Mál nr. 6/2014
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Lögreglustjóranum á B
Kærandi, sem er kona, taldi að brotin hefðu verið ákvæði laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með tímabundinni setningu tveggja karla í stöður varðstjóra við lögregluembætti á landsbyggðinni en þau höfðu öll starfað um árabil hjá embættinu. Kærði lagði til grundvallar mati á hæfni umsækjenda mat á umfangi frumkvæðiseftirlits þeirra í starfi, niðurstöður úr spurningalista og niðurstöður þekkingarprófs, ásamt umsögn um skýrsluskil. Taldi kærunefndin að við þær aðstæður er uppi voru hefði sú aðferð að nota fjölda lögregluskýrslna í málakerfi sem viðmið um hæfni umsækjenda ekki verið ásættanlegur mælikvarði og að vandséð væri hvernig þekkingarpróf það sem lagt var fyrir umsækjendur gat þjónað þeim tilgangi að vera hlutlægur og sanngjarn mælikvarði á hæfni umsækjenda. Taldi nefndin að með hinni tímabundnu setningu í stöðurnar hefðu verið brotin ákvæði laga nr. 10/2008.
-
Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 28. apríl 2015 er tekið fyrir mál nr. 6/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
-
Með kæru, dagsettri 28. nóvember 2014, kærði A ákvörðun sýslumannsins í C um að skipa tvo karlmenn í stöðu varðstjóra við embættið.
-
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt sýslumanninum í C með bréfi, dagsettu 3. desember 2014. Greinargerð embættisins barst með bréfi, dagsettu 16. desember 2014, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 5. janúar 2015. Þann 1. janúar 2015 tók nýtt embætti kærða við réttindum og skyldum embættis sýslumannsins í C, sbr. 3. gr. laga nr. 51/2014 um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða, II.
-
Með bréfi kærunefndar, dagsettu 18. febrúar 2015, var óskað eftir frekari gögnum frá kærða og bárust þau, ásamt athugasemdum, með bréfi, dagsettu 24. febrúar 2015. Athugasemdir kærða voru kynntar kæranda með tölvubréfi 16. mars 2015 og bárust frekari athugasemdir frá kæranda með tölvubréfi 18. mars 2015. Athugasemdir kæranda voru kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 24. mars 2015, og með sama bréfi óskaði kærunefndin einnig eftir frekari gögnum frá kærða. Þá sendi kærandi kærunefndinni frekari gögn með bréfi, dagsettu 29. mars 2015. Umbeðnar upplýsingar bárust með bréfi kærða, dagsettu 13. apríl 2015, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 14. apríl 2015.
-
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
MÁLAVEXTIR
-
Stöður tveggja varðstjóra við embætti lögreglustjórans í D og E voru auglýstar lausar til umsóknar þann 4. mars 2014. Umsóknarfrestur var til 22. mars 2014 og skyldi sett í stöðurnar til reynslu í sex mánuði frá og með 15. apríl 2014 með skipun í huga að reynslutíma loknum. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar hæfniskröfur: Próf frá Lögregluskóla ríkisins, tveggja ára starfsreynsla sem lögreglumaður, skipulagshæfni, sjálfstæði, sveigjanleiki og vandvirkni í vinnubrögðum. Frumkvæði í starfi og færni í samskiptum voru taldir mikilvægir eiginleikar og góð tölvukunnátta áskilin. Talið var æskilegt að viðkomandi hefði nokkra reynslu af rannsókn sakamála og haldgóða þekkingu á því sviði.
-
Á þessum tíma mælti 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fyrir um að ríkislögreglustjóri skipaði í störf lögreglumanna. Með 7. gr. laga nr. 51/2014, er tóku gildi 27. maí 2014, var ákvæðinu breytt í þá veru að lögreglustjóri skipi lögreglumenn að fenginni umsögn hæfnisnefndar, sbr. f. lið 2. mgr. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um að ríkislögreglustjóri starfræki hæfnisnefnd sem veiti lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfni umsækjenda við skipun í störf lögreglumanna.
-
Alls bárust þrjár umsóknir um stöðurnar. Allir umsækjendur uppfylltu öll tilskilin hæfisskilyrði samkvæmt auglýsingu, þeir voru boðaðir í viðtal hjá sýslumanninnum í B þann 14. apríl 2014 og svo aftur þann 25. apríl s.á. Í síðara viðtalinu voru umsækjendum kynntar niðurstöður úr fyrra viðtali og prófi er fyrir þá hafði verið lagt í viðtalinu, einnig var þeim kynnt úttekt á frumkvæðisvinnu og skýrslugerð úr málaskrárkerfi. Var kæranda í síðara viðtalinu gefinn kostur á andmælum. Kærandi nýtti sér það og ritaði andmælabréf til embættisins, dags. 28. apríl 2014. Sýslumaðurinn í C og yfirlögregluþjónn embættisins rituðu umsögn um umsækjendur þann 29. apríl 2014 og kemur fram í gögnum málsins að þar sem veitingarvaldið hafi verið hjá ríkislögreglustjóra á þeim tíma er stöðurnar hafi verið auglýstar, hafi embættið sent umsögnina til ríkislögreglustjóra með bréfi sama dag. Í umsögninni er þess getið að kærandi hafi óskað eftir því að andmælabréfið yrði ekki sent með umsögninni en í henni er þó greint frá innihaldi andmælabréfsins. Kærandi hefur mótmælt því að hafa gefið umrædd fyrirmæli.
-
Í niðurstöðu umsagnar sýslumannsembættisins kom fram að kærandi væri ekki metin jafnhæf hinum umsækjendunum til að sinna stöðu varðstjóra. Mælt var með hinum tveimur umsækjendunum, sem báðir eru karlmenn. Með bréfi ríkislögreglustjóra, dagsettu 12. maí 2014, var umsækjendum gefinn kostur á að kynna sér umsögnina og koma að andmælum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dagsettu 19. maí 2014, kom kærandi á framfæri andmælum sínum. Með bréfi ríkislögreglustjóra, dagsettu 2. júní 2014, eftir að lög nr. 51/2014 höfðu tekið gildi, voru gögn varðandi ráðningarnar sendar frá embættinu til lögreglustjórans í C til meðferðar. Tekin var ákvörðun um að setja karlmennina tvo í stöðurnar frá 1. júní 2014 og var kærandi upplýst um það með bréfi, dagsettu 26. júní 2014. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir setningunni og barst rökstuðningur sýslumannsins í C með bréfi, dagsettu 17. júlí 2014.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
-
Kærandi greinir frá því að í auglýsingu um stöðu varðstjóra hjá kærða hafi konur verið sérstaklega hvattar til þess að sækja um. Hún hafi verið í afleysingum í annarri stöðunni og hafi starfað í lögreglunni í rúm 22 ár. Sá sem hafi verið ráðinn sé með níu ára starfsaldur en þau hafi öll þrjú verið starfandi hjá kærða. Kærandi bendir á að lagt hafi verið fyrir þau þekkingarpróf og skýrslufjöldi í málaskrárkerfi reiknaður en það hafi ekki verið gert við fyrri stöðuveitingar.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
-
Í greinargerð sýslumannsins í C kemur fram að ekkert í ráðningarferlinu bendi til annars en að reynt hafi verið, eftir bestu vitund, að gæta jafnréttis og sanngirni á allan hátt í mati á umsækjendum. Að mati embættisins hafi þeir hæfustu verið ráðnir í stöðurnar og því eindregið mótmælt að ekki hafi verið farið að jafnréttislögum við ráðninguna. Við mat á hæfni umsækjenda hafi verið lögð mikil áhersla á þá þætti sem tilgreindir voru í auglýsingu um starfið og reynt eftir bestu getu að mæla og meta þá eiginleika hjá umsækjendum.
-
Embættið tekur fram að í ráðningarferlinu hafi það fengið ráðleggingar og meðal annars stuðst við reglur ríkislögreglustjóra nr. 5/2012, um skipun/setningu í embætti lögreglufulltrúa, aðalvarðstjóra, rannsóknarlögreglumanns, varðstjóra og lögreglumanns, og handbók um ráðningar hjá ríkinu.
-
Í athugasemdum kærða kemur fram að gætt hafi verið fulls jafnræðis á milli umsækjenda í öllu ráðningarferlinu. Enginn umsækjenda hafi fengið að vita fyrirfram um neinar spurningar, hvorki þær munnlegu né skriflegu, og allir hafi setið við sama borð á öllum stigum málsins. Bent er á að hugmyndir að þeim prófum og spurningum sem hafi verið lagðar jafnt fyrir alla umsækjendur hafi komið frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Við undirbúning viðtala hafi verið haft samband við aðila hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra til að fá hugmyndir og upplýsingar um hvernig staðið væri að samskonar viðtölum við ráðningar í stöður hjá þeim.
-
Kærði tekur fram að sú fullyrðing kæranda, að rætt hafi verið við hana í desember 2013 um að setja einhvern umsækjanda í þekkingarpróf, sé ekki rétt. Ekkert slíkt hafi átt sér stað enda hafi hugmyndin um þekkingarpróf ekki komið fram fyrr en í viðræðum við aðila hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra í mars og apríl 2014.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA
-
Kærandi tekur fram að hún hafi fengið þær upplýsingar í október 2014 að rætt hefði verið við Landssamband lögreglumanna þegar það hafi verið ákveðið að ráða í stöðuna. Hún hafi rætt við formann landssambandsins og hann tjáð henni að það hefði enginn haft samband við hann vegna ráðningar í stöðuna. Kærandi telur rétt að fá það staðfest við hvern hafi verið rætt. Kærandi gerir athugasemd við að þekkingarpróf hafi verið lagt fyrir umsækjendur en það hafi aldrei verið gert áður.
-
Kærandi bendir á að hún hafi séð um fíkniefnahunda frá árinu 2005, samhliða vöktum. Þau tímabil sem hafi verið tekin vegna skýrslufjölda hafi hún verið meira og minna ein á vakt með hundinn og sinnt útköllum. Annar þeirra sem ráðinn var hafi verið með öðrum á vakt og því hafi hann getað farið mikið einn út að radarmæla. Að mati kæranda eru aðstæður þeirra ekki samanburðarhæfar. Kærandi telur sig mjög hæfa til að sinna stöðunni og að gróflega hafi verið brotið á henni með ráðningunni.
NIÐURSTAÐA
-
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
-
Í auglýsingu um stöður varðstjóra hjá kærða kom fram að skipulagshæfni, sjálfstæði, sveigjanleiki og vandvirkni í vinnubrögðum auk frumkvæðis í starfi og færni í samskiptum væru mikilvægir eiginleikar. Áskilin var góð tölvukunnátta og að æskilegt væri að umsækjandi hefði nokkra reynslu af rannsóknum sakamála.
-
Er kærandi sótti um stöðu varðstjóra hafði hún 22 ára starfsaldur innan lögreglunnar. Annar þeirra er skipaðir voru hafði 15 ára starfsaldur eftir lok náms við lögregluskólann en 20 ára starfsaldur að meðtöldum starfstíma fyrir námslok. Hinn karlinn er skipaður var hafði níu ára starfsaldur eftir lok náms við skólann auk tveggja ára starfsaldurs við afleysingar. Kærandi hafði því lengri starfsaldur en báðir karlarnir. Öll voru þau starfsmenn kærða.
-
Í auglýsingu um stöður varðstjóra kom fram að þær yrðu veittar frá 15. apríl 2014. Umsækjendurnir þrír voru boðaðir til tveggja viðtala við sýslumanninn í C og yfirlögregluþjón embættisins, sem þó fóru ekki fram fyrr en 14. og 25. apríl það ár. Embættið sendi ríkislögreglustjóra umsóknirnar til meðferðar ásamt umsögn embættisins. Ríkislögreglustjóri skipaði þó ekki í stöðurnar áður en lög nr. 51/2014 um breytingu á 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 tóku gildi heldur framsendi þann 2. júní s.á. umsóknargögnin til kærða sem þá hafði tekið við veitingarvaldinu. Þrátt fyrir fyrirmæli laganna eins og þeim hafði verið breytt með 7. gr. laga nr. 51/2014, sem meðal annars mælti fyrir um skipun að fenginni umsögn hæfnisnefndar er starfar samkvæmt f-lið 2. mgr. 5. gr. laganna, skipaði kærði í stöðuna eingöngu á grundvelli þeirra gagna er aflað hafði verið fyrir gildistöku laganna.
-
Í umsögn kærða var lagt mat á umsækjendur að því er virðist með hliðsjón af störfum þeirra fyrir kærða. Fjallað er um hvaða þætti þau höfðu haft með höndum í starfinu, gerð grein fyrir frumkvæðisvinnu, aðallega í ökuhraðamálum, og tiltekið hvernig var háttað skilum skýrslna af þeirra hálfu. Þá var gerð grein fyrir niðurstöðum 10 spurninga er höfðu verið lagðar fyrir umsækjendur í viðtali og vörðuðu mestmegnis sjálfsmat á hæfni umsækjendanna, en auk þess var gerð grein fyrir niðurstöðum þekkingarprófs er lagt hafði verið fyrir þá.
-
Af hálfu kærða lágu ekki fyrir skilgreind viðmið um hvort eða hvernig einstakir þættir lögreglustarfsins hefðu tiltekið vægi við mat á hæfni umsækjenda. Er heldur ekki tekin nein afstaða til þessara þátta í umsögninni. Þá liggur ekkert fyrir um að embættið hafi lagt mat á frammistöðu starfsmanna með reglulegum starfsmannaviðtölum eða öðrum skipulegum hætti.
-
Um frumkvæðisvinnu umsækjenda er upplýst að slík vinna skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða vinnu sem fellur undir sérstakt eftirlit sem skipulagt er af ríkislögreglustjóra í samvinnu við Vegagerðina og lögregluembætti á tímabilinu byrjun júní og fram til september ár hvert. Hins vegar er um að ræða hraðamælingar sem lögreglumenn stunda ásamt öðru eftirliti á öðrum tímum árs. Upplýst var af kærða að vegna ráðningar í stöður varðstjóra hafi verið til skoðunar tímabilið 1. ágúst 2013 til 1. mars 2014 og jafnframt að kærandi hafi verið í veikindaleyfi á tímabilinu 3. febrúar til 1. mars 2014. Þá liggur fyrir að kærandi og karlmennirnir tveir er ráðnir voru hafi á umræddu tímabili verið hvert á sinni vaktinni, kærandi og annar þeirra er ráðinn var hafi að jafnaði verið ein á vakt, en sá þriðji hafi verið á vakt með öðrum. Loks liggur fyrir að kærandi hafði með höndum verkefni við umsjón fíkniefnahunds og kallaði það á starfskrafta hennar innan vinnutímans.
-
Kærunefndin fellst á með kærða að mat á frammistöðu í starfi geti vissulega verið hlutlægur mælikvarði sem veitingarvaldshafa sé unnt að nota við umsögn á hæfni til starfa innan lögreglunnar. Til að slíkt sé unnt þurfa að vera fyrir hendi gögn sem aflað er með hlutlægum og málefnalegum hætti. Kærði hefur ekki fært fram neinar upplýsingar um að mat hafi verið lagt á frammistöðu starfsmanna embættisins áður en unnið var úr umsóknum vegna þeirra starfa er málið varðar en eins og fram er komið höfðu umsækjendurnir þrír langa starfsreynslu hjá embættinu. Við þær aðstæður að embættið kaus að leggja slíkt mat á umsækjendur, eingöngu vegna umsókna þeirra, bar að gæta þess sérstaklega að viðhafa aðferðir er samrýmast lögum en áður en ákvörðun um skipun í stöðurnar var tekin höfðu eins og áður er getið tekið gildi ákvæði 7. gr. laga nr. 51/2014 um hæfnisnefnd.
-
Kærunefnd telur að það að nota fjölda lögregluskýrslna í málakerfi sem viðmið um hæfni umsækjenda við þær aðstæður sem lýst er að framan geti vart talist ásættanlegur mælikvarði, sérstaklega þegar haft er í huga að kærandi hafði með höndum sérstakt verkefni vegna fíkniefnahunds sem í engu er tekið tillit til þegar horft er á þennan hátt til fjölda lögregluskýrslna. Þá er vandséð hvernig þekkingarpróf það sem lagt var fyrir umsækjendur gat þjónað þeim tilgangi að vera hlutlægur og sanngjarn mælikvarði á hæfni umsækjenda. Telur kærunefnd að kærði hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði umsækjenda hafi ráðið niðurstöðu umsagnar um umsækjendur en kærandi hafði lengstan starfsaldur umsækjenda eins og áður greinir.
-
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við setningu í stöðu tveggja varðstjóra við embætti sýslumannsins í C í sex mánuði frá 1. júní 2014.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Sýslumaðurinn í C braut gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við setningu í stöðu tveggja varðstjóra við embættið í sex mánuði frá 1. júní 2014.
Erla S. Árnadóttir
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir