Föstudagspóstur 14. júlí 2023
Heil og sæl,
Upplýsingadeildin heilsar á föstudeginum 14. júlí, sem eins og glöggir lesendur vita er Bastilludagurinn, þjóðhátíðardagur Frakka.
Það sem bar hæst á vettvangi íslenskrar utanríkisþjónustu í liðinni viku var leiðtogafundur NATO sem fram fór í Vilníus. Á fundinum voru umræður um málefni Úkraínu fyrirferðamiklar, auk ákvarðana um að nýjar sameiginlegar varnaráætlanir, sem munu efla sameiginlegar varnir bandalagsins. Þá var rætt um þær áætlanir sem samþykktar voru í Madrid í fyrra, meðal annars á sviði loftslagsaðgerða og þegar kemur að öryggi óbreyttra borgara. Á fundinum var einnig ákveðið að auka framlög og fjárfestingar í varnarmálum til að styðja við aukinn varnarviðbúnað. Einnig var ákveðið að setja á fót sérstaka miðstöð á vegum bandalagsins sem styður við eftirlit og upplýsingamiðlun vegna ógna sem stafa að neðansjávarinnviðum.
Þá var sömuleiðis ákveðið að efla pólitískt samstarf milli NATO og Úkraínu, m.a. með stofnsetningu sérstaks NATO-Úkraínuráðs, og þannig leggja grunn að framtíðaraðild landsins að bandalaginu, þegar að aðstæður leyfa. Einnig var hernaðarleg samstaða með landinu styrkt, en bandalagið skuldbindur sig áfram til að styðja við varnir Úkraínu og mun leggja frekari fjármuni í uppbyggingu þar í landi. Samstaðan var einnig áréttuð af utanríkisráðherrum NB8 ríkjanna í skoðanapistli sem birtist í Washington Post í vikunni.
The NB8 foreign ministers' op-ed in the Washington Post: https://t.co/ghy1n2nKsp
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir🇮🇸 (@thordiskolbrun) July 11, 2023
"It is our duty to support Ukraine on its path to a better future for its people. The historic example of successful Nordic-Baltic cooperation is an inspiring precedent and gives us hope."
Leiðtogum fjögurra samstarfsríkja bandalagsins í Asíu og á Kyrrahafi, Ástralíu, Japans, Nýja-Sjálands og Suður-Kóreu, var boðið til fundarins öðru sinni til að ræða þróun öryggismála á heimsvísu og hvernig standa megi vörð um grundvallargildi alþjóðasamvinnu. Þá var rætt um aukna samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála, ekki síst varðandi fjölþátta ógnir og netöryggi.
Utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, átti einnig tvíhliða fund með nýjum utanríkisráðherra Finnlands, Elina Valtonen, sem tók við embætti í júní, en þar voru norðurslóðamál og norrænt samstarf efst á baugi. Ráðherra sótti einnig óformlegan fund kvenkyns utanríkis- og varnarmálaráðherra.
Women ministers of foreign affairs and defense met this morning in a truly powerful meeting. Grateful to be part of this group. Thanks to all the strong voices especially to @StefanishynaO , deputy PM of Ukraine for valuable insights into Ukraine's fight for a better future. pic.twitter.com/RC5sUJFkbC
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir🇮🇸 (@thordiskolbrun) July 12, 2023
Utanríkisráðherra tók einnig þátt í málþingi sem haldið var á vegum skrifstofu Sviatlönu Tsikhanouskayu, leiðtoga lýðræðishreyfingar Belarús. Ráðherra var einn frummælanda á þinginu sem bar yfirskriftina „Fullveldi Belarús og öryggi Evró-Atlantshafssvæðisins“. Þar var rætt um sífellt nánari tengsl stjórnar Lúkasjenkó við rússnesk stjórnvöld, viðveru rússnesks herafla í Belarús, yfirvofandi flutning kjarnorkuvopna þangað og áhrifin sem þetta hefur á fullveldi landsins.
Þá sæmdi Sviatlana Tsikhanouskaya Þórdísi Kolbrúnu heiðursorðu fyrir stuðning hennar og íslenskra stjórnvalda við lýðræðisöfl Belarús.
Leaders like my courageous friend Sviatlana are making sacrifices so others may have better lives. It is the duty of us in liberal democracies to make their fight our fight. https://t.co/9zaWPQaphK
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir🇮🇸 (@thordiskolbrun) July 11, 2023
Í Heimsljósi, upplýsingaveitu um þróunar- og mannúðarmál, kom fram að tvö fyrirtæki höfðu hlotið styrki úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins. Það voru fyrirtækin Verkís og Fisheries Technologies sem fengju styrki uppá samtals tæplega 24 milljónir. Verkefni Verkís ber heitið Geothermal Ukraine og er eins og nafnið gefur til kynna á sviði jarðhita. Þá hlaut Fisheries Technologies styrk vegna verkefnisins CARICE, sem snýr að innleiðingu upplýsingakerfa vegna fiskveiða í Karíbahafi.
Einnig kom fram að Ísland hefði aukið stuðning við konur í Afganistan. Veittar verða samtals 150 milljónir króna sem renna til Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og UN Women’s Peace and Humanitarian Fund (WPHF), sem er sjóður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem veitir styrki til félagasamtaka sem eru leidd af konum.
Samkvæmt sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda- og jafnréttismála má líkja ofsóknum talíbana gegn konum við kynjaða aðskilnaðarstefnu þar sem konur eru niðurlægðar og útilokaðar á kerfisbundinn hátt af stjórnvöldum. Konur í Afganistan þurfa að hylja andlit sitt utan heimilis, þær mega ekkert fara án karlkyns velsæmisvarðar, þeim er meinuð stjórnmálaþátttaka og menntun stúlkna eftir sjötta bekk í grunnskóla er óheimil. Aðgangur kvenna að heilbrigðisþjónustu er sömuleiðis afar takmarkaður og því erfitt fyrir konur að tilkynna og leita réttlætis í kjölfar ofbeldis. Nýverið bönnuðu talíbanar einnig rekstur snyrtistofa í Afganistan sem er enn eitt skrefið í aðför talíbana að þátttöku kvenna í opinberu lífi en snyrtistofur hafa verið ákveðinn griðastaður fyrir konur. Þróunin hefur leitt til þess að geðheilsa kvenna í Afganistan hefur farið hríðversnandi og hefur sjálfsvígstíðni aukist.
Ísland hefur um árabil veitt mannúðaraðstoð til Afganistan í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna.
Lítum nú á hvað fór fram á vettvangi sendiskrifstofanna.
Listamenn sem taka þátt í Skarpt Festival heimsóttu aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum.
Sendiráð Íslands í Póllandi bauð íbúum Varsjá að koma á myndlistasýningu sem helguð er íslensku landslagi. Myndirnar eru eftir listakonuna Katarzyna Poszwinska, en hún sækir innblástur sinn í íslenskt landslag. Sýningin verður opin til 2. ágúst.
Sendiráð Íslands í Malaví fagnaði í vikunni mannfjöldadeginum (e. World Population Day). Ísland vinnur náið með Mannfjöldasjóði Sameinuðu Þjóðanna í Malaví í stuðningi við fjölskyldur.
Fráfarandi sendiherra Íslands í Danmörku, Helga Hauksdóttir, hlaut í vikunni kveðjuáheyrn í Fredensborgarhöll. Þar var sendiherrann sæmd stórkrossi dönsku Dannebrogsorðunnar fyrir störf sín í Danmörku. Dannebrogsorðan hefur verið veitt frá árinu 1671, en talið er að saga hennar nái allt aftur til 13. aldar. Upplýsingadeildin óskar Helgu innilega til hamingju með heiðurinn.
Sendiráð Íslands í Belgíu sagði frá því að Evrópukeppni U19 landsliða kvenna í knattspyrnu fer fram þar í landi, en þar mun Ísland taka þátt. Stelpurnar munu spila á móti Spáni, Frökkum og Tékkum í riðlakeppni mótsins.
Sendiráð Íslands í Washington tók á móti fulltrúum frá Íslandsstofu og Útón, sem hefur milligöngu um útflutning á íslenskri tónlist. Þau höfðu tekið þátt í NIVA viðburðnum sem fór fram þar í borg, en NIVA er vettvangur sem styður við sjálfstæða tónleikastaði í Bandaríkjunum.
Our friends from Business Iceland and the 🇮🇸 export music industry, Útón, came to see Amb. @BEllertsdottir and her team after an important engagement at @nivassoc this week, where Icelandic music was given a fantastic platform. 🙌🙏 pic.twitter.com/R0mZYTM7wX
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) July 13, 2023
Anna Pála Sverrisdóttir, starfsmaður Fastanefndar Íslands gagnvart Sameinuðu Þjóðunum, tók þátt í hliðarviðburði við HLPF fundinn sem fer fram í New York um þessar mundir, þar sem fjallað var um jafnrétti innan orkugeirans. Ísland lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja jafna þátttöku kynjanna í orkugeiranum.
⚡️Gender data ⚡️ helps to understand the #gendergap within the energy sector.
— Iceland at UN 🇮🇸 (@IcelandUN) July 11, 2023
Closing the gap will help not only to reach #SDG5 on #genderequality ✊🏻✊🏿but also #SDG7 on #SEforAll, said #Iceland🇮🇸 at #HLPF side event today.#HLPF2023 #GenderEnergy pic.twitter.com/eEQfsDkYbF
Það verður þá ekki fleira að sinni. Við vonum að lesendur njóti helgarinnar og sumarfrísins og biðjum ykkur vel að lifa.
Upplýsingadeildin.