga, enda séu kröfur 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga rýmri til dvalarleyfis barna sem ættleidd séu eftir að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram og heimili að víkja frá skilyrðum laganna ef hagsmunir barnsins krefjist þess og sérstaklega standi á. Kærandi telur að samræmisskýring milli ákvæða 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og 71. gr. sömu laga ætti að leiða til þess að hið sama myndi gilda um þau börn sem ættleidd væru fyrir umsókn foreldris um alþjóðlega vernd, það er að segja að heimilt væri að víkja frá skilyrðum laganna ef sérstaklega stæði á og ef hagsmunir barnsins krefðust þess. Í öllu falli ætti ekki að leggja á kæranda strangari skilyrði til fjölskyldusameiningar en á þá sem ættleiddir séu eftir umsókn foreldris um alþjóðlega vernd. Með hliðsjón af því að kærandi sé barn K og að lögð hafi verið fram gögn sem sýni fram á tengsl þeirra beggja auk þess sem K hafi raunverulega forsjá yfir kæranda þá séu skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga uppfyllt og kærandi eigi þar með rétt á fjölskyldusameiningu.

Að mati kæranda séu ógildingarannmarkar á hinni kærðu ákvörðun og beri að fella hana úr gildi og veita honum rétt til fjölskyldusameiningar við K. Til vara beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og senda mál kæranda til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Kærandi vísar sérstaklega til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, málshraðareglu og andmælaréttar, sbr. 9. og 13. gr. sömu laga og samsvarandi ákvæða í 12. gr. og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun vikið frá kröfum sem gerðar séu í lögum um útlendinga og veitt minnisblaði frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu meira vægi við úrlausn á máli hans en það hafi átt að hafa. Kærandi vísar til þess að aðili eigi að geta séð fyrir þær kröfur sem gerðar séu til sönnunar á tengslum sínum eða í hið minnsta eigi að vera skýrt frá sönnunarkröfum sem stofnunin geri. Í hinni kærðu ákvörðun sé hvorki vísað til lagaákvæða né stjórnsýslufyrirmæla í forsendum ákvörðunarinnar að undanskilinni 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. K, sem handhafi alþjóðlegrar verndar, hafi í ljósi stöðu sinnar og eðli málsins samkvæmt takmarkaða möguleika til þess að kalla eftir frekari gögnum frá heimaríki sínu um tengsl við kæranda. Hafi Útlendingastofnun meðal annars metið það kæranda og K í óhag að ekki hafi verið lögð fram gögn sem sýndu fram á forsjá K yfir kæranda aðra en sómalska yfirlýsingu um ættleiðingu sem væri metin ótraust og óskýra yfirlýsingu um forsjá. Að mati kæranda geti stjórnvöld ekki komið sér undan rannsóknarskyldu með yfirlýsingum um að almannaskráning í Sómalíu sé ótraust. Kærandi fái engu breytt um stjórnsýsluna í heimaríki sínu. Þrátt fyrir að málsmeðferð hafi staðið yfir í langan tíma hafi aldrei verið haft samband við K og og henni tjáð að gögn vantaði eða hún spurð frekar út í misræmi eða annað sem óljóst hafi þótt. Kærandi telur að hafi Útlendingastofnun talið að framlögð gögn væru ekki nægilega skýr hafi stofnuninni borið að leiðbeina K um að leggja fram fleiri og ítarlegri gögn. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi einnig borið að kanna möguleika K á aðstoð við að upplýsa mál kæranda í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og gefa kost á andmælarétti. Að mati kæranda séu tafir á máli hans einnig annmarkar á málsmeðferð stofnunarinnar en málið hafi verið í meðferð hjá stofnuninni í hátt í tvö ár án þess að greint hafi verið frá fyrirsjáanlegum töfum á afgreiðslu þess líkt og beri að gera samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga. Á þeim tæpu tveimur árum sem málið hafi verið til meðferðar hafi Útlendingastofnun getað aflað frekari upplýsinga frá K, til að mynda með því að hringja í hana eða boða hana í annað viðtal. Að framangreindu virtu er það mat kæranda að brotið hafi verið á rannsóknarreglu, málshraðareglu og andmælarétti K, sbr. 12. gr. og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 9., 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Því sé ljóst að svo veigamiklir annmarkar séu á ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda að hana beri að ógilda og veita eigi kæranda rétt til fjölskyldusameiningar hér á landi, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Þá byggir kærandi ógildingarkröfu sína á því að rangfærslur séu í hinni kærðu ákvörðun. Í ákvörðuninni segi í fyrsta lagi að ættleiðingaryfirlýsing feli í sér að tvö vitni hafi komið fyrir dómstól í Sómalíu og hafi lýst því yfir að K og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi ættleitt kæranda eftir að kynmóðir hans hafi horfið eftir fæðingu hans. Þá segi að í viðtali hjá Útlendingastofnun 27. júní 2022 hafi K sagt frá því að móðir hennar hafi starfað sem ljósmóðir í heimaríki hennar og hún hafi tekið á móti kæranda þegar hann hafi fæðst og komið með hann til K þar sem móðir hans hafi látist. Hið rétta sé að móðir K hafi verið hagfræðingur og starfað á þessum tíma við fjármálastjórn hjá […]. Í gegnum starf móður K fyrir nefndina hafi mál kæranda komið á hennar borð. Hafi móðir K ættleitt kæranda í upphafi, árið 2017. Þá segi í lok ákvörðunarinnar að M, eiginmaður K, og annað ættleiðingarforeldri kæranda hafi fallið frá umsókn sinni um fjölskyldusameiningu og sé enn búsettur í heimaríki kæranda. Staðreyndin sé hins vegar sú að vorið 2022 hafi Útlendingastofnun verið afhent skilnaðargögn og forsjárbreyting á yngri börnum K sem hún hafi átt með M. Hafi M á þeim tímapunkti setið í fangelsi en sé nú búsettur í Úganda. Þá sé það mat kæranda að ensk þýðing á gögnunum frá Sómalíu séu á illskiljanlegu máli og hafi því verið nær að styðjast við betri þýðingu á þeim til að fyrirbyggja misræmi og rangfærslur. Í stað þess að leita til K líkt og lögboðið sé og beðið hafi verið um hafi hin kærða ákvörðun grundvallast á rangfærslum og skýrslu frá lögreglunni á Suðurnesjum og minnisblaði frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Kærandi byggir kröfu sína um fjölskyldusameiningu við K jafnframt á því að það samræmist hagsmunum hans sem barns. K hafi við meðferð málsins leitast við að upplýsa málið með því að benda á þá hættu sem kæranda sé búin í Mógadisjú í Sómalíu og hafi meðal annars sent til stofnunarinnar skýrslu öryggisráðgjafa Sameinuðu þjóðanna í Mógadisjú. Þá vísar kærandi til tölvubréfs til fulltrúa Útlendingastofnunar sem sendur hafi verið 9. júlí 2022 þar sem greint hafi verið frá því að ættleiðingargögnin yrðu fengin til landsins, send til skjalaþýðanda, fari til notarius publicus í Sómalíu og þaðan í gegnum dómsmálaráðuneytið. Hafi tölvubréfinu ekki verið svarað. Kærandi telur að með framangreindu sé ljóst að K hafi lagt sig fram um að varpa ljósi á raunverulegar aðstæður kæranda í þágu hagsmuna þess þó rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Líf kæranda í Mógadisjú einkennist af óöruggum aðstæðum sem hafi veruleg áhrif á velferð hans og félagslegan þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda sé því sérstaklega þýðingarmikið að hafa ríkan rétt hans til fjölskyldusameiningar að leiðarljósi við ákvörðun í málinu.

V.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig. Í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga segir að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Þá segir í 22. gr. stjórnsýslulaga að í rökstuðningi ákvarðana skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Líkt og að framan er rakið synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu við K með þeim rökum að K hefði ekki skilað inn gögnum sem sýndu fram á forsjá hennar yfir kæranda annað en sómalska yfirlýsingu um ættleiðingu, sem hafi verið metin ótraust að forminu til, og óskýra yfirlýsingu um forsjá. Var það mat stofnunarinnar að ættleiðing K á kæranda uppfyllti hvorki íslensk lög né alþjóðleg lög um ættleiðingu enda væri Sómalía ekki aðili að Haag samningnum. Uppfyllti kærandi því ekki skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga á barn einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar samkvæmt IV. kafla laganna (flóttamenn og vernd gegn ofsóknum) einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Um fjölskyldutengsl sem verða til eftir að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram gildi ákvæði VIII. kafla laganna (dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar). Hvorki í ákvæðinu sjálfu né í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi laga nr. 80/2016 er tekið sérstaklega fram að einungis sé um að ræða líffræðilegt barn útlendings en ekki ættleitt. Í athugasemdum með ákvæðinu kemur meðal annars fram að með ákvæðum 2. og 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga sé gert ráð fyrir að nánustu ættingjar flóttamanns, þ.e. makar, sambúðarmakar og börn þeirra undir 18 ára aldri eigi einnig rétt á vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Þá segir að þá hafi réttur flóttamanns til nýrrar fjölskyldumyndunar verið færður til núgildandi framkvæmdar en í því felist takmarkaðri heimild til samræmis við VIII. kafla laganna. Kærunefnd leggur því þann skilning í framangreint ákvæði að hugtakið „barn“ eigi jafnframt við um barn sem hafi verið ættleitt af útlendingi sem njóti alþjóðlegrar verndar.

Í athugasemdum með 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga er ekki að finna leiðbeiningar eða umfjöllun um hvaða gögn einstaklingur með alþjóðlega vernd þurfi að leggja fram til að leggja grunn að því að viðkomandi barn sé í raun ættleitt barn hans. Þá er ákvæðið og athugasemdir jafnframt hljóð um það hvaða tilvik eða aðstæður gætu talist sérstakar ástæður sem mæli fjölskyldusameiningu í mót.

Í VIII. kafla laga um útlendinga er að finna ákvæði er lúta að dvalarleyfum vegna fjölskyldusameiningar. Í 71. gr. laga um útlendinga eru ákvæði er varða dvalarleyfi fyrir börn og þau skilyrði sem uppfyllt þurfa að vera svo dvalarleyfi verði veitt. Í 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 58., 61., 63., 70., 73., 74. eða 78. gr. laganna. Í 2. mgr. 71. gr. laganna kemur fram að barn skuli vera í forsjá þess aðila sem það leiðir rétt sinn af. Samþykki beggja foreldra þurfi að liggja fyrir við umsókn séu þeir fleiri en einn. Heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði vegna sérstakra ástæðna, til dæmis ef sannanlega næst ekki í forsjáraðila, enda mæli hagsmunir barnsins með því. Þá er tekið fram í 3. mgr. 71. gr. laga um útlendinga að sé um ættleiðingu að ræða þurfi henni að vera lokið áður en umsókn er lögð fram og skuli hún vera í samræmi við íslensk lög þess efnis. Í athugasemdum með 71. gr. laga um útlendinga kemur meðal annars fram að börn fái samkvæmt gildandi lögum um útlendinga dvalarleyfi sem aðstandendur. Þá er áréttað að með barni samkvæmt ákvæðinu sé bæði átt við kynbarn og kjörbarn enda hafi ættleiðing verið veitt af þar til bærum yfirvöldum í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis fyrir flutning ábyrgðaraðila og barns til Íslands. Í athugasemdum við 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að sé um kjörbarn að ræða þurfi ættleiðingarferli að vera lokið áður en umsókn er lögð fram.

Frá ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 45. gr. og 3. mgr. 71. gr. laga um útlendinga má álykta að ákvæði 71. gr. gildi aðeins um umsókn um fjölskyldusameiningu ef ættleiðing barns á sér stað eftir að útlendingur hefur fengið alþjóðlega vernd hér á landi. Í máli kæranda er byggt á því að K hafi ættleitt hann áður en K lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi og leggur Útlendingastofnun til grundvallar við úrlausn málsins að fjölskyldutengsl hafi orðið til áður en umsókn K um alþjóðlega vernd var lögð fram.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er tekið fram að þegar umsókn varði barn þá skuli líta til 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og skuli ákvörðun tekin með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Í ákvörðuninni er vísað til þess að kærandi sé í umsjá móður K og að fyrrverandi eiginmaður K og hitt ættleiðingarforeldri kæranda hafi ákveðið að draga umsókn sína um fjölskyldusameiningu við K til baka og sé því enn búsettur í heimaríki kæranda. Í ákvörðuninni er hins vegar ekki framkvæmt sérstakt mat á hagsmunum kæranda.

Þá kemst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu, með vísan til framlagðra gagna K, minnisblaðs sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og skýrslu lögreglustjórans á Suðurnesjum, að ljóst sé að ættleiðing kæranda uppfylli ekki íslensk lög eða alþjóðleg lög um ættleiðingu enda sé Sómalía ekki aðili að Haag samningnum. Kærunefnd gerir athugasemdir við framangreinda aðferðarfræði stofnunarinnar við að komast að niðurstöðu í málinu. Ákvörðunin ber ekki með sér að framkvæmd hafi verið sjálfstæð rannsókn á gögnum málsins. Af niðurstöðunni má ráða að ákvörðunin byggi aðallega á framangreindri skýrslu lögreglustjórans á framlögðum gögnum frá Sómalíu og minnisblaði sýslumannsins í Reykjavík. Ekki er að sjá af gögnum málsins að K hafi verið leiðbeint um frekari framlagningu gagna, svo sem gögn sem stofnunin teldi að gætu varpað betra ljósi á fjölskyldutengsl kæranda og K. Þá er ekki lagt sérstakt mat á hvaða þýðingu upplýsingar í minnisblaði frá sýslumanninum hafi fyrir mál kæranda eða mat á gildi gagna frá Sómalíu. Í minnisblaði sýslumannsins er meðal annars fjallað um að þegar ættleiðing fari fram án milligöngu íslenskrar ættleiðingar þá hafi sýslumaður það hlutverk að meta erlend ættleiðingarskjöl við meðferð mála samkvæmt 2. og 3. mgr. 2. gr. a laga um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952. Þá er vísað til þess að samkvæmt lögskýringargögnum með frumvarpi því sem varð að lögum. nr. 61/2018 (lög um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og barnalögum) hafi komið fram að um meðferð erinda til sýslumanns sé gert ráð fyrir að farið sé að reglum ættleiðingarlaga, eftir því sem við geti átt, og að gert sé ráð fyrir að regla 3. mgr. 3. gr. í reglugerð um ættleiðingar nr. 268/2005 gildi um fylgiskjöl með umsókn um staðfestingu til sýslumanns og að 2. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar, sem fjalli um alþjóðlegar fjölskylduættleiðingar, gildi eins og við geti átt við meðferð erinda til sýslumanns.

Þá kemur fram í minnisblaðinu að í þeim tilvikum sem um ættleiðingu frá ríki utan Haag samningsins sé að ræða, þurfi að leggja mat á ættleiðingargögnin með hliðsjón af lögum og reglum um ættleiðingu í ættleiðingaríki, efni þeirra, innihaldi og áreiðanleika skjalanna að öðru leyti.

Í máli kæranda liggur fyrir eins og áður segir að K kveðst hafa ættleitt kæranda áður en hún lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd, K er því ekki í ættleiðingarferli sem ætti undir lög um ættleiðingar nr. 130/1999 eða framangreindri reglugerð um ættleiðingar.

Að mati kærunefndar er því aðallega til úrlausnar í máli þessu að leggja mat á þau gögn sem lögð hafa verið fram til stuðnings um ættleiðingu K á kæranda. Þar á meðal með hliðsjón af lögum, reglum og stjórnsýslu í heimaríki kæranda og hvort ættleiðingin hafi gengið í berhögg við grunnreglur íslensks réttar. Að mati kærunefndar skortir verulega á vandað mat á gögnum málsins, rannsókn og rökstuðningi fyrir niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að málið teljist ekki hafa verið nægilega upplýst til þess að Útlendingastofnun gæti tekið efnislega rétta ákvörðun. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni skv. 7., 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar bera framangreind vinnubrögð Útlendingastofnunar í máli kæranda með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á gögnum málsins. Er það mat kærunefndar að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar, en tilefni hafi verið meðal annars að gefa K frekari leiðbeiningar um framlagningu gagna. Þá hafi rökstuðningur fyrir niðurstöðu stofnunarinnar verið ófullnægjandi. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að málsmeðferð og rökstuðningur ákvörðunarinnar í máli kæranda sé ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, einkum 7., 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur framangreinda annmarka Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls kæranda. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Athugasemdir kærunefndar við málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar

Líkt og fram hefur komið lagði M fram umsókn um dvalarleyfi fyrir hönd kæranda sem Útlendingastofnun móttók 12. maí 2021. Í gögnum málsins liggur fyrir endurrit dagbókarfærslna úr Erlendi í máli kæranda. Þar má sjá að sjö mánuðum síðar, hinn 13. desember 2021, eru gögn sem K lagði fram send í áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum. Þá má sjá að tæpum fimm mánuðum síðar, 5. maí 2022 hafi þáverandi lögmaður kæranda sent tölvubréf á Útlendingastofnun og óskað eftir fundi til að ræða umsókn kæranda, það erindi hafi verið ítrekað með tölvubréfi til stofnunarinnar 18. maí s.á. Þá hafi K komið til Útlendingastofnunar ásamt eiginmanni sínum 25. maí og aftur 7. júní 2022 og beðið um upplýsingar um framgang málsins og furðað sig á löngum málsmeðferðartíma. Þáverandi lögmaður kæranda sendi í kjölfarið tölvubréf til fleiri aðila, m.a. starfsmanna dómsmálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins 23. maí og 9. júní 2022 til þess að knýja á um svör við umsókn kæranda. Það var síðan loks með tölvubréfi 20. júní 2022 til lögmanns K að hún var boðuð í viðtal til Útlendingastofnunar 27. júní 2022. Ákvörðun í máli kæranda lá svo loks fyrir 17. október 2022 eða um einu og hálfu ári eftir að umsókn hans barst íslenskum stjórnvöldum.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er áréttuð meginregla stjórnsýsluréttar um hraða málsmeðferð. Er í henni mælt fyrir um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Þá segir í 3. mgr. 9. gr. að skýra beri aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast. Ákvörðun í máli kæranda var tekin rúmu einu og hálfu ári eftir framlagningu umsóknar kæranda. Að mati kærunefndar dróst afgreiðsla máls kæranda óhæfilega og verður ekki ráðið af gögnum málsins og ákvörðun Útlendingastofnunar að umfang þess hafi verið slíkt að afsakanlegt sé að málsmeðferðartíminn hafi náð þessari tímalengd. Með hliðsjón af hagsmunum kæranda, sem barns, sem gæti átt rétt á fjölskyldusameingu við K samkvæmt lögum um útlendinga er slíkur málsmeðferðartími afar íþyngjandi fyrir bæði kæranda og K. Kærunefnd brýnir fyrir Útlendingastofnun að tryggja hraða og vandaða málsmeðferð í málum af þessum toga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                                    Sindri M. Stephensen

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta