Hoppa yfir valmynd
16. október 1991 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 2/1991

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 2/1991:

A
gegn
Landsbanka Íslands

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 16. október 1991 var samþykkt eftirfarandi niðurstaða í máli þessu:

 

Með bréfi dags. 10. febrúar 1991 óskaði A eftir því að Jafnréttisráð kannaði og tæki afstöðu til, þess hvort ráðning í stöðu forstöðumanns Útlánastýringar Landsbanka Íslands brjóti í bága við ákvæði laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Eftir að mál þetta barst voru sett ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög nr. 28/1991. Samkvæmt þeim lögum fjallar sérstök nefnd, kærunefnd jafnréttismála, um kærur vegna meintra brota á lögunum. Jafnréttisráð vísaði því málinu til kærunefndar jafnréttismála. Þar sem ákvörðun um stöðuveitinguna er tekin í gildistíð laga 65/1985 byggir efnisleg niðurstaða kærunefndar á ákvæðum þeirra laga.

MÁLAVEXTIR

Þann 14. nóvember 1990 var auglýst laus til umsóknar staða forstöðumanns Útlánastýringar Landsbanka Íslands. Um stöðuna sóttu 10 manns. Í stöðuna var ráðinn B, starfsmaður í hagdeild bankans.

Með bréfi dags. 10. febrúar 1991 óskaði A, forstöðumaður hagdeildar Landsbanka Íslands og einn umsækjenda eftir því við Jafnréttisráð að það kannaði og tæki afstöðu til þess hvort umrædd stöðuveiting væri brot á ákvæðum laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í framhaldi af því erindi óskaði Jafnréttisráð eftir upplýsingum frá starfsmannastjóra Landsbanka Íslands um menntun og starfsreynslu þessara tveggja umsækjenda, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka, hæfileika þess sem ráðinn var í starfið. Í bréfi starfsmannastjóra Landsbanka Íslands, dags. 5. mars 1991, koma fram eftirfarandi upplýsingar um menntun og starfsreynslu A:

Menntun: Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1969.

Starfsreynsla: Hún hóf störf í Landsbanka Íslands árið 1971 sem sérfræðingur í hagdeild bankans og hefur starfað þar samfellt síðan að undanskildu einu ári, 1975 - 1976, er hún starfaði við Bergen Bank í Osló. Á árinu 1980 starfaði hún í þrjá mánuði við Skandinaviska Enskilda Banken í Svíþjóð. Árið 1986 var hún ráðin forstöðumaður hagdeildar Landsbanka Íslands. Frá árinu 1987 hefur hún jafnframt séð um daglegan rekstur Útflutningslánasjóðs.

Í svarbréfi starfsmannastjóra Landsbankans koma einnig fram upplýsingar um menntun og starfsreynslu stöðuhafa:

Menntun: Hann lauk prófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1978 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1982. Á árunum 1982 til 1984 var hann við nám í Háskólanum í Freiburg í Þýskalandi og lauk prófum í fjármálafræði, rekstrarfræði, fjárfestingum, utanríkisviðskiptum og markaðsfræðum.

Starfsreynsla: Hann hóf störf í hagdeild Landsbanka Íslands árið 1985 sem sérfræðingur og hefur starfað þar síðan. Í bréfi bankastjórnar Landsbanka Íslands, dags. 1/1 1991 kemur jafnframt fram að hann hafi sótt 2 vikna námskeið hjá Chase Manhattan Bank, auk annarra námskeiða og funda. Á árunum 1989 til 1990 hafi hann starfað að úttekt á starfsemi og skipulagi Landsbankans með aðstoð erlends ráðgjafafyrirtækis, Spicer and Oppenheim Consultants. Í kjölfar þeirrar úttektar hafi hann verið skipaður í sérstakan vinnuhóp bankastjórnar um stöðu vanskila við bankann sem segja megi að hafi verið forveri Útlánastýringar.

Í bréfi starfsmannastjóra Landsbankans eru færð eftirfarandi rök fyrir vali bankans á umsækjendum en þar segir: „Að tillögu Spicer & Oppenheim, erlends ráðgjafafyrirtækis, var sett á stofn nefnd er vann að endurskipulagningu útlánamála innan bankans og starfaði hún í nær tvö ár. Það var álit stjórnenda, að þeim er störfuðu að endurskipulagningu málaflokksins bæri að fylgja tillögunum eftir og var forsvarsmaður vinnuhópsins ráðinn til starfans, án þess að kasta neinni rýrð á hæfni annarra umsækjenda, sem margir hverjir eru mjög hæfir.“

Jafnframt segir í bréfi bankastjórnar Landsbankans, dags. 1/1 1991: „Þær ástæður sem lágu til grundvallar ráðningu B voru þríþættar. Í fyrsta lagi hafði hann góða heildaryfirsýn um útlánamál í Landsbankanum, sem m.a. skýrist af störfum hans við samantekt á stöðu stærstu lántakenda við bankann, svo og störfum æi vinnuhóp bankastjórnar um vanskilamál. Í öðru lagi hafði hann haft frumkvæði að bættum vinnubrögðum innan Hagdeildar varðandi tölvuskráningu ýmissa upplýsinga sem þegar hafa skilað árangri. Í þriðja lagi hafði hann sýnt af sér skipulagshæfileika við úrlausn ýmissa viðfangsefna sem hafa auðveldað stefnumótun á sviði útlánamála hjá bankastjórn. Þessi atriði réðu því að bankastjórn taldi B hæfasta umsækjandann um starf forstöðumanns Útlánastýringar að öðrum umsækjendum ólöstuðum.“

Í málinu liggur fyrir afrit af auglýsingu frá starfsmannasviði bankans þar sem umrætt starf er auglýst laust til umsóknar. Í auglýsingunni koma fram eftirfarandi upplýsingar um meginverkefni deildarinnar:

  1. Samning og endurskoðun á útlánareglum bankans.
  2. Áhættumat útlána og útlánaeftirlit.
  3. Umsagnar- og álitsgerð fyrir lánanefnd bankans.
  4. Stjórn vanskilainnheimtu.

Um kröfur til hæfni umsækjenda segir í auglýsingunni:

„Nauðsynlegt er að umsækjandi þekki vel til rekstrar fyrirtækja og hafi góða þjálfun í áætlanagerð. Bankareynsla, einkum á sviði útlánamála, gagnleg.“

Starfsmannastjóri bankans hefur jafnframt upplýst að staða forstöðumanns Útlánastýringar er hærri staða en staða forstöðumanns hagdeildar bankans. Um er að ræða stjórnunarstöðu og sérfræðingsstöðu, þ.e. undir stjórn forstöðumanns munu starfa sérfræðingar.

NIÐURSTAÐA

Kærunefnd jafnréttismála er sammála um eftirfarandi niðurstöðu:

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum.

Í lögunum eru því lagðar ýmsar skyldur á atvinnurekendur svo tilgangi laganna verði náð. Skylda þessi birtist m.a. í 5. gr. laganna en samkvæmt þeirri grein er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skal starf standa opið jafnt konum sem körlum.

Þegar meta ber hvort lög nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin við stöðuveitingu, kemur að mati kærunefndar jafnréttismála tvennt til athugunar. Í fyrsta lagi ber að athuga hvort gengið hafi verið fram hjá hæfari umsækjanda. Ef svo verður ekki talið, þá ber í öðru lagi að leggja mat á hvort um tvo jafn hæfa umsækjendur sé að ræða.

Kærunefnd jafnréttismála lítur svo á að túlka beri lög nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þannig að þegar um er að ræða tvo umsækjendur af gagnstæðu kyni sem bæði verða að teljast jafn hæf, þá beri atvinnurekanda að ráða þann umsækjandann sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Öðruvísi verði tilgangi laganna ekki náð, sbr. 1. gr. og 9. gr. laga nr. 65/1985.

Það er mat kærunefndarinnar að þeir tveir umsækjendur sem hér eru til skoðunar, þ.e. kærandi þessa máls A og stöðuhafi B, séu bæði vel hæf til að gegna umræddri stöðu.

Bæði hafa lokið viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands en stöðuhafi hefur jafnframt stundað framhaldsnám í tvö ár við háskóla erlendis. Starfsreynsla þeirra er áþekk, þ.e. bæði hafa þau öðlast starfsreynslu sína innan hagdeildar Landsbanka Íslands. Starfsreynsla konunnar er aftur á móti mun lengri eða 20 ár en starfsreynsla hans er 6 ár. Jafnframt ber á það að líta að konan hefur gegnt stöðu forstöðumanns hagdeildar bankans frá árinu 1986 eða í 5 ár. Sú staða sem hér er til umfjöllunar er stjórnunarstaða og hefur konan þannig reynslu af stjórnun en maðurinn ekki.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmannastjóra bankans er staða forstöðumanns Útlánastýringar Landsbanka Íslands hærri staða en staða forstöðumanns hagdeildar. Hér er því um það að ræða að undirmaður, sérfræðingur í hagdeild, er tekinn fram yfir forstöðumann sömu deildar og ráðinn í hærri stöðu. Með þeirri ákvörðun er horft fram hjá þeirri staðreynd að um stjórnunarstöðu er að ræða og þá starfsreynslu hefur konan óneitanlega umfram manninn.

Samkvæmt bréfi Landsbanka Íslands, dags. 5. mars 1991, sbr. einnig bréf bankastjórnar, dags. 1. október 1991, eru rök bankastjórnar Landsbanka Íslands fyrir vali á umsækjendum þau að sett hafi verið á föt nefnd til að vinna að endurskipulagningu útlánamála bankans. Það hafi verið mat stjórnenda bankans að þeim er störfuðu að þeirri endurskipulagningu bæri að fylgja því starfi eftir. Forsvarsmaður nefndarinnar hafi því verið ráðinn í hina nýju stöðu.

Kærunefnd jafnréttismála getur fallist á að hér sé um að ræða starfsreynslu sem er umfram starfsreynslu annarra umsækjenda. Hins vegar getur nefndin ekki fallist á að slík reynsla eigi að ráða úrslitum við val á umsækjendum. Atvinnurekendum ber samkvæmt lögum nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að vinna að því að jafna hlut kynjanna innan fyrirtækis eða stofnunar. Óumdeilt er að konur eru í miklum minnihluta í stjórnunarstöðum innan Landsbankans, einkum í hærri stöðum. Hér er um að ræða tvo umsækjendur sem bæði eru hæf til að gegna umræddri stöðu. Annað þeirra, konan, hefur lengri starfsreynslu og reynslu af stjórnunarstarfi innan bankans. Hitt, karlinn, hefur sem forsvarsmaður þeirra nefndar sem vann að endurskipulagningu útlánamála bankans, fengið tækifæri til á að fylgjast með og vinna að því starfi allt frá upphafi skipulagsbreytinganna. Í málinu hefur hins vegar ekkert það komið fram sem bendir til þess að konan geti ekki gegnt þessu starfi. Á sama hátt hefur ekkert það komið fram við meðferð málsins sem bendir til þess að ekki megi nýta þessa reynslu mannsins í starfi sérfræðings í deildinni.

Kærunefnd jafnréttismála getur þannig ekki fallist á að þeir sérstöku hæfileikar sem maðurinn er talinn hafa séu þess eðlis að hann verði talinn hæfari til að gegna stöðu forstöðumanns Útlánastýringar Landsbanka Íslands.

Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er því sú að með ráðningu í stöðu forstöðumanns Útlánastýringar Landsbanka Íslands hafi verið brotin ákvæði 2. tl. 5. gr. laga nr. 65/1985, sbr. 1. gr. og 9. gr. sömu laga.

Með vísun til 20. gr. laga nr. 65/1985 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er þeim tilmælum beint til bankastjórnar Landsbanka Íslands að stöðuveitingin verð tekin til endurskoðunar og A veitt staðan eða kærði finni aðra lausn á málinu sem kærandi geti sætt sig við.

 

Sigurður Helgi Guðjónsson
Margrét Heinreksdóttir
Sigurður Tómas Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta