Hoppa yfir valmynd
22. október 1993 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 18/1992

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 18/1992

A
gegn
Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 22. október 1993 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi dags. 17. nóvember 1992 óskaði A, fyrrverandi hjúkrunarframkvæmdastjóri á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort þær breytingar sem urðu á stjórnskipulagi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (F.S.A.) brytu í bága við 5. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Breytingarnar leiddu m.a. til þess að lagðar voru niður tvær stöður hjúkrunarframkvæmdastjóra en settar á laggirnar tvær lægra launaðar stöður. A gegndi annarri hjúkrunarframkvæmdastjórastöðunni og var henni sagt upp störfum hjá sjúkrahúsinu. Hún óskaði jafnframt eftir afstöðu kærunefndar jafnréttismála til þess hvort uppsögn hennar úr starfi bryti gegn 3. og 4. tl. 6. gr. sömu laga.

Kærunefnd jafnréttismála aflaði skriflegra upplýsinga frá B, framkvæmdastjóra F.S.A. Lögð var fram skrifleg greinargerð frá C, jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar ásamt afriti af bréfum hennar til sjúkrahússins og svarbréfum framkvæmdastjóra sjúkrahússins til hennar. Ennfremur var aflað skipurits yfir hjúkrunarsvið Borgarspítala, Landspítala, Landakotsspítala og Fjórðungssjúkrabúsins á Akureyri. Erindi kæranda var sent Hjúkrunarfélagi Íslands og Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga til umsagnar og bárust umsagnir frá báðum félögunum.

Til viðtals við kærunefnd komu A, kærandi málsins, D, formaður stjórnar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, B, framkvæmdastjóri þess, E, starfsmannastjóri hjúkrunar og C, jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrarbæjar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru málavextir þeir að á árinu 1991 ákvað nýskipuð stjórn F.S.A. að gerð skyldi lýsing á stjórnskipulagi sjúkrahússins og tillögur um breytingar á stjórnunarlegri uppbyggingu stofnunarinnar. Í bréfi framkvæmdastjóra til kærunefndar jafnréttismála, dags. 17. febrúar 1993 kemur eftirfarandi fram: „Markmiðið með vinnunni var þríþætt, þ.e.:

  • Að gera stjórnskipulagslýsingu fyrir stofnunina.

  • Að fastsetja í stjórnkerfinu vissa þætti sem ekki var ljóst hvert heyrðu.

  • Að gera þær breytingar á stjórnskipulagi sem vænta mætti að yrðu til hagræðis og miðuðu að skilvirkari stjórnun.“

Á fundi stjórnar F.S.A. þann 23. janúar 1992 voru samþykktar ýmsar breytingar á innra skipulagi stofnunarinnar og stjórnunarlegri uppbyggingu. Aðilar eru sammála um að þessar breytingar hafi allar verið óverulegar nema þær sem kærumál þetta snýst um. Þær snúa að skipulagi hjúkrunar annars vegar og stöðubreytingum hjá skrifstofustjóra og hjá deildarstjóra trésmíðaverkstæðis hins vegar. Á framangreindum fundi var ákveðið að leggja niður tvær stöður hjúkrunarframkvæmdastjóra, á lyflæknissviði og á handlæknissviði, en ákveðið að búa þess í stað til tvær nýjar stöður, starfsmannastjóra hjúkrunar og verkefnisstjóra. Staða fræðslustjóra hjúkrunar sem áður var full staða, var gerð að hálfri. Upplýst er að í starfi hjúkrunarframkvæmdastjóra hafi einkum falist ráðningar starfsfólks á deildum og daglegt eftirlit með hjúkrun og umönnun innan hvors sviðs. Skipulagsbreytingarnar feli í sér að einn starfsmaður, starfsmannastjóri hjúkrunar, fari nú með ráðningarmál innan hjúkrunarsviðs en starfssvið verkefnisstjóra sé eftirlit með hjúkrun og umönnun á deildum. Nýju stöðurnar feli ekki í sér stjórnun og mannaforráð.

Í áðurgreindu bréfi framkvæmdastjóra F.S.A. til kærunefndar jafnréttismála dags. 17. febrúar 1993 er þessum breytingum lýst svo: „Tveimur hjúkrunarfræðingum í eiginlegum stjórnunarstörfum var sagt upp störfum, þ.e. þeim aðilum sem gegndu störfum hjúkrunarframkvæmdastjóra, þar sem stöður þeirra voru lagðar niður. Eins og fram kemur ... var fækkað um eitt stjórnunarstig, þannig að í stað þess að hjúkrunarframkvæmdastjórar séu næstu yfirmenn hjúkrunardeildarstjóra, færist það hlutverk til hjúkrunarforstjóra, sem eftir breytingar er næsti yfirmaður hjúkrunardeildarstjóra. Þau stjórnunarstörf sem hjúkrunarframkvæmdastjórar sinntu, færast því alfarið á hendur hjúkrunarforstjóra og er stjórnun hans á deildarstjórum því milliliðalaus eftir þessar breytingar. Öðrum störfum sem hjúkrunarframkvæmdastjórar sinntu verður nú sinnt af starfsmönnum á skrifstofu hjúkrunarforstjóra og voru þar stofnsettar nýjar stöður til að sinna þeim verkefnum.“

Upplýst er að starfsmannastjóra hjúkrunar er raðað í sama launaflokk og hjúkranarframkvæmdastjóra áður. Hins vegar hefur ekki verið greitt fyrir yfirvinnu en hjúkrunarframkvæmdastjóri naut slíkra greiðslna. Verkefnisstjórastarfið er raðað tveimur launaflokkum neðar en starf hjúkrunarframkvæmdastjóra áður. Engar breytingar hafa verið gerðar á launum hjúkrunardeildarstjóra en formaður stjórnar F.S.A. og framkvæmdastjóri skýrðu kæranefnd jafnréttismála frá því að þau væra til athugunar hjá stjórn sjúkrahússins.

Breytingar voru gerðar á tveimur störfum er karlar gegndu. Starf skrifstofustjóra var gert að aðstoðarframkvæmdastjórastarfi og starf deildarstjóra trésmíðaverkstæðis að starfi forstöðumanns húsumsjónar. Báðar þessar breytingarnar voru gerðar án uppsagna. Forstöðumaður húsumsjónar fékk hækkun um tvo launaflokka í kjölfar skipulagsbreytinganna en engar breytingar munu hafa orðið á launum aðstoðarframkvæmdastjórans.

Kærandi málsins, A gegndi annarri af tveimur stöðum hjúkrunarframkvæmdastjóra. Með bréfi dags. 30. janúar 1992 var henni sagt upp störfum með þriggja mánaðar fyrirvara. Stöður starfsmannastjóra hjúkrunar, verkefnisstjóra og hálf staða fræðslustjóra hjúkrunar vora auglýstar lausar til umsóknar. A sótti ekki um neina þeirra og óumdeilt er að henni var hvorki boðið nýtt starf hjá F.S.A. né hún sérstaklega hvött til að sækja um nýju stöðurnar.

II

Í erindi sínu til kærunefndar jafnréttismála bendir A, kærandi þessa máls á, að megin niðurstöður kostnaðarsamrar úttektar á stjórnskipulagi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hafi verið tillögur um uppsagnir þriggja kvenna og stöðuhækkanir tveggja karla. Allar aðrar breytingar hafi verið minni háttar. Þessar tillögur og þær breytingar sem þær leiddu til innan hjúkrunarsviðsins hafi verið gerðar án samráðs og í óþökk bæði hjúkrunarforstjóra og hjúkrunarframkvæmdastjóra sem fóru með faglega og stjórnunarlega ábyrgð á málaflokknum. Tilgangur þeirra hafi verið að draga úr stjórnunarlegum áhrifum kvennastéttanna. Breytingarnar lýsi þannig viðhorfum stjórnenda sjúkrahússins til hjúkrunar og þar með til starfa kvenna.

A staðhæfir að engar faglegar forsendur hafi legið til grundvallar þessum breytingum og sparnaður sé óverulegur. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sé stórt sjúkrahús á íslenskan mælikvarða, deildaskipt, með kennsluskyldu m.a. í hjúkrunarfræði og sjúkraliðanámi og þar sé veitt bráðaþjónusta allan sólarhringinn. Í greinargerð A til jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar, dags. 30. október 1992 segir ennfremur: „Hjúkrunarforstjóri ber ábyrgð á hjúkrunarþjónustu, sem veitt er á sjúkrahúsinu samkvæmt heilbrigðislögum. Undir hans stjórn heyra langfjölmennustu stéttirnar, þ.e.a.s. hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og ræstingafólk. Af framangreindu er ljóst að starf hjúkrunarforstjóra FSA er mjög yfirgripsmikið og ekki á færi eins aðila að sinna því þannig að fullnægt verði ábyrgðarskyldu og faglegum kröfum, sem gerðar eru til kennslusjúkrahúss. Þetta var öllum ljóst, sem til þekktu og höfðu faglega þekkingu og/eða reynslu á eðli starfseminnar, enda staðfest með heimild heilbrigðisráðuneytisins á stöðum hjúkrunarframkvæmdastjóra. Allt þetta hafði B að engu þegar hann lagði til að leggja fyrrnefndar stjórnunarstöður niður, þvert á vilja F hjúkrunarforstjóra. B hafði þá aðeins gegnt starfi framkvæmdastjóra í rúmt ár. Stjórnin, sem samþykkti tillögur framkvæmdastjóra, hafði aðeins starfað í tæp tvö ár, og enginn stjórnarmaður, utan fulltrúa starfsmanna, hafði reynslu af uppbyggingu, rekstri og stjórnun spítala.“

Varðandi uppsögnina bendir A á að á sama tíma og tveimur körlum hafi verið boðin stöðuhækkun og stöðubreyting án uppsagna, hafi henni ekki boðist neitt slíkt. Henni hafi verið sagt upp störfum með allri þeirri þjáningu og niðurlægingu sem því óhjákvæmilega fylgi. Framkvæmdastjóri sjúkrahússins hafi hvorki rætt við hana áður en til uppsagnar kom né boðið henni aðra af þeim stöðum sem átti að stofna. Með þessu hafi stjórn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri brotið gegn ákvæðum 5. gr. og 3. og 4. tl. 6. gr. laga nr. 28/1991.

Af hálfu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er því alfarið mótmælt að með þessum skipulagsbreytingum og þeim uppsögnum sem í kjölfarið fylgdu, hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 28/1991. Í bréfi B, framkvæmdastjóra til jafnréttis- og fræðslufulltrúa Akureyrar, dags. 11. september 1992 segir: „Eins og af ofanrituðu sést er ekki um grundvallarbreytingar að ræða nema í yfirstjórn hjúkrunar. Breytingarnar eru að mestu fólgnar í sameiningu og fækkun deilda og er það einkum gert til að einfalda stjórnun og samræma ýmsa stjórnunarþætti s.s. ráðningar afleysingafólks. Ástæður fyrir breytingum á yfirstjórn hjúkrunar eru einkum þær að hagræði er talið í því fólgið að hafa ráðningarmálin öll á einni hendi í stað þeirrar blokkaskiptingar sem ríkti. Hjúkrunarleg skipting spítalans í tvö svið er ekki í samræmi við stjórnunarlega uppbyggingu að öðru leyti. Stöður hjúkrunarframkvæmdastjóra voru mjög dýrar og ekki talið nauðsynlegt fyrir F.S.A. að kosta til slíku kerfi millistjórnenda innan hjúkrunar.“

Í máli framkvæmdastjórans fyrir kærunefnd jafnréttismála kom fram að hið nýja skipulag væri einfaldara. Eldra fyrirkomulag hafi verið dýrt. Skiptingin í tvær stöður hjúkrunarframkvæmdastjóra og skiptingin í tvö svið innan hjúkrunarsviðs, þ.e. lyflæknis- og handlæknissviðs, hafi haft í för með sér að mikill tími hafi farið í samræmingu og samráð. Þannig leiði breytingin til sparnaðar enda þótt hann hafi ekki verið meginmarkmiðið.

Í máli formanns stjórnar F.S.A. fyrir kærunefnd jafnréttismála kom fram sú afstaða að með skipulagsbreytingunum hefði á engan hátt verið dregið úr vægi stjórnunar innan hjúkrunarsviðsins. Engin stjórnun hefði verið þaðan tekin. Skipulagsbreytingarnar hefðu leitt til þess að stjórnuninni væri nú skipt niður á starfsmenn á annan hátt. Eitt millistjórnunarstig hefði verið fellt brott og þeim þætti skipt á milli annarra kvenna, þ.e. hjúkrunarforstjóra og hjúkrunardeildarstjóra.

Af hálfu sjúkrahússins er áhersla lögð á að breytingarnar innan hjúkrunarsviðs og þær uppsagnir sem þær leiddu til annars vegar og þær breytingar sem urðu á störfum karla án uppsagna hins vegar séu ekki sambærileg mál. Í bréfi framkvæmdastjóra til kærunefndar jafnréttismála dags. 17. febrúar 1993 segir m.a. að það hafi verið „ítarlega rætt meðal stjórnenda F.S.A. hvort grípa þyrfti til uppsagna í þessu tilviki eða hvort hægt væri að bjóða hjúkrunarframkvæmdastjórunum stöðurnar án auglýsinga. Niðurstaðan varð sú að þar sem hér væri um nýjar stöður að ræða sem ekki væru sambærilegar við stöður hjúkrunarframkvæmdastjóra yrði, m.t.t. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og hugsanlegs áhuga annarra hjúkrunarfræðinga, að auglýsa stöðurnar. Vegna þessa var ekki hægt að bjóða fráfarandi hjúkrunarframkvæmdastjórum hinar nýju stöður en þeim var sérstaklega bent á að þessar stöður yrðu auglýstar lausar til umsóknar.“

Síðar í sama bréfi segir: „Rétt er að undirstrika þann grundvallarmun sem var á þeim breytingum sem gerðar voru á yfirstjórn hjúkrunar og öðrum breytingum. Við breytingar á yfirstjórn hjúkrunar voru felldar niður tvær stöður og búnar til aðrar stöður sem ekki voru sambærilegar. Því var talið bæði rétt og skylt að auglýsa hinar nýju stöður. Hins vegar varð engin röskun á starfi yfirsmiðs, forstöðumanns bókasafns og yfirlæknis lyflækningadeildar önnur en sú að aukið var við verkefni deildanna og því ekki talin ástæða til þess að segja upp ráðningarsamningum þeirra. Tekið skal fram varðandi starf aðstoðarframkvæmdastjóra, að í engu varð breyting á hans störfum því starf skrifstofustjóra hefur raunverulega verið aðstoðarframkvæmdastjórastarf og var hér eingöngu um nafnbreytingu á starfsheiti að ræða. Starfsheitið skrifstofustjóri var talið óheppilegt m.a. vegna þess að farið er að nota það starfsheiti innan sjúkrahúsa fyrir allt önnur störf en hér ræðir, t.d. fyrir stjórnunarstöður meðal læknaritara.“

III

Kærunefnd jafnréttismála er sammála um eftirfarandi niðurstöðu:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Tekið er fram að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

Samkvæmt 2. gr. sömu laga skulu konum og körlum með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu, launa og menntunar.

Um skyldur atvinnurekenda er m.a. fjallað í 5. gr. laganna en þar segir: „Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.“

Samkvæmt 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um stöðuhækkun og stöðubreytingar og um uppsögn úr starfi.

Erindi kæranda til kærunefndar jafnréttismála er tvíþætt í fyrsta lagi er óskað álits á því hvort þær breytingar sem urðu á stjórnunarlegri uppbyggingu fjórðungssjúkrahússins brjóti í bága við 5. gr. laga nr. 28/1991 og í öðru lagi hvort ákvörðun stjórnarinnar um að segja kæranda upp störfum í framhaldi af þeim breytingum brjóti gegn 3. og 4. tl. 6. gr. sömu laga.

Um kæruatriði 1.

Óumdeilt er að engar verulegar breytingar voru gerðar á stjórnskipulagi F.S.A. í kjölfar úttektarinnar aðrar en þær sem mál þetta fjallar um, þ.e. breytingin á stjórnun innan hjúkrunarsviðs og stöðubreytingar innan aðalstjórnar sjúkrahússins og á verkstæði. Í framburði formanns stjórnar F.S.A. fyrir kærunefnd kom fram að jafnréttislög hefðu ekki verið höfð í huga við breytingarnar. Hann hafnaði því hins vegar að þær brytu gegn þeim lögum, þar sem ákveðnum þætti stjórnunar sem konur gegndu áður hafi einungis verið deilt út til annarra kvenna. Kærunefnd jafnréttismála getur ekki fallist á þetta sjónarmið. Með því að fella brott eitt stjórnunarstig innan yfirstjórnar hjúkrunar var að mati nefndarinnar dregið úr vægi stjórnunar innan hefðbundins starfssviðs kvenna. Jafnframt liggur fyrir að á sama tíma voru gerðar breytingar á starfsheitum tveggja karla. Kærunefnd jafnréttismála telur það ekki skipta máli við úrlausn þessa máls hvort þar hafi einungis verið um leiðréttingu á starfsheiti að ræða eins og fullyrt er varðandi starf skrifstofustjóra eða raunverulega breytingu á starfi eins og viðurkennt er varðandi breytingar á starfi deildarstjóra trésmíðaverkstæðis. Andstætt breytingunum innan yfirstjórnar hjúkrunar, þá voru þessar breytingar til þess fallnar að auka vægi stjórnunar og til að auka álit manna á þeim störfum. Að þessu virtu telur kærunefnd jafnréttismála að framangreindar breytingar á stjórnskipulagi F.S.A. hafi gengið gegn ákvæðum 5. gr. laga nr. 28/1991, sbr. 3. tl. 6. gr. sömu laga.

Um kæruatriði 2.

A, hjúkrunarframkvæmdastjóra, var sagt upp störfum í kjölfar breytinganna á stjórnskipulagi F.S.A. Samtímis voru gerðar breytingar á starfsheitum tveggja karla hjá stofnuninni án uppsagna. Það er meginregla íslensks vinnuréttar að uppsagnarréttur atvinnurekenda og starfsmanna sé frjáls. Ákvæði 4. tl. 6. gr. laga nr. 28/1991 um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði varðandi uppsögn úr starfi, er því undantekning frá þeirri meginreglu. Það er álit kærunefndar jafnréttismála að sú ákvörðun stjórnar F.S.A. að segja A upp störfum sem hjúkrunarframkvæmdastjóra feli ekki í sér mismunun vegna kynferðis í skilningi 4. tl. 6. gr. laganna, enda færðust störf hennar yfir til annarra kvenna. Uppsögnin telst því ekki brjóta gegn 4. tl. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Ragnhildur Benediktsdóttir
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta