Teymi eitt: 8. fundur um fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána
- Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 8. fundur teymis 1. Fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána.
- Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 13. janúar kl. 14:00-16:00.
- Málsnúmer: VEL13060104.
- Mætt: Esther Finnbogadóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fundarstjóri, Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir frá þingflokki Framsóknarflokksins,Guðmundur Pálsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Gylfi Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hrafnkell Hjörleifsson frá velferðarráðuneyti, Jóhann Már Sigurbjörnsson frá Samtökum leigjenda á Íslandi, Kristjana Sigurðardóttir frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Magnús Sædal Svavarsson frá Húseigandafélaginu, Sigurður Jón Björnsson frá Íbúðalánasjóði, Yngvi Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Þórarinn Einarsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
- Fundarritarar: Hrafnkell Hjörleifsson og Guðmundur Pálsson.
Fundargerðum er ætlað að gera umræðum sem eiga sér stað á fundum skil og þau atriði sem fram koma þurfa ekki að endurspegla skoðanir teymisins í heild.
Frásögn af fundi:
Farið var yfir kynningu Analytica á valkostum við húsnæðislánakerfi til framtíðar. Meðal þess sem fram kom:
- Hvað er sjálfbært kerfi?
- Lánveitingar til húsnæðiskaupa ráðast meira af markaðsvirði fasteigna nú en áður. Samræma þarf eignamat á fasteignum.
- Samkeppnisumhverfi skakkt á lánamarkaði í dag vegna stöðu lífeyrissjóða við lánveitinga. Þarf að samræma lánveitingar lífeyrissjóða og eiga þeir að starfa í sama umhverfi og aðrir sem veita húsnæðislán?
- Hvað viðkemur danska húsnæðislánakerfinu er mikill hluti húsnæðislána í Danmörku afborgunarlaus framan af lánstíma. Einnig er mikill hluti lána með stuttan endurskoðunarfrest á vöxtum (undir einu ári). Búið að opna fyrir ákveðna kerfislæga áhættu í Danmörku með breytingum sem gerðar hafa verið á danska kerfinu.
Á fundinum fengu fundarmenn skjalið „Niðurstöður fjármögnunarhóps – drög“. Farið var yfir punkta í skjalinu og athugasemdir nefndarmanna og mun uppfært blað vera tilbúið fyrir næsta fund. Einnig var rætt að forðast þyrfti gildishlaðnar fullyrðingar. Einnig var rætt að millifyrirsagnir vantaði þar sem allir punktarnir heyrðu ekki beint undir leiðarljós fjármögnunar.
Að endingu var ítrekuð sú krafa að það þarf að safna betri upplýsingar um húsnæðismarkaðinn. Slíkar upplýsingar myndu gefa yfirsýn yfir stöðu markaðarins og gæti hjálpað til í ákvörðunartöku til framtíðar.
Tilkynnt var um að fundur stóra samvinnuhópsins frestist um viku svo þeir tveir hópar sem enn eru að störfum nái að skila sínum tillögum. Fundurinn verður föstudaginn 24. janúar kl. 12:00-16:00.
Næsti fundur verður föstudaginn 17. janúar kl. 13:00-15:00.
Fleira var ekki tekið fyrir.