Mál nr. 14/1992
Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 14/1992
A
gegn
skólanefnd barnaskólans að Skógum
Á fundi kærunefndar jafnréttismála mánudaginn 28. júní 1993 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
MÁLAVEXTIR
Með bréfi dags. 16. ágúst 1992 óskaði A, kennari, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning kennara við barnaskólann að Skógum bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Kærunefnd jafnréttismála aflaði skriflegra upplýsinga frá C, skólastjóra barnaskólans að Skógum og frá menntamálaráðuneytinu. Á fund nefndarinnar mættu A og C. Nefndin fór þess á leit við D, formann skólanefndar Austur - Eyjafjallahrepps að hann kæmi á hennar fund en hann sá sér það ekki fært. Hann lét hins vegar nefndinni í té skriflegar upplýsingar.
Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að vorið 1992 var auglýst laus staða kennara við barnaskólann að Skógum. Umsækjendur um stöðuna voru tveir, þau A, fóstra og kærandi. Skólastjóri, skólanefnd og fræðslustjóri Suðurlands mæltu með konunni í starfið. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra er einungis þeim sem hafa leyfi menntamálaráðherra heimilt að nota starfsheitið grunnskólakennari. Samkvæmt 13. gr. sömu laga er óheimilt að skipa, setja eða ráða til kennslu við grunnskóla aðra en þá sem uppfylla skilyrði laganna. Sæki enginn kennari um auglýst kennarastarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar, getur skólastjóri sótt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla til að lausráða tiltekinn starfsmann til bráðabrigða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Það gerði skólastjóri barnaskólans að Skógum og samþykkti meirihluti undanþágunefndar grunnskóla erindið þann 13. ágúst 1992. Fulltrúi Kennarasambands Íslands í nefndinni mælti gegn samþykkt þess og lét bóka eftirfarandi:
„13. gr. laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldskólakennara og skólastjórnenda segir:
„Ef hvorki skólastjóri, neinn skólanefndarmaður eða fræðslustjóri mælir með umsókn grunnskólakennara getur skólastjóri þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. leitað til undanþágunefndar grunnskóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann“.
Enginn þeirra aðila sem nefndir eru í lagagreininni mælir með þeim umsækjanda um stöðuna sem uppfyllir skilyrði laganna en sótt er um undanþágu til að ráða í umrædda stöðu fóstru með tveggja ára kennslureynslu við viðkomandi skóla. Ef enginn umsækjandi með réttindi hefði sótt um stöðuna eftir ítrekaðar auglýsingar hefði Kennarasambandið ekki gert ágreining um ráðningu hennar.
Engin gögn liggja fyrir í málinu sem sýna vanhæfni þess umsækjanda sem réttindin hefur til starfa. Á meðan svo er getur fulltrúi Kennarasambandsins ekki mælt með ráðningu réttindalauss starfsmanns í stöðuna.“
Þar sem ágreiningur var um afgreiðslu málsins í undanþágunefnd grunnskóla, var það sent menntamálaráðherra til afgreiðslu, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 48/1986. Menntamálaráðherra samþykkti erindið. Að fenginni þeirri heimild réð skólastjóri B í starfið.
Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu umsækjenda. B lauk prófi frá Fósturskóla Íslands árið 1984. Hún starfaði sem fóstra á leikskóla í Kópavogi frá 1984 til 1990, þar af sem leikskólastjóri frá 1987. Hún starfaði sem leiðbeinandi við barnaskólann að Skógum veturna 1990 til 1992. A lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1973. Hann starfaði sem kennari við grunnskólann að Kleppjárnsreykjum, Borgarfirði árin 1973 til 1976, við grunnskólann að Þingborg, Árnessýslu 1976 til 1977, við Njálsbúðarskóla, Vestur-Landeyjum 1988 til 1991 og veturinn 1991 til 1992 við Sólgarðsskóla, Eyjafjarðarsveit.
Rök kæranda eru þau að með ráðningu B í starf kennara við barnaskólann að Skógum hafi verið gengið fram hjá umsækjanda með fullgilda menntun til starfsins og átta ára starfsreynslu sem grunnskólakennari en þess í stað ráðinn leiðbeinandi með fóstrumenntun og tveggja ára starfsreynslu í grunnskóla. Jafnframt bendir kærandi á að skólastjóri og allir settir kennarar og leiðbeinendur við barnaskólann séu konur. Því hafi með vísun til jafnréttislaga borið að ráða hann í starfið. Kærandi telur því að við ráðningu í stöðuna hafi sér verið mismunað vegna kynferðis.
Í bréfi skólastjóra dags. 20. október 1992 til kærunefndar jafnréttismála er áhersla lögð á að mælt hafi verið með B vegna þess að hún hafi starfað við skólann tvö undanfarin ár og sinnt því starfi af áhuga. Hún hafi haft kennsluréttindi til kennslu sex ára nemenda þegar hún hóf störf, en með nýjum grunnskólalögum frá 1991 hafi það breyst. Bent er á að í skólanum hafi verið byrjað á þróunarverkefni í móðurmálskennslu sem B hafi tekið þátt í. Skólastjóri hafi talið það mikilvægt að halda þeim starfsmönnum við skólann sem að því þróunarverkefni stóðu. í máli skólastjóra fyrir kærunefnd kom jafnframt fram að foreldrar barnanna hefðu lagst mjög hart gegn því að A yrði ráðinn. Deilur væru milli A og einhverra sveitunga hans og erfitt væri í lítilli sveit að ráða mann sem ætti í illdeilum við foreldra. Hún hefði því ákveðið að láta á það reyna hvort undanþága fengist til að ráða B og þá fyrst og fremst á þeirri forsendu að hún hefði þegar starfað við skólann í tvö ár. Í máli skólastjóra kom jafnframt fram að hún hefði ætíð átt góð samskipti við A og þekkti ekki deilurnar í sveitinni nema af afspurn.
Í bréfi skólanefndar, dags. 12. maí 1993, til kærunefndar jafnréttismála koma fram svipaðar skýringar á því að nefndin valdi að mæla með réttindalausum umsækjanda en ekki þeim umsækjanda sem hafði full réttindi. Jafnframt er bent á að foreldrafélag grunnskólans hafi sent frá sér áskorun um að B yrði ráðin áfram við skólann.
A hefur alfarið hafnað því að hann eigi í persónulegum útistöðum við sveitunga sína. Hann kveðst ætíð hafa reynt að standa á rétti sínum gagnvart sveitarstjórn en sá ágreiningur hefði ekki verið persónulegur. A taldi það hafa skipt máli að meirihluti skólanefndar væru konur og sumir skólanefndarmenn ættu einnig sæti í sveitarstjórn. Auk þess væri skilningur formanns skólanefndar sá að skólastjóri einn ætti að hafa með mannaráðningar að gera. Að öðru leyti vísaði hann til menntunar sinnar, meiri starfsreynslu og þess að mikilvægt væri að börn fengju að umgangast bæði kven- og karlkennara en eins og staðan væri í barnaskólanum að Skógum væru allir fastráðnir starfsmenn hans konur.
NIÐURSTAÐA
Kærunefnd jafnréttismála er sammála um eftirfarandi niðurstöðu:
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Tekið er fram að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Samkvæmt 5. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Við ráðningar í störf er því nauðsynlegt að hafa ákvæði laganna í huga.
Samkvæmt 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu eða skipun í starf.
Það mál sem hér er til umfjöllunar varðar ráðningu í stöðu kennara við barnaskólann að Skógum. Óumdeilt er að einungis annar umsækjendanna uppfyllti þau menntunarskilyrði sem gerð eru til kennara, sbr. lög nr. 48/1986. Þrátt fyrir það mælti skólastjóri, skólanefnd og fræðslustjóri með ráðningu þess sem ekki uppfyllti menntunarskilyrðin og var sá umsækjandi ráðinn að fenginni undanþágu frá menntamálaráðuneytinu. Röksemdir fyrir ráðningu B eru eftirfarandi: Hún hafi kennt við skólann tvö undanfarin ár, vegna tiltekins þróunarverkefnis hafi verið æskilegt að sem minnstar breytingar yrðu á mannahaldi, andstaða foreldra barnanna gegn því að A yrði ráðinn og deilur milli hans og ýmissa sveitunga hans en í fámennu sveitarfélagi geti verið erfitt að ráða mann til starfa í andstöðu við aðra í sveitinni.
Við ráðningu í starf gildir sú meginregla að ráða skal þann umsækjanda sem hæfastur er. Samkvæmt lögum nr. 28/1991 skal við mat á hæfni litið til menntunar, starfsreynslu og þess hvaða aðra sérstaka hæfileika umsækjandi hefur, sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991. Þegar valinn er umsækjandi sem ekki uppfyllir menntunarskilyrði og hefur að auki styttri starfsreynslu verða aðrir „sérstakir hæfileikar“ að vera þess eðlis og svo nauðsynlegir að þeir réttlæti að vikið sé frá almennum hæfnisskilyrðum. Í slíkum tilvikum verður að telja að á atvinnurekanda hvíli enn ríkari skylda en ella til að sýna fram á aðra sérstaka hæfileika og nauðsyn þeirra fyrir starfið. Kærunefnd jafnréttismála getur ekki fallist á að umrætt þróunarverkefni réttlæti að gengið sé fram hjá umsækjanda með réttindi og lengri starfsreynslu enda ekkert komið fram um að A geti ekki tekið fullan þátt í því verkefni. Kærunefnd jafnréttismála lítur svo á að fullyrðingar skólastjóra og skólanefndar um afstöðu foreldra til A og illdeilur hans við sveitunga sína hafi ekki verið studdar þeim gögnum að niðurstaða verði á þeim byggð. A hefur hins vegar lagt fram í málinu meðmæli tveggja fyrrum samstarfsmanna sem votta að samstarf við hann hafi verið gott í máli skólastjóra fyrir kærunefnd kom einnig fram að samstarf hennar við A hafi ætíð verið gott en stjúpbarn hans hefur verið nemandi í skólanum.
Með vísun til framangreinds og fyrirliggjandi gagna telur kærunefnd jafnréttismála að A hafi verið hæfari til að gegna starfi kennara við barnaskólann að Skógum og að ráðning B í starfið hafi brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr., 1. gr. og 5. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Með vísun til 20. gr. laga nr. 28/1991 er þeim tilmælum beint til skólanefndar Austur-Eyjafjallahrepps og skólastjóra barnaskólans að Skógum að fundin verði lausn á máli þessu sem kærandi getur sætt sig við.
Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon