Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 13/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 13/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070035

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. júlí 2020 kærði […], fd. […], ríkisborgari Aserbaísjan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. júlí 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. janúar 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 12. maí 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 7. júlí 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. júlí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 26. ágúst 2020 ásamt fylgigögnum. Frekari upplýsingar bárust frá kæranda þann 6. nóvember 2020. Frumrit sem kærandi lagði fram voru send í skjalarannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum þann 12. nóvember sl. og bárust niðurstöður lögreglunnar kærunefnd þann 7. desember sl. Niðurstöðurnar voru sendar kæranda þann 8. desember sl. en með svari samdægurs greindi kærandi frá því að hann teldi ekki þörf á því að koma frekari athugasemdum að vegna þeirra. Þá kom kærandi til viðtals hjá kærunefnd þann 20. október sl., sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að líf hans sé í hættu í heimaríki vegna aðildar hans að stjórnarandstöðuflokki og starfa hans sem blaðamaður.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til þess að hann hafi verið meðlimur stjórnarandstöðuflokksins Azerbaijan Popular Front Party (APFP/AXCP) og gegnt ábyrgðarstöðum innan hans frá árinu 2008. Kærandi hafi einnig starfað sem blaðamaður í heimaríki. Vegna þessa hafi kærandi þurft að sæta ofsóknum af hálfu stjórnvalda í heimaríki. Að öðru leyti vísaði kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar hvað málsatvik varðar. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi verið meðlimur umrædds stjórnmálaflokks frá árinu 2008 og hafi verið kjörinn til ábyrgðarstarfa innan hans árið 2012. Kærandi hafi oftar en einu sinni verið handtekinn vegna þátttöku í mótmælum og verið beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu lögreglu. Þá hafi kærandi verið dæmdur í 15 daga fangelsi og til að greiða sekt vegna stjórnmálaskoðana. Enn fremur sé búið að höfða sakamál gegn kæranda í heimaríki vegna afbrots sem hann á að hafa framið á meðan hann var staddur hér á landi. Vegna þess sé kærandi nú eftirlýstur í heimaríki og sé ljóst að hann yrði handtekinn við komuna til baka.

Kærandi byggir á því að honum skuli veitt alþjóðleg vernd hér á landi þar sem hann sé flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi þ.a.l. rétt á alþjóðlegri vernd, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga.

Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið haldin slíkum annmörkum að kærunefnd beri að ógilda hana vegna þeirra annmarka út af fyrir sig. Vísar kærandi til þess að samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Þýskalandi hafi alþjóðleg vernd kæranda þar í landi verið afturkölluð þann 20. janúar 2020. Ákvörðun þýskra stjórnvalda hafi verið byggð á því að kærandi hafi verið skráður horfinn þar í landi þann 31. mars 2018. Þýsk stjórnvöld hafi þó tekið fram í svari sínu til Útlendingastofnunar að ákvörðun um niðurfellingu verndar hefði engin lagaleg áhrif á þeim tíma sem svarið var skrifað þar sem kærandi væri með útgefið ferðaskilríki með gildistíma til 29. maí 2020. Kærandi kveðst ekki hafa fengið upplýsingar um að til stæði að afturkalla vernd hans í Þýskalandi. Þá telji kærandi að ákvörðun þýskra stjórnvalda þar að lútandi hafi byggst á því að talið hafi verið að kærandi hafi snúið aftur til heimaríkis og sest þar að á ný. Þýsk stjórnvöld hafi hins vegar ekki vitað með vissu hvar kærandi væri niðurkominn eða hver staða hans væri í heimaríki. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi ferðast til heimaríkis vegna veikinda foreldra sinna. Kærandi hafi ekki dvalið í heimabæ sínum heldur í höfuðborg Aserbaísjan hjá vini sínum þar sem hann hafi farið huldu höfði. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi ekki verið spurður hvort hann hafi verið öruggur í heimaríki þegar hann hafi dvalið þar eða hvort staða hans þar hefði breyst á þann veg að hann þyrfti ekki lengur á alþjóðlegri vernd að halda. Væri um alvarlegt brot á rannsóknarskyldu Útlendingastofnunar að ræða en í ljósi grundvallarreglunnar um non-refoulement hefði stofnunin þurft að ganga úr skugga um að kæranda væri raunverulega vært í heimaríki sínu. Þá hafi Útlendingastofnun byggt á því í hinni kærðu ákvörðun að auðvelt væri fyrir einstaklinga frá heimaríki kæranda að verða sér úti um falsaðar lögregluskýrslur, fölsuð skilríki og önnur gögn sem gætu stutt umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd. Greinir kærandi frá því að umrætt mat stofnunarinnar hafi byggst á bloggumfjöllun og með því að leggja slíkt mat til grundvallar ákvörðun sinni hafi stofnunin m.a. brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Að mati kæranda hafi framlögð gögn verið í samræmi við frásögn hans og opinberar og áreiðanlegar upplýsingar um ofsóknir stjórnvalda í heimaríki gegn einstaklingum í sambærilegri stöðu og kærandi. Enn fremur hafi krafa Útlendingastofnunar um að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á með óyggjandi hætti að honum stafi hætta af stjórnvöldum í heimaríki ekki verið í samræmi við lög né leiðbeiningar Flóttamannastofnunar um meðferð hælisumsókna. Vísar kærandi til þess að ofangreindir annmarkar á málsmeðferð leiði að jafnaði til ógildingar ákvörðunar og nýrrar málsmeðferðar hjá viðkomandi stjórnvaldi en vegna hagsmuna kæranda af því að fá skjóta úrlausn í máli sínu geri hann kröfu um að kærunefnd útlendingamála bæti úr þeim ágöllum sem voru á málsmeðferð Útlendingastofnunar, felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og veiti kæranda stöðu flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir á því að hann sé flóttamaður, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, vegna ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi starfs síns vegna og því eigi hann rétt á alþjóðlegri vernd, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar hvað varðar málsatvik og hvernig þau falla að skilgreiningu ofsókna. Þar komi m.a. fram að hart sé tekið á allri gagnrýni stjórnarandstæðinga og fjölmiðlafólks í garð yfirvalda í heimaríki. Meðlimir stjórnarandstöðuflokka eigi m.a. á hættu handahófskenndar handtökur og líkamlegt ofbeldi. Þá sé tjáningar- og fjölmiðlafrelsi verulega takmarkað og sé fjölmiðlafólki ógnað og jafnvel ráðist á það. Nýlegir atburðir í heimaríki kæranda styðji frásögn hans um slæma stöðu umræddra hópa þar í landi en forseti landsins hafi nýlega látið öryggissveitir landsins handtaka fyrirsvarsmenn APFP/AXCP og blaðamenn. Evrópuráðið hafi í yfirlýsingu þann 31. júlí sl. lýst yfir áhyggjum yfir þróun mála og þá einkum fréttum af því að hinir handteknu hafi þurft að sæta pyndingum til þess að knýja fram játningar þeirra um áform um að kollsteypa ríkisstjórn landsins. Þar sem kærandi sé meðlimur APFP flokksins og hafi ekki látið af gagnrýni sinni á stjórnvöld í heimaríki, m.a. með stöðuuppfærslum á Facebook, sé hann flóttamaður sem eigi á hættu ofsóknir í heimaríki í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi þ.a.l. rétt á vernd hér á landi.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað asersku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé aserskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Aserbaísjan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices - Azerbaijan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • The World Factbook - Azerbaijan (vefsíða CIA, sótt 5. ágúst 2020);
  • Nations in Transit 2020 - Azerbaijan (Freedom House, 1. júlí 2020);
  • Nations in Transit 2017 – Azerbaijan (Freedom House, 29. mars 2017);
  • Freedom in the World 2020 - Azerbaijan (Freedom House, 6. mars 2020);

  • World Report 2020 - Azerbaijan (Human Rights Watch, 8. janúar 2020);
  • Temanotat. Aserbajdsjan: Den Partipolitiske opposisjonen (Landinfo, 17. apríl 2013);
  • Amnesty International Report 2017/2018 - Azerbaijan (Amnesty International, 24. febrúar 2016);
  • Amnesty International Report 2016/2017 - Azerbaijan (Amnesty International, 1. febrúar 2018);
  • Harassed, Imprisoned, Exiled. Azerbaijan´s Continuing Crackdown on Government Critics, Lawyers, and Civil Society (Human Rights Watch, 20. október 2016);
  • Resolution 2062 – The functioning of democratic institutions in Azerbaijan (Council of Europe: Parliamentary Assembly, 23. júní 2015);
  • Concluding observations on the fourth periodic report of Azerbaijan (UN Human Rights Committee, 16. nóvember 2016);
  • Trial Monitoring Azerbaijan 2011 (Organization for Security and Co-operation in Europe, 10. apríl 2013);
  • Rapporteurs respond to reports of mass arrests of demonstrators in Azerbaijan (Council of Europe, 31. júlí 2020);
  • Azerbaijan: Relentless Crackdown on Opposition (Human Rights Watch, 19. ágúst 2020);
  • General Country of Origin Information Report for Azerbaijan (The Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands, júlí 2020);
  • The Functioning of the Judicial System in Azerbaijan and its Impact on the Rights to a Fair Trial of Human Rights Defenders (Helsinki Foundation for Human Rights, september 2016);
  • Constitution of the Republic of Azerbaijan (www.refworld.org/docid/4d4828112.html) og
  •  

  • Azerbaijan: Information on the Azerbaijan Popular Front Party (APFP), including its membership, structure, activities, involvement in demonstrations prior to and after the elections of 1 November 2015, including police and government response; treatment of members by the police and by government (January 2015-May 2016) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 16. maí 2016).

 

Aserbaísjan er lýðveldi með um 10,2 milljónir íbúa. Ríkið er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ríkið er jafnframt aðili að m.a. flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Í ofangreindum skýrslum Freedom House og bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að sitjandi forseti landsins, Ilham Aliyev, hafi verið kjörinn árið 2003, og hann hafi þá tekið við af föður sínum, Heydar Aliyev, sem hafi setið í embættinu árin 1993 til 2003. Árið 2009 hafi reglur um hversu mörg kjörtímabil forseti megi sitja verið afnumdar og árið 2016 hafi hvert kjörtímabilið verið lengt úr fimm árum í sjö ár. Í febrúar 2017 hafi forseti landsins skipað eiginkonu sína, Mehriban Aliyeva, í nýstofnaða stöðu varaforseta landsins. Þingkosningar hafi átt sér stað í nóvember 2015 þar sem flokkur forsetans, Yeni Azerbaijan Party (YAP), hafi unnið flest sæti. Takmarkað eftirlit hafi verið með kosningunum þar sem að flestir alþjóðlegir eftirlitsaðilar hafi neitað að taka slíkt eftirlit að sér vegna þess að asersk yfirvöld hafi sett þeim of miklar takmarkanir. Í febrúar 2018 hafi forseti landsins gefið út tilskipun sem flýtti forsetakosningum það ár um sex mánuði eða frá október fram í apríl. Í kjölfarið hafi stjórnarandstæðingar sniðgengið kosningarnar vegna skorts á samkeppnishæfu umhverfi og tímaskorts til þess að undirbúa sig undir kosningarnar.

Stjórnarskrá og lög landsins kveði á um bann við mismunun m.a. á grundvelli stjórnmálaskoðana en því banni sé ekki ávallt framfylgt af stjórnvöldum. Þó að kveðið sé á um tjáningarfrelsi í lögum landsins þá sé töluvert um takmarkanir á tjáningarfrelsi í landinu og það eigi sérstaklega við um þá sem gagnrýni stjórnvöld, hvort sem það séu stjórnarandstæðingar, fjölmiðlafólk eða almennir aðgerðarsinnar. Þeir verði fyrir töluverðu áreiti af hálfu stjórnvalda og eigi m.a. á hættu fangelsun fyrir ýmiss konar sakir. Einnig komi fyrir að fjölskyldumeðlimir slíkra einstaklinga verði fyrir áreiti. Stjórnvöld hafi auk þess töluverð áhrif á það sem komi fram í fjölmiðlum. Þá hafi þau jafnframt þrengt að starfsemi frjálsra félagasamtaka með setningu takmarkandi laga, sem m.a. geri slíkum samtökum erfitt fyrir að taka við fjárframlögum. Funda- og félagafrelsi sé jafnframt takmarkað í landinu að verulegu leyti.

Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins kveði á um aðgreiningu dóms- og framkvæmdavalds þá sé sjálfstæði dómstóla takmarkað þar sem þeir heyri að miklu leyti undir framkvæmdavaldið. Dómarar séu tilnefndir af forseta landsins og í kjölfarið skipaðir af þinginu. Skortur á sjálfstæði dómstóla komi fram með áberandi hætti í fjölmörgum málum gegn stjórnarandstæðingum, aðgerðarsinnum og fjölmiðlafólki. Þá sé einnig töluvert um spillingu hjá dómstólum. Spillingu sé ekki aðeins að finna í dómstólum landsins heldur sé hún víðdreifð og yfirgripsmikil á vettvangi hins opinbera og fyrirfinnist m.a. á öllum stigum ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt ofangreindri skýrslu kanadísku flóttamannastofnunarinnar var stjórnarandstöðuflokkurinn Azerbaijan Popular Front Party (APFP) stofnaður árið 1992. Flokkurinn hafi komist til valda hið sama ár eftir kosningar í landinu. Ári seinna hafi flokkurinn hins vegar misst stjórn í landinu eftir valdarán sem hafi jafnframt markað upphaf stjórnartíðar Aliyev fjölskyldunnar, líkt og að ofan var greint frá. APFP hefur verið lýst sem helsta stjórnarandstöðuflokki landsins en flokkurinn viðurkenni m.a. ekki lögmæti núverandi ríkisstjórnar og haldi reglulega mótmælagöngur. Árið 2016 var áætlaður fjöldi meðlima um 5000 til 7000 meðlimir. Í skýrslunni er greint frá því að meðlimir APFP verði fyrir takmörkunum á tjáningar- og funda- og félagafrelsi auk þess sem þeir, ásamt fjölskyldumeðlimum þeirra, geti orðið fyrir hótunum. Í byrjun árs 2016 hafi sjö meðlimir APFP verið í varðhaldi og þar af hafi þrír þeirra verið í valdastöðu innan flokksins. Sami fjöldi meðlima APFP hafi verið í varðhaldi árið 2019 ásamt því að áætlað sé að dómstólar landsins hafi í um 100 skipti dæmt meðlimi flokksins í tímabundið varðhald. Þann 31. júlí sl. gáfu fulltrúar Evrópuráðsþingsins út tilkynningu þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum af fjöldahandtökum mótmælenda og fréttum af því að verið væri að neyða einstaklinga í varðhaldi til þess að gefa rangan framburð. Samkvæmt ofangreindri frétt Human Rights Watch frá 19. ágúst 2020 hafi ríkisstjórn Aserbaísjan gripið til umræddra aðgerða degi eftir mótmæli sem haldin hafi verið þann 14. júlí sl. Í mótmælunum hafi lítill hópur mótmælenda brotist inn í þinghúsið og valdið eignatjóni þar inni. Yfirvöld hafi haldið því fram að um skipulagða tilraun til valdaráns hafi verið að ræða og hafi forseti landsins m.a. komið fram í sjónvarpsútsendingu degi seinna og sagt APFP bera ábyrgð á fyrrnefndum atburðum ásamt því að hafa kallað flokksmeðlimi svikara og óvini. Af þeim einstaklingum sem handteknir voru í kjölfar mótmælanna voru 17 af þeim meðlimir APFP, þ. á m. fimm meðlimir sem gegni ábyrgðarstöðu innan flokksins.  

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki sem rekja megi til aðildar hans að stjórnarandstöðuflokknum APFP og starfa hans sem blaðamanns þar í landi. Kærandi hafi mátt sæta áreiti af hálfu stjórnvalda og lögreglu í heimaríki vegna þessa en hann hafi m.a. verið úrskurðaður til fangelsisvistar og greiðslu sektar vegna stjórnmálaskoðana, mátt þola áreiti vegna þátttöku í mótmælum þar í landi auk þess sem sakamál hafi verið höfðað gegn honum sem sé byggt á röngum sakargiftum. Þá sé búið að gefa út handtökuheimild á hendur kæranda og hann sé eftirlýstur í heimaríki á grundvelli hennar.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins, upplýsingum um heimaríki kæranda, viðtali hans hjá kærunefnd útlendingamála og skjalarannsóknarskýrslu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 20. október 2020. Var framburður kæranda í meginatriðum í samræmi við fyrri frásögn hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að kærandi hafi sýnt með sannarlegum hætti að hann hafi starfað sem fréttamaður í heimaríki og verið flokksmeðlimur í stjórnarandstöðuflokknum APFP. Það var þó mat stofnunarinnar að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann ætti á hættu ofsóknir eða meðferð í heimalandi sínu sem jafnað yrði til ofsókna og rekja mætti til framangreindra ástæðna. Kærandi hafi lagt fram fjöldamörg gögn í tengslum við ætlaðar ofsóknir á hendur sér en það dygði ekki til að sýna fram á þær með fullnægjandi hætti þar sem það komi fram í fréttamiðlum að einstaklingar í heimaríki kæranda gætu orðið sér úti um falsaðar lögregluskýrslur, fölsuð skilríki og annað slíkt sem aðstoði þá við umsóknir um alþjóðlega vernd. Þá hafi kærandi ferðast margsinnis til og frá heimaríki, þ. á m. oftar en hann hafi gefið upp í viðtali hjá stofnuninni, en með því hafi kærandi sýnt fram á að hann sé ekki í þeirri hættu í heimaríki sem hann hafi borið fyrir sig.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram töluverðan fjölda af gögnum. Þar á meðal voru afrit af eða vefslóðir á greinar eftir kæranda þar sem hann kveðst gagnrýna stjórnvöld í heimaríki, mynd af kæranda með ætluðum eiganda […] sem er fréttamiðillinn sem kærandi kveðst hafa starfað hjá, heilbrigðisgögn föður kæranda í kjölfar þess að hann hafi fengið heilablóðfall, ýmis gögn sem sýni fram á áreiti stjórnvalda í garð kæranda og önnur gögn sem tengjast m.a. flokksaðild hans að stjórnarandstöðuflokknum APFP. Þá lagði kærandi fram ýmis frumrit en á meðal þeirra var bréf frá innanríkisráðuneytinu í heimaríki kæranda vegna rannsóknar þess á kvörtun kæranda í tengslum við áreiti lögreglu á hendur honum vegna þátttöku hans í mótmælum, dagblað frá heimaríki, tvö skírteini vegna kosningaeftirlits, meðlimaskírteini sem sýni aðild hans að stjórnarandstöðuflokknum APFP, þrjú blaðamannaskírteini og almannatryggingaskírteini. Að mati kærunefndar gátu umrædd skjöl rennt stoðum undir frásögn kæranda af meintu áreiti yfirvalda í garð hans í heimaríki. Voru skjölin því send til skjalarannsóknar þann 12. nóvember sl. hjá lögreglunni á Suðurnesjum til þess að kanna áreiðanleika þeirra. Niðurstöður úr rannsókninni bárust kærunefnd þann 7. desember sl. Samkvæmt ályktun skjalarannsóknarskýrslunnar var bréfið frá innanríkisráðuneytinu og almannatryggingaskírteini kæranda metin sem svo að um traust skjöl væri að ræða og að enga fölsun væri að sjá á þeim. Þá væri enga fölsun að sjá á skírteinum kæranda vegna kosningaeftirlits eða blaðamannaskírteinum hans. Meðlimaskírteini kæranda að stjórnarandstöðuflokknum APFP var metið sem ótraust skjal en þó var ekki hægt að fullyrða um gildi skjalsins. Með hliðsjón af skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar verður ráðið að kærandi hafi að meginstefnu til lagt fram traust og trúverðug gögn við meðferð máls hans hér á landi. Að mati kærunefndar eru gögnin, sem tengjast frásögn hans í meginatriðum, til þess fallin að styrkja trúverðugleika frásagnar kæranda. Verður því byggt á því að kærandi hafi verið flokksmeðlimur að stjórnarandstöðuflokknum APFP, að hann hafi starfað sem blaðamaður í heimaríki og hafi átt í útistöðum við stjórnvöld í heimaríki.

Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 20. október sl. Er það mat kærunefndar að frásögn kæranda hafi í meginatriðum verið í samræmi við fyrri frásögn hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Líkt og kom fram í ákvörðun Útlendingastofnunar þá virtist vera misræmi í frásögn kæranda og þess sem stimplar í vegabréfi hans sýndu fram á hvað varðar fjölda ferða hans til og frá heimaríki síðastliðin ár. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi ferðast aftur til heimaríkis í tvö eða þrjú skipti frá því að hann flúði til Þýskalands árið 2016. Við rannsókn Útlendingastofnunar á vegabréfi kæranda hafi hins vegar komið í ljós að hann hafi ferðast aftur til heimaríkis í níu skipti á umræddu tímabili. Kæranda var veittur kostur á að útskýra misræmið sem hann gerði með tölvupósti til Útlendingastofnunar þann 15. júní sl. Greindi kærandi frá því að hann hafi ekki munað í hversu mörg skipti hann hafi ferðast aftur til heimaríkis og heldur ekki í hversu langan tíma hann hafi dvalið þar í senn. Þá hafi hann ekki viljað greina ranglega frá í viðtalinu. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála út í umrætt misræmi voru svör kæranda sambærileg þeim sem hann veitti Útlendingastofnun. Aðspurður út í tilgang ferða sinna aftur til heimaríkis kvaðst kærandi hafa þurft að sinna umönnun foreldra sinna sem væru bæði veik en faðir hans hafi t.a.m. fengið heilablóðfall vegna áreitis lögreglu. Hafi kærandi m.a. þurft að ferðast með foreldrum sínum til Írans svo að þau gætu fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu þar í landi. Að mati kærunefndar hefur kærandi á viðunandi hátt gert grein fyrir tilgangi ferða sinna aftur til heimaríkis og hefur að mestu verið trúverðugur í frásögn sinni auk þess sem frásögn hans um heilsufarsvandræði foreldra sinna fái stoð í öðrum gögnum málsins. Jafnvel þótt kærunefnd telji útskýringar á fjölda ferða til heimaríkis, auk tilgangs þeirra, ekki liggja fyllilega fyrir í málinu verður kærandi látinn njóta vafans í þeim efnum. Þykja umræddar ferðir því einar og sér ekki geta leitt til þeirrar niðurstöðu að kærandi teljist ekki hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki.

Við meðferð máls kæranda fyrir stjórnvöldum hér á landi hefur hann lagt fram fjöldamargar greinar og önnur gögn tengd störfum hans sem blaðamanns í heimaríki. Í störfum sínum hafi hann gagnrýnt núverandi yfirvöld í heimaríki. Af framlögðum greinum og öðrum gögnum, sérstaklega m.t.t. umfangs þeirra, má ráða að kærandi virðist hafa verið opinber í gagnrýni sinni á yfirvöld í heimaríki. Í því sambandi hafi nafn hans verið við greinar sem hafi verið skrifaðar af honum auk þess sem nafn hans og myndir af honum hafi birst í öðrum greinum sem voru birtar með opinberum hætti. Þá telur kærunefnd kæranda hafa leitt líkur að því með fullnægjandi hætti að yfirvöld í heimaríki hafi verið meðvituð um störf hans sem blaðamanns þar í landi. Greindi kærandi einnig frá því að hann hafi verið í ábyrgðarhlutverki innan stjórnarandstöðuflokksins APFP en starf hans þar hafi m.a. falist í því að kynna flokkinn fyrir almenningi og reyna að fá einstaklinga til þess að ganga til liðs við flokkinn. Þá þykir frásögn kæranda af áreiti yfirvalda í heimaríki í sinn garð koma heim og saman við það sem fram kemur í heimildum sem kærunefnd hefur kynnt sér og fjallar m.a. um viðhorf og áreiti yfirvalda í garð fjölmiðlamanna og stjórnarandstöðuliða þar í landi. Kærunefnd lítur einnig til þess að kæranda hefur áður verið veitt alþjóðleg vernd í Þýskalandi með ákvörðun stjórnvalda þar í landi dags. 27. maí 2017. Í gögnum frá stjórnvöldum þar í landi kemur fram að kærandi hafi verið metinn trúverðugur og að frásögn hans hafi verið ítarleg og umfangsmikil auk þess sem framlögð gögn hafi rennt stoðum undir hana. Vísuðu þýsk stjórnvöld til þeirrar hættu á ofsóknum af hálfu stjórnvalda í heimaríki kæranda sem stjórnarandstöðuliðar og blaðamenn sem væru gagnrýnir á stjórnvöld þar í landi byggju við, m.a. hættu á fangelsisvistun í pólitískum tilgangi. Þann 20. janúar 2020 hafi þýsk stjórnvöld hins vegar ákveðið að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda þar í landi. Af gögnum frá þýskum stjórnvöldum, dags. 20. nóvember 2018, verður ráðið að ákvörðunin um afturköllun verndar hafi byggst á því að það hafi komið í ljós að kærandi hafi ferðast í þrjú skipti aftur til heimaríkis á ákveðnu tímabil. Var sérstaklega tekið fram að kærandi hefði ferðast inn og út úr landinu með löglegum hætti, eins og stimplar í framlögðu vegabréfi kæranda fyrir stjórnvöldum hér á landi bera með sér. Af gögnum málsins verður þó ekki ráðið að tekið hafi verið tillit til þeirra ástæðna sem bjuggu að baki ferða kæranda aftur til heimaríkis en kærandi greindi frá því hér á landi að hann hafi ferðast aftur til heimaríkis til þess að sinna umönnun foreldra sinna vegna bágs heilbrigðisástands þeirra. Líkt og að ofan greinir hefur kærunefnd metið útskýringar kæranda á ferðum sínum aftur til heimaríkis að mestu trúverðugar auk þess sem þær fái stoð í öðrum gögnum málsins.

Er það mat kærunefndar, þegar litið er heildstætt á málsatvik að kærandi hafi rennt nægilegum stoðum undir þá málsástæðu að yfirvöld í heimaríki telji hann mótfallinn þeim. Að því virtu, með vísan til þess sem kærunefnd hefur lagt til grundvallar í máli kæranda og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður og aðgerðir yfirvalda í heimaríki kæranda er það mat kærunefndar að kærandi hafi á rökstuddan hátt leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana, hlutverki hans innan APFP og starfa hans sem blaðamanns, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og e-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga.

Í ljósi þess að ofsóknir á hendur kæranda í heimaríki felast í aðgerðum stjórnvalda er það mat kærunefndar að ekki sé raunhæft eða sanngjarnt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að annars staðar í heimaríki sínu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður og hafi því rétt til alþjóðlegrar verndar, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga, enda ekkert sem bendir til þess að útilokunarástæður 2. mgr. 40. gr. laga um útlendinga eigi við um kæranda.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar á skjölum sem kærandi hafi lagt fram við meðferð málsins. Taldi kærandi að mat Útlendingastofnunar um að umrædd gögn hafi ekki verið talin trúverðug hafi byggst á umfjöllun af bloggsíðu. Útlendingastofnun hafi á grundvelli þess mats litið alfarið framhjá framlögðum gögnum málsins.

Kærunefnd tekur undir með kæranda að fullt tilefni hafi verið fyrir Útlendingastofnun til að senda framlögð frumrit frá heimaríki kæranda í skjalarannsókn í stað þess að láta nægja að vísa í grein á netmiðli til stuðnings trúverðugleikamati sínu, þrátt fyrir að netmiðillinn teljist trúverðugur. Gerir kærunefnd því athugasemd við framangreint verkferli Útlendingastofnunar og beinir þeim tilmælum til hennar að senda framlögð skjöl í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd til skjalarannsóknar geti þau haft áhrif á niðurstöðu máls þeirra og vafi sé um áreiðanleika þeirra. Var sérstakt tilefni til þess í máli kæranda í ljósi málsástæðna og magns af framlögðum frumritum.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera frekari athugasemdir við hana.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta