Mál nr. 10/1992
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 10/1992:
A
gegn
skólastjórn Tónlistarskóla Akureyrar.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 9. september 1992 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:
MÁLAVEXTIR
Með bréfi dags. 16. maí 1992 óskaði A eftir því, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort ráðning B í stöðu skólastjóra Tónlistarskóla Akureyrar 12. maí sl., sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 19. maí sl. bryti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Með auglýsingu í vikublaðinu Degi 28. mars og í Morgunblaðinu 29. mars var auglýst laus til umsóknar staða skólastjóra við Tónlistarskóla Akureyrar. Ráðning miðaðist við 1. ágúst. Sex umsóknir bárust, en ein var dregin til baka.
Tónlistarskóli Akureyrar er rekinn af Akureyrarbæ, og kýs bæjarstjórn fimm manna stjórn skólans.
Að mati skólastjórnar uppfylltu allir umsækjendur þær kröfur sem hún taldi eðlilegt að gerðar væru til menntunar. Við mat á umsækjendum var stuðst við umsóknir þeirra, en jafnframt voru þeir kallaðir til viðtals við skólastjórn og leitað umsagnar aðila, sem til þeirra þekkja.
Það var samdóma álit skólastjórnar að B væri hæfastur þeirra, sem sóttu um skólastjórastöðuna og var samþykkt að ráða hann á fundi skólastjórnar 12. maí. Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 19. maí var sú ákvörðun staðfest með 11 samhljóða atkvæðum.
Eftirtalin sátu í kærunefnd jafnréttismála við afgreiðslu máls þessa:
Ragnhildur Benediktsdóttir, skrifstofustjóri, formaður, Sigurður H. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og Margrét Heinreksdóttir, sýslufulltrúi.
Bæjarstjóranum á Akureyri var kynnt kæran og þess farið á leit, að upplýst yrði um menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var svo og hvaða sérstaka hæfileika umfram kæranda hann hefði til áð bera, sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Báðir aðilar skiluðu greinargerðum í málinu og lögðu fram önnur gögn.
Í málinu liggja fyrir eftirfarandi upplýsingar um menntun og starfsreynslu þessara tveggja umsækjenda:
A lauk stúdentsprófi árið 1956 og stundaði síðan nám við Staatliche Hochschule fur Musik í Köln, Þýskalandi 1958 - 1964. Sérgreinar hennar voru listasaga og tónvísindi og lauk hún kandídatsprófi í tónvísindum. Aukanámsgreinar hennar voru píanóleikur og forskólakennsla. Aðalnámsgrein hennar var fiðluleikur. Að loknu námi starfaði hún sem dósent við Rheinische Musikschule í Köln 1965 - 1974. Hún var skólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar 1975 - 1984 og skólastjóri Tónlistarskóla Vesturbæjar 1984 - 1986. Frá þeim tíma, að undanskildum tveim árum, hefur hún stundað einkakennslu.
B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1980. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1976 - 1982, Tónlistarskólann í Kópavogi 1979 - 1982. Framhaldsnám stundaði hann í Utrechts Conservatorium í Hollandi 1982 -1988, en lokaprófi í hljómsveitarstjórn lauk hann 1989. Framhaldsnám í hljómsveitarstjórn stundaði hann hjá Jorma Panilla, Helsinki, Finnlandi 1990 - 1992. B stjórnaði samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur 1980 - 1981, kór Menntskólans við Sund 1981 - 1982, og Háskólakórnum 1988 - 1989. Hann var hljómsveitarstjóri sinfóníuhljómsveitar áhugamanna í Utrecht 1985 - 1988, og hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum og upptökum, m.a. á M-hátíðar tónleikaferð um Suðurland. Hann hefur stjórnað Kammersveit Reykjavíkur og er stjórnandi CAPUT hópsins. Hann stjórnaði kirkjuóperunni "Abraham og Ísak" eftir John Speight á listahátíð 1990 og ennfremur uppfærslu Óperusmiðjunnar á La Boheme" í Borgarleikhúsinu sl. vetur.
Í greinargerð skólastjórnar Tónlistarskólans á Akureyri til kærunefndar jafnréttismála er gerð grein fyrir þeim forsendum sem lágu til grundvallar ráðningu B í skólastjórastöðuna. Þar er skýrt frá því að Tónlistarskólinn á Akureyri hafi átt við nokkra erfiðleika að stríða að undanförnu sem m.a. hafi birst í óeiningu meðal starfsmanna skólans, ekki síst eftir að skólastjóra var sagt upp störfum sl. haust. Því hafi verið talið æskilegt að til skólastjóra veldist maður með góð tengsl við hljóðfæraleikara og söngvara sem hann gæti laðað að skólanum sem kennara.
Um A segir, að hún hafi góða menntun til að gegna skólastjórastöðu, einkum hafi kennslufræðimenntun hennar og reynsla sem hún öðlaðist í Þýskalandi þótt kostur. Í viðtölum hennar við skólastjóra hafi hins vegar komið fram eindregin andstaða hennar við kennslu á rafhljóðfæri, en skólastjórn hafi lagt til að hún verði efld.
B er talinn hafa mjög breiða þekkingu á hljóðfæraleik, og í viðtölum við hann hafi komið í ljós glöggskyggni hans og yfirvegaðar skoðanir. Viðhorf hans til tónlistarnáms hafi farið vel saman við stefnu stjórnar Tónlistarskólans.
NIÐURSTAÐA
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. f lögunum er sérstaklega fjallað um stöðuveitingar, sbr. 5., 6. og 8. gr. laganna, en veigamikill þáttur í því að koma á jafnrétti er að þess sé gætt við ráðningar í störf og stöðuveitingar.
Það er álit kærunefndar jafnréttismála, byggt á fyrirliggjandi gögnum, að þeir tveir umsækjendur sem hér er fjallað um séu báðir vel hæfir til að gegna starfi skólastjóra Tónlistarskóla Akureyrar. Sé hins vegar litið til þeirra forsendna sem lágu til grundvallar við ákvörðun skólastjórnar Tónlistarskólans um ráðningu skólastjóra, verði ekki hjá því komist að álykta, að B sé færari um að uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til tilvonandi skólastjóra.
Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er að skólastjórn Tónlistarskóla Akureyrar hafi með fullnægjandi rökum sýnt fram á að við ráðningu skólastjóra Tónlistarskóla Akureyrar 19. maí sl. hafi ekki verið brotið ákvæði 1. mgr. 2. tl. 6. gr. 1. 28/21991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kærunefnd jafnréttismála sér ástæðu til að taka fram, að fyrirliggjandi gögn bera með sér að staðið hafi verið að ráðningu þessari með faglegum og vönduðum hætti.
Eftirtalin sátu í kærunefnd jafnréttismála við afgreiðslu máls þessa:
Ragnhildur Benediktsdóttir, skrifstofustjóri, formaður, Sigurður H. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og Margrét Heinreksdóttir, settur héraðsdómari.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Sigurður H. Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir