Hoppa yfir valmynd
19. mars 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 113/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 113/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20020043 og KNU20020044

 

Beiðni […], […] og barns þeirra um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 12. desember 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar dags. 2. september 2019, um að synja einstaklingum er kveðast heita […], vera fædd […], og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir K), […], er kveðst vera fæddur […] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir M), og barni þeirra, […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 16. desember 2019. Þann 23. desember 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 18/2020, dags. 8. janúar 2020, var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 18. febrúar 2020 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku ásamt fylgiskjali.

Beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem telja að ákvarðanir í málum þeirra hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Í 2. mgr. 74. laga um útlendinga kemur m.a. fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum frekari skilyrðum hafi hann sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi. Í endurupptökubeiðni kærenda kemur fram að framangreint tímamark hafi verið stytt úr 18 mánuðum og niður í 16 mánuði í tilvikum barnafjölskyldna og á grundvelli jafnræðisreglu eigi framangreindar breytingar við um mál kærenda. Þá er jafnframt að finna umfjöllun um ákvæðið og bent á að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 80/2016 segi um ákvæðið að taka megi sérstakt tillit til barna þegar 74. gr. laganna sé beitt.

Í endurupptökubeiðni kærenda kemur fram að sú túlkun að líta svo á að framangreindum fresti ljúki þegar kærunefnd útlendingamála hefur kveðið upp úrskurð og staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun umsóknar, geti eðli málsins samkvæmt ekki átt rétt á sér þegar endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd dregst úr hófi fram. Eðlilegra sé að miða tímamarkið við dvöl í landinu, þ.e. fram að þeim tíma sem endursending hefur átt sér stað. Að öðrum kosti sé hætt við að umsækjendur um alþjóðlega vernd festi hér rætur og aðlagist íslensku samfélagi en séu eftir sem áður sendir úr landi síðar án þess að þeim verði sjálfum um kennt. Í málum kærenda séu 19 mánuðir liðnir síðan að fjölskyldan sótti um alþjóðlega vernd hér á landi og ríflega tveir mánuðir síðan að úrskurður kærunefndar útlendingamála hafi verið kveðinn upp. Á þessum tíma hafi fjölskyldan skotið rótum hér á landi og aðlagast íslensku samfélagi. Auk þess hafi barn kærenda aldrei komið til Nígeríu. Þá beri fjölskyldan ekki ábyrgð á því að endursending hafi ekki átt sér stað.

Máli sínu til stuðnings vísa kærendur til úrskurðar kærunefndar nr. 580/2017 þar sem nefndin taldi að skýra bæri málsmeðferðartíma samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að miðað sé við dvöl í landinu. Telja kærendur að vilji löggjafans sé sá hinn sami hvað varðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Nú séu liðnir meira en 19 mánuðir síðan fjölskyldan hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi og hinn 18 mánaða frestur samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því liðinn. Kærendur telja þá ljóst af gögnum málsins, fyrri ákvörðunum og úrskurðum að þau og barn þeirra uppfylli önnur skilyrði samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.

Kærendur telja að reglugerð nr. 122/2020 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, um að stytta málsmeðferðartíma í málum barnafjölskyldna, eigi við um mál þeirra. Líta verði á þau stjórnvöld sem komi að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem heildstætt kerfi sem beri sameiginlega ábyrgð á málsmeðferðartíma. Ætti því að miða við þann tíma sem líði frá því að umsókn um alþjóðlega vernd sé lögð fram og þar til brottvísun sé framkvæmd. Í því samhengi vísa kærendur til álits umboðsmanns Alþingis nr. 9722/2018 máli sínu til stuðnings. Ljóst sé að mati kærenda að málsmeðferð hafi tekið meira en 16 mánuði og falli mál þeirra því í öllu falli undir nýja reglugerð og því heimilt að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli hennar.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar máli kærenda dags. 12.desember 2019 var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á því að aðstæður hafi breyst frá því að kærunefnd úrskurðaði í málum þeirra og vísa þau til þess í beiðni sinni að ákveðin þróun hafi orðið í málaflokki umsækjenda um alþjóðlega vernd og til þess að dómsmálaráðherra hafi boðað breytingar varðandi lengd málsmeðferðartíma á afgreiðslu stjórnvalda á kröfum umsækjenda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá beri kærendur enga ábyrgð á því að þau hafi ekki enn verið flutt úr landi og af þeim sökum hafi þau nú verið hér á landi í um 19 mánuði.

Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við frumvarp til laga kemur fram að: „[þ]essi grein kveður á um heimild til að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða. Er hér um að ræða endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum.“ Vegna þessarar málsástæðu tekur kærunefnd fram að af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiðir að ákvarðanir stjórnvalda verða að styðjast við heimild í lögum. Liti kærunefnd til þess tíma sem líður frá því að úrskurður er birtur og þar til útlendingur fer úr landi eða er fluttur úr landi væri nefndin að taka sér löggjafarvald, en ekki túlka lög til samræmis við orðalag eða markmið þeirra. Í þessu sambandi bendir kærunefnd á að túlkun nefndarinnar á lokadegi frests skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga byggir á því að ekki sé skýrt við hvaða tímamark eigi að miða enda er orðalag ákvæðisins annað og réttaráhrif þess að frestur líður tengist aðeins málsmeðferðarlegum réttindum. Af þeim sökum hafi verið rétt að túlka vafa umsækjenda í hag og í samræmi við markmið laga, og miða við dagsetningu farar úr landi. Eins og kærendur benda á hefur umboðsmaður Alþingis tekið undir túlkun nefndarinnar á 2. mgr. 36. gr.

Þann 17. febrúar setti dómsmálaráðherra reglugerð nr. 122/2020 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram „[þ]rátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita barni, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum.“

K lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. júlí 2018 en M sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. ágúst 2018. Úrskurður kærunefndar í málum kærenda og barns þeirra var birtur fyrir kærendum þann 16. desember 2019. Í tilviki K var málsmeðferðartími hjá stjórnvöldum 17 mánuðir og 2 dagar en í tilviki M var málsmeðferðartíminn 15 mánuðir og 20 dagar. Var málum kærenda því lokið á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Barn kærenda, A, fæddist hér á landi þann 15. nóvember 2018 og lítur kærunefnd svo á að það hafi fengið stöðu aðila máls þá þegar, þ.e. við fæðingu. Með tilliti til þess var málsmeðferðartími stjórnvalda í máli A því einungis 13 mánuðir og 2 dagar. Af því leiðir að ljóst er að barn kærenda uppfyllir ekki skilyrði ofangreindrar reglugerðar til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefnd telur því að reglugerð nr. 122/2020 leiði ekki til þess að aðstæður kærenda og barns þeirra teljist hafa breyst verulega í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærunefnd að ekkert bendi til þess að önnur þróun í málaflokknum leiði til þess að heimilt sé að endurupptaka mál kærenda og barns þeirra.

Samantekt

Að framangreindu virtu ert það því mat kærunefndar að atvik í máli kærenda og barns þeirra hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kærenda og barns þeirra hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málsins. 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellants to re-examine the cases is denied.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta