Hoppa yfir valmynd
19. mars 2021

Vonir bundnar við samræmt vottorðakerfi vegna Covid-19

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst: 

Tillaga að samræmdu vottorðakerfi vegna Covid-19

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti 17. mars sl. tillögu að samræmdu vottorðakerfi vegna Covid-19. Tilgangurinn er ekki síst að greiða fyrir frjálsri för milli landa. Gert er ráð fyrir að reglurnar gildi um Ísland, Noreg, Liechtenstein og Sviss. Þessum ríkjum gefist  þannig kostur á að eiga aðild að nýju vottorðakerfi sem feli í sér rétt til útgáfu samræmdra vottorða og skyldu til viðurkenningar vottorða frá öðrum. Um er að ræða tillögu að bindandi reglugerð sem fer í hefðbundið lagasetningarferli hjá ráðherraráðinu og Evrópuþinginu en vonir standa til að reglurnar taki gildi áður en ferðamannasumarið hefst fyrir alvöru, þ.e. ekki síðar en í júnílok.

Þessarar tillögu hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu frá því að leiðtogar ESB-ríkjanna gáfu út yfirlýsingu um það í lok febrúar að stefnt skyldi að aukinni samræmingu í vottorðamálum til að stuðla að frjálsri för milli landa. Fram kemur að ósamræmið, sem hafi ríkt, hafi leitt til vandkvæða fyrir ferðamenn sem fái vottorð sín ekki viðurkennd auk þess sem dæmi séu um að fölsuðum gögnum sé framvísað og er vitnað til nýlegrar viðvörunar Europol í því sambandi.

Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar sem einnig var birt 17. mars eru aðildarríkin hvött til að taka samræmda afstöðu til enduropnunar landamæra. Hvert skref á þeirri vegferð verði skilvirkara og trúverðugra ef það er hluti af samevrópskri nálgun. Reynslan sýni að takmarkanir á einum stað í álfunni hafi áhrif á alla. Sama muni væntanlega eiga við þegar kemur að því að aflétta hömlum. Þess vegna sé sameiginleg nálgun nauðsynleg.

Nánar um tillögu um sameiginlegt vottorðakerfi

Í tillögunni um þetta nýja „grænkort“ er þess gætt að hún verði ekki túlkuð sem forréttindi fyrir þá sem hafa fengið bólusetningu. Þannig mun nýja kerfið ná yfir fleiri vottorð en bólusetningarvottorð og því geta nýst fleirum til ferðalaga. Í grunninn er miðað við bólusetningu með bóluefnum sem hlotið hafa blessun á Evrópuvísu en þó er ekki loku fyrir það skotið að vottorð megi gefa út í nýja kerfinu fyrir önnur bóluefni sem einstaka aðildarríki viðurkenna.

Vottorð í því nýja kerfi sem komið verður á laggirnar (Digital Green Certificate eins og það er kallað) verður sönnun þess að einstaklingur hafi verið bólusettur gegn Covid-19, fengið neikvæða niðurstöðu úr prófi (PCR eða viðurkennd hraðpróf) eða náð sér eftir Covid-19 sýkingu.  Aðildarríkjunum ber að gefa vottorðið út einstaklingum að kostnaðarlausu, í rafrænu formi eða á pappír. Það mun innihalda strikamerki (QR-kóða) til að tryggja öryggi og sannleiksgildi vottorðs. Framkvæmdastjórnin mun koma á fót kerfi til að tryggja að hægt verði að sannreyna vottorð hvar sem er innan svæðisins og veita tæknilegan stuðning. Áfram verður á forræði aðildarríkja að ákveða hvaða sóttvarnarráðstafanir megi fella niður fyrir ferðamenn en taka verður vottorðin gild sem sönnun þess að skilyrði séu til staðar.

Staðan gagnvart 3. ríkjum

Fram kemur í tillögunni að nýju reglugerðinni um samræmdu vottorðin sé ekki ætlað að hafa áhrif á Schengen-reglur um það hverjir mega koma inn á svæðið frá 3ju ríkjum. Þar gilda enn tilmæli um bann við ónauðsynlegum ferðum (með örfáum undantekningum fyrir ríki þar sem staða faraldurs hefur verið metin þannig að slíkt sé óhætt). Ekki er í þeim tilmælum gert ráð fyrir að vottorð um bólusetningu eða bata af fyrri sýkingu heimili undanþágu. 

Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar kemur fram að mikilvægur þáttur í enduropnun sé að leyfa örugg ferðalög frá 3ju ríkjum. Ráðherraráðið er hvatt til að fylgjast vel með þróun mála í ríkjum utan ESB, sérsaklega þar sem tekist hefur að ná faraldrinum verulega niður yfir lengra tímabil til dæmis með hjálp bóluefna sem sannreynt hefur verið að virki. Mikilvægur þáttur sé einnig útbreiðsla nýrra afbrigða sem valda áhyggjum. Til að byrja með muni framkvæmdastjórnin fylgjast með framkvæmd fyrrgreindra gildandi tilmæla og leggja til breytingar eftir því sem tilefni er til.  Það gæti, að sögn, falið í sér aðlögun tilmælanna að nýja vottorðakerfinu eða aðgerðir á vettvangi WHO og Alþjóða flugmálasamtakanna sem muni þegar fram líða stundir geta auðveldað afléttingu takmarkana gagnvart ferðalöngum frá þriðju ríkjum sem geti sýnt vottorð um tilheyrandi Covid-19 stöðu sem sé nægilega áreiðanlegt og samræmi við það kerfi sem þá verði komið í notkun í Evrópuríkjum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin þurfi að samþykkja slíka útvíkkun fyrir fram.

Fyrstu viðbrögð

Fyrstu viðbrögð úr ferðageiranum hafa verið jákvæð. Flugmálasamtök í Evrópu hafa þannig hvatt til þess að tillögurnar verði afgreiddar með hraði. En jafnframt þurfi tímasetta áætlun um hvenær einstök skref í átt til opnunar verði stigin. Sjá https://www.iata.org/en/pressroom/pr/2021-03-17-01/

Yfirlýsingar í tilefni af stafrænum degi

Haldið var upp á svokallaðan Stafrænan dag 2021 í dag, 19. mars. Ráðherrar EES-ríkjanna undirrituðu þrjár yfirlýsingar um fjarskiptatengingar, græna stafræna tækni og bætt regluumhverfi fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Skuldbindingar sem þar má finna varða leiðina að grænni og stafrænni umbyltingu næstu árin. Fyrir Íslands hönd undirrituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, yfirlýsingarnar.

Fyrir fundinn voru til umfjöllunar þrjár yfirlýsingar um Gagnatengingar innan Evrópu og við aðrar heimsálfur, þ.e. „Data Gateway“, skilyrði og stuðning við sprotafyrirtæki til að vaxa og dafna, þ.e. „Startup Nations Standard“ og svo græna og stafræna umbreytingu samfélagsins, þ.e. „Green and Digital Transformation“. Fjallað var um yfirlýsingarnar í sérstökum dagskrárlið fyrir hverja um sig. Fram kom að til þess að Evrópa yrði leiðandi á sviði stafrænnar þróunar á heimsvísu þyrfti öflugar fjarskiptatengingar bæði innan Evrópu og við aðrar heimsálfur. Þær væru skilyrði fyrir stórgagnavinnslu, skýjalausnum og vinnslu með ofurtölvu óháð landamærum.

Undir dagskárliðnum um sprotafyrirtæki var fjallað um hvernig mætti styðja betur við þau og vöxt þeirra. Ýmsar Evrópuþjóðir, t.d. Spánverjar, Frakkar og Þjóðverjar hafa stofnað sjóði sem hafa það hlutverk að styðja við stofnun og vöxt sprotafyrirtækja, og hvöttu til samstarfs hugvitsmanna yfir landamæri. Fram kom að mikil gróska er í sprotafyrirtækjum í Evrópu en mörg þeirra nái ekki að vaxa nema helst þau sem færa sig til Norður-Ameríku. Talið er þar veiti kerfið betri stuðning við vöxt slíkra fyrirtækja.

Miklar umræður áttu sér stað um efni yfirlýsingarinnar um „Green and Digital Transformation“  Undir þessum lið tóku til máls bæði ráðherrar ýmissa ríkja Evrópusambandsins og forstjórar fjögurra stórfyrirtækja. Almennt voru ræðumenn sammála því að til þess að ná árangri þyrftu þessir þættir að fara saman. Ekki væri hægt að ná markmiðum um kolefnislaust samfélags án virkrar nýtingu upplýsingatækninnar. Hægt væri að ná fram umtalsverðum orkusparnaði t.d. með virkri stýringu við rekstur bygginga. Þá væru orkunýtnari tölvur og smárásir í sífelldri þróun. Sama gildir um snjallvæðingu í samgöngum og svo framvegis. Þá voru fundarmenn sammála um að traust og gagnsæi  notenda væri forsenda þess að upplýsingatæknin nýttist sem skyldi  í opinberri stjórnsýslu og viðskiptum.

Félagsmálaráðherrar funda í aðdraganda leiðtogafundar í Porto

Ráðherraráð ESB boðaði félags- og vinnumálaráðherra til óformlegs fjarfundar 15. mars sl. til þess að ræða vinnumarkað og félagsmálastefnu ESB. Gerðu löndin grein fyrir stöðu mála og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Einnig var fjallað um aðgerðaáætlun sem kynnt var 4. mars sl. Almenn ánægja var hjá fundarmönnum og stuðningur við framvindu mála.

Ráðherrarnir ræddu um leiðir til að styrkja jafnrétti kynjanna en hallað hefur á stöðu kvenna í faraldrinum. Lögð var áhersla á að samþætta jafnréttisstefnu og aðgerðaáætlunina.

Framkvæmdastjórn ESB upplýsti ráðherrana um nýlega stefnumótun (grænbók) í málefnum aldraðra, en hún er liður í að takast á við lýðfræðilegar áskoranir í Evrópu.

Á fundinum var einnig rætt um að setja upp Evrópuvettvang um málefni heimilislausra þann 21. júní sem miðar að því að auðvelda aðildarríkjum að deila upplýsingum stöðu mála og kynna skilvirk viðbrögð við hinum ýmsu þáttum þessa mikilvæga félagslega viðfangsefnis.

Portúgal sem nú fer með formennsku í ESB leggur höfuðáherslu á félagsleg úrræði og aðgerðir í kjölfar heimsfaraldursins. Á vinnumarkaði er staða unga fólksins í forgrunni ásamt þeim hópum sem standa höllum fæti í samfélaginu og  hafa átt erfitt uppdráttar í atvinnuleysi og með skertum lífskjörum vegna Covid-19.

Ráðherrafundir og aðgerðaáætlun ásamt viðtækri umræðu í ESB og í aðildarríkjum um stöðu mála og aðgerðir eru undanfari endurnýjunar á félagslegu stoðinni (European Pillar of Social Rights) sem fyrirhuguð er á  leiðtogafundi 7.-8. maí í Porto.

Viðsnúningur höktir

Meginumræðuefnið á mars-fundi fjármála- og efnahagsráðherra ESB var staða og horfur í efnahagsmálum aðildarríkjanna. Talsvert hökt hefur verið í viðsnúningnum, meðal annars vegna tafa í bólusetningum gegn Covid-19. Samkvæmt nýjustu spá Seðlabanka Evrópu mun evrópska hagkerfið ekki taka almennilega við sér fyrr en á milli 2. og 3. ársfjórðungs, en meðaltöl um hagvöxt eru svipuð. Þannig er útlit fyrir 3,7% meðalhagvöxt á árinu 2021 og 3,9% árið 2022 í aðildarríkjum ESB.

Reglugerð um Bjargráðasjóðinn (Recovery and Resilience Facility, líka kallaður Next Generation EU; NGEU) hefur nú verið samþykkt og birtist í evrópsku stjórnartíðindunum (OJ) þann 18. mars. Aðildarríkin 27 eru þegar farin að senda framkvæmdastjórninni endurreisnaráætlun sína með formlegum hætti, en lokafrestur til þess er til 30. apríl. Nú þegar hafa sex ríki sent inn sína áætlun, þar á meðal Ítalía, sem fær hlutfallslega mesta aðstoð frá sjóðnum. Þá hefur Belgía sent inn bráðabirgðaáætlun, en belgíska stjórnskipulagið skapar hér miklar flækjur eins og flestum sviðum. Ekkert hefur enn borist frá stóru aðildarríkjunum, Frakklandi og Þýskalandi, enda munu þau bera fremur lítið úr býtum miðað við Suður- og Austur-Evrópuríkin sem fóru mun verr út úr faraldrinum.

Samþykkt fjárlög Bjargráðasjóðsins nema 750 milljörðum evra. Umsóknir um lán eða styrki úr sjóðnum verða að uppfylla tvö meginskilyrði. Annað er að 37% af umbeðnu framlagi verði tengt loftlags- og umhverfismarkmiðum. Hitt er að 20% af framlaginu sé vegna stafrænna fjárfestinga og endurbóta. Hér endurspeglast grunnáherslur ESB, þ.e. græni sáttmálinn og stafræn starfskrá. Ljóst er að framkvæmdastjórnin leggur ofuráherslu á Bjargráðasjóðinn sem tæki til að ýta aðildarríkjum ESB á flot aftur svo það er eins gott að vel takist til alveg frá byrjun.

Rætt var lauslega um nýja tekjuöflun ESB ríkjanna, þ.e. sérstakan kolefnisskatt yfir landamæri (Carbon Border Adjustment Mechanism, (CBAM)) og stafræna skattinn sem OECD er að útfæra. Evrópskur þungaiðnaður (stál, sement o.fl.) beitir sér nú af miklu afli gegn kolefnisskattinum, sem virðist vera að hafa áhrif í Evrópuþinginu ef marka má síðustu fréttir þaðan. Til fróðleiks má einnig nefna að sérlegur loftlagsboðberi Joe Bidens Bandaríkjaforseta, John Kerry, sagði í viðtali við Financial Times nýverið að umrædd skattlagning væri til þrautavara sem lýsir í hnotskurn gagnrýni stóru iðnríkjanna utan ESB á áform ESB á þessu sviði. Kínverjar hafa verið einna harðastir í gagnrýni sinni á þessa skattlagningu og tala um brot á samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Hins vegar gæti eitthvað verið að rofa til hvað varðar stafræna skattinn ef marka má ummæli Jane Yellen seðlabankastjóra Bandaríkjanna á fundi G20 í lok febrúar um vinnu OECD. Þar sagði hún að Bandaríkin myndu taka fullan þátt í vinnu OECD og útkoman þar yrði bindandi fyrir öll bandarísk fyrirtæki. Hún hlaut fyrir það mikið hrós frá Frakklandi og Þýskalandi. Niðurstaða OECD á að liggja fyrir um mitt ár.

Stefnumótun varðandi greiðslukerfi fyrir einstaklinga

Á ráðherrafundi fjármála- og efnahagsráðherra var einnig var fjallað um öruggar greiðslur eða millifærslur einstaklinga (Retail Payment Strategy) á fjármálamarkaði á grundvelli nýútgefinnar stefnu framkvæmdastjórnar ESB á þessu sviði. Hér er ekki hvað síst verið að horfa á öryggi neytenda í ljósi ört vaxandi stafrænnar þróunar á fjármálamarkaði (FinTech; fjártækni). Stefnt er að því að einstaklingar geti framkvæmt greiðslur yfir landamæri jafn auðveldlega og í eigin landi og án viðbótarkostnaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta