Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 15/2023

Miðvikudaginn 26. apríl 2023

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 8. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 30. nóvember 2022 á umsókn um styrk til kaupa á salernislausn í hjólastól.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. október 2022, var sótt um styrk til kaupa á salernislausn í hjólastól. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað. Í bréfinu segir að ástæða synjunar sé sú að nú þegar hafi verið samþykkt leyfilegt magn hjálpartækja. Kærandi sé þegar með samþykkta salernislausn og því ekki unnt að samþykkja hjálpartæki sem nota eigi á ferðinni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. janúar 2023. Með bréfi, dags. 9. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 2. febrúar 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. febrúar 2023. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála snúi synjun Sjúkratrygginga Íslands við.

Í kæru greinir kærandi frá því að vegna fötlunar sinnar […]hafi hann alltaf átt mjög erfitt með að fara á salernið. Þess vegna sé hann með samþykkt lyftusalerni frá Sjúkratryggingum Íslands heima hjá sér sem hafi gert honum kleift að fara á salernið með auðveldari hætti. Eins og aðrir fari kærandi ekki einungis á salernið heima sér. Hann sé í fullri vinnu, heimsæki fjölskyldu og vini og ferðist eins og hver önnur manneskja. Þegar hann þurfi að fara á salernið annars staðar en heima hjá sér þurfi hann mun meiri aðstoð því að hann hafi ekki lyftuklósettið með mér. Nú þegar kærandi sé farinn að eldast sé sífellt erfiðara að fara á venjulegt salerni og hafi hann því farið að huga að lausn sem sé bæði hentug, fyrirferðarlítil og þægileg. Honum hafi því dottið í hug að útbúa ferðaklósett sem hann gæti sett á rafmagnshjólastólinn sinn. Í því fælist að sessan, sem sé fest með frönskum rennilás, yrði tekin úr og ferðaklósett sem væri búið að útbúa sessu utan um yrði sett í staðinn. Hann gæti því setið í hjólastólnum sínum og gert þarfir sínar án þess að þurfa að lyfta sér á venjulegt salerni með tilheyrandi óþægindum og veseni. Þessi hugmynd hafi verið útfærð með aðstoð B iðjuþjálfa og geti C komið henni í framkvæmd.

Þá er tekið fram að það að fara á salernið sé ein af grunnþörfum mannfólksins og það að ríkisstofnun sé að segja kæranda að hann geti bara gert þarfir sínar heima hjá sér og hvergi annars staðar sé sárt að heyra og skerði verulega frelsi hans til að lifa sjálfstæðu lífi. Einnig telji hann þessa neitun Sjúkratrygginga Íslands brjóta á samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem taki á banni við mismunun, að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar, virðingu fyrir því sjónarmiði að fatlað fólk sé ólíkt og viðurkennt í þeim skilningi að um mannlega fjölbreytni og mannlegt eðli sé að ræða, jöfn tækifæri og aðgengi.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun, dags. 30. nóvember 2022, hafi umsókn kæranda um salernislausn í hjólastól verið synjað á þeim grundvelli að kærandi væri þegar með leyfilegt magn hjálpartækja og því væri frekari greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands synjað. Í niðurlagi bréfs hafi komið fram frekari rökstuðningur fyrir synjun:

„Vinsamlegast athugið að viðkomandi er þegar með samþykkta salernislausn og því ekki unnt að samþykkja hjálpartæki sem nota á á ferðinni.“

Þessi ákvörðun sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Tekið er fram að ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar gildi um hjálpartæki. Ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna kveði á um að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setji.

Í 2. mgr. 26. gr. sé hjálpartæki í skilningi laganna skilgreint sem tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig komi fram að hjálpartækið verði að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Sjúkratryggingum Íslands sé falið að gera einstaklingsbundið mat vegna hverrar umsóknar og taka ákvörðun á grundvelli gildandi laga og reglugerða. Farið hafi verið yfir umsókn kæranda á sínum tíma og framkvæmt einstaklingsbundið mat vegna hennar.

Sjúkratryggingum Íslands hafi borist umsókn frá kæranda þar sem sótt hafi verið um salernisbúnað sem samsettur væri af salernisupphækkun með bekkeni með burðargrind í kring til að festa líkt og sessu á hjólastól. Um sé að ræða 15 cm salernisupphækkun, bidet bekken og grind smíðaða utan um salernisupphækkun og bekken til þess að útbúa salernissessu á Baldertech rafmagnshjólastól. Fyrir sé kærandi með samþykkt lyftusalerni á heimili sínu.

Í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um í hvaða tilvikum Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að samþykkja tvö hjálpartæki af sömu gerð og þar með veita undanþágu frá meginreglunni um eitt hjálpartæki á hvern einstakling. Það sé í tilvikum þar sem mikið fötluð börn og unglingar þurfi að öðrum kosti að vera án hjálpartækja sinna daglangt vegna skólagöngu (leikskóla og grunnskóla) eða dvalar á þjálfunar- og dagvistunarstofnunum. Í þeim tilvikum skuli annað hjálpartækið vera til notkunar á heimili og hitt í skóla eða á stofnun. Í 4. mgr. 3 gr. reglugerðarinnar komi síðan fram að Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til barna sem eigi fasta búsetu á tveimur stöðum, heimildin nái til hjálpartækja við salernisferðir, sjúkrarúma, dýna og stuðningsbúnaðar. Undanþáguheimild í 3. gr. reglugerðarinnar eigi ekki við í tilviki kæranda.

Við mat á umsóknum hafa Sjúkratryggingar Íslands horft til fyrri úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála hvað varði túlkun á 3. mgr. 3. gr., sbr. mál nr. 107/2017, þar sem fram komi að nefndin telji að af 3. mgr. 3. gr. verði ráðið að meginreglan sé sú að styrkur sé einungis veittur vegna eins hjálpartækis af sömu gerð. Í því máli hafi nefndin talið málefnalegt að í tilvikum þar sem viðkomandi hafi val um inn- og útgönguleiðir séu dyraopnarar eingöngu samþykktir á eina hurð.

Þá segir að kærandi sé fullorðinn og falli því ekki undir undanþáguheimild 3. gr. reglugerðar um hjálpartæki. Þá sé kærandi þegar með samþykkta salernislausn samkvæmt kafla 0912 í fylgiskjali við reglugerð og hafi Sjúkratryggingar Íslands þar af leiðandi þegar samþykkt leyfilegt magn hjálpartækja við salernisferðir.

Með vísan til framangreinds sé það því mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé heimilt að samþykkja salernisbúnað samsettan af salernisupphækkun með bekkeni og burðargrind og beri því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk vegna kaupa á salernislausn í hjólastól.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar hefur hjálpartæki verið skilgreint þannig að um sé að ræða tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig segir að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur er ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivistar og íþrótta).

Fjallað er um skilyrði fyrir veitingu styrkja vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar en þar segir:

„Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til mikið fatlaðra barna og unglinga sem vegna skólagöngu (leikskóla og grunn­skóla) eða dvalar á þjálfunar- og dagvistunarstofnunum yrðu ella að vera án hjálpar­tækja sinna daglangt. Skal þá annað hjálpartækið vera til nota á heimili og hitt í skóla eða á stofnun. Hér er að jafnaði um að ræða sérhannaða stóla, standgrindur og göngu­grindur.“

Þá segir í 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar:

„Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til barna sem eiga fasta búsetu á tveimur stöðum, heimildin nær til hjálpartækja við salernisferðir, baðhjálpartækja, sjúkrarúma, dýna, stuðningsbúnaðar auk sérstakra stóla og vinnustóla fyrir börn.“

Loks segir í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar:

„Enn fremur er ekki veittur styrkur til að kaupa (auka) hjálpartæki til að hafa á heimili aðstandenda ef viðkomandi býr annars staðar eða á heimavist skóla.“

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar eru styrkir eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar. Í fylgiskjali með reglugerð nr. 760/2021 er listi yfir hjálpartæki sem Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að greiða. Hjálpartæki við persónulega aðhlynningu og fatnaður falla undir flokk 09 og í flokki 0912 er að finna lista yfir hjálpartæki við salernisferðir.

Í umsókn um styrk til kaupa á salernislausn í hjólastól, dags. 13. október 2022, útfylltri af B iðjuþjálfa, er rökstuðningur fyrir hjálpartæki eftirfarandi:

„A er með fötlun sem hindrar hann við ýmsa daglega iðju. Hann er með NPA þjónustu gegnum NPA miðstöðin þar sem hann fær aðstoð tengt athöfnum daglegs lífs. Því fylgir meðal annars aðstoð við að fara á salerni og sturtu. Það er A mikilvægt að fá tækifæri á að vera meira sjálfbjarga við að fara á salernið og í sturtu. […] Til viðbótar er óskað eftir salernisbúnaði sem er samansettur af salernisupphækkun með bekkeni með burðargrind í kring til að festa líkt og sessu á hjólastól í samstarfi við C, sjá viðhengi. Ástæðan er sú að A á oft erfitt meðað stóla á að það sé gott rými inn á salernum tengt vinnunni hans, sérstaklega þegar hann þarf að fara í vinnutengdar ferðir en líka innanbæjar þar sem hann er ekki fær um að beygja báðar fætur og því háður mjög góður rými til að athafna sig tengt salernisferðum. Þessi lausn myndi draga úr þeim óþægindum að þurfa að rjúka heim úr vinnu til að komast á salernið, sem hann hefur ítrekað lent í.“

Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að kærandi er þegar með lyftusalerni á heimili sínu. Sú salernislausn í hjólastól, sem nú er sótt um styrk til kaupa á, er ætluð til nota þegar kærandi er utan heimilis. Fram kemur í umsókn kæranda að salernisbúnaðurinn sé samansettur af salernisupphækkun með bekkeni með burðargrind í kring til að festa líkt og sessu á hjólastól. Ástæðan sé sú að kærandi eigi oft erfitt með að fara á salerni tengt vinnu sinni og hafi ítrekað þurft að fara heim úr vinnu til að komast á salernið.

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10222/2019 frá 5. mars 2021 er fjallað um túlkun á skilyrðum 26. gr. laga nr. 112/2008 um hjálpartæki. Í álitinu segir meðal annars svo:

„Stjórnvöld hafa samkvæmt framangreindu svigrúm til mats þegar reynir á hvort skilyrði 26. gr. laga nr. 112/2008 séu uppfyllt með hliðsjón af þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í reglugerð sem ráðherra setur. Af sömu ákvæðum leiðir þó jafnframt að viðkomandi stjórnvöldum er skylt að leggja á það einstaklingsbundið og heildstætt mat hverju sinni hvort skilyrði séu til að fallast á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga til kaupa á hjálpartæki, meðal annars með tilliti til þeirra markmiða sem búa að baki umræddri reglu, sem er meðal annars að veita sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði þeirra og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Í ljósi þeirra skýringa sem úrskurðarnefndin hefur sett fram um viðmið sín við mat á hvort hjálpartæki teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs, þarf hér einnig að gæta að því hvaða heimildir nefndin hefur til að setja sér almenn viðmið sem kunna í reynd að afnema það einstaklingsbundna og heildstæða mat sem nefndinni er skylt að viðhafa við mat á aðstæðum vegna umsóknar um hjálpartæki.

[…]

Ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 eiga það sammerkt með ýmsum ákvæðum laganna að hið eiginlega inntak í réttindum hins sjúkratryggða til aðstoðar í formi hjálpartækis verður ekki fyllilega ráðið af orðalagi ákvæðisins einu og sér. Eins og áður er rakið er almenna skilgreiningu á hjálpartæki að finna í 2. málsl. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008. Með vísan til orðalags ákvæðisins er ljóst að það hefur afgerandi þýðingu um réttinn til að fá styrk til kaupa á hjálpartæki hvort tækið sé til þess fallið að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun og teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Þótt úrskurðarnefndin hafi svigrúm til mats þegar teknar eru ákvarðanir á þessum lagagrundvelli þá verða slíkar ákvarðanir í ljósi orðalags ákvæðisins að vera í samræmi við kröfur ákvæðisins um að stjórnvald meti aðstæður umsækjanda um hjálpartæki með einstaklingsbundnum og heildstæðum hætti hverju sinni áður en það tekur ákvörðun. Að því leyti sem ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 felur í sér slíkt skyldubundið mat getur stjórnvald á borð við úrskurðarnefnd velferðarmála ekki sett skilyrði eða viðmið sem afnema eða þrengja um of það mat sem nauðsynlegt er að fari fram hverju sinni eigi úrræðið að ná tilgangi sínum.

Við túlkun á ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 í þessu sambandi er nauðsynlegt að horfa til þess að eitt markmiða laga nr. 112/2008 er, eins og áður sagði, að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag svo sem nánar er kveðið á um í lögunum og í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra.

Samkvæmt því verður við nánari túlkun á 26. gr. laganna jafnframt að líta til annarra ákvæða þeirra lagabálka sem þarna er vísað til. Eins og endranær þarf við slíka lagatúlkun að beita þeim aðferðum sem eru almennt viðurkenndar og dómstólar hafa mótað hér á landi. Almennt er gengið út frá því við túlkun lagaákvæða að það verði með samræmisskýringu að horfa til annarra efnisreglna í lagabálknum sem þau eru hluti af og eftir atvikum efnisreglna í öðrum lagabálkum. Með öðrum orðum verður að túlka einstök ákvæði á þann veg að þau samrýmist öðrum efnisreglum í lögum sem kunna að hafa þýðingu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður við túlkun á 26. gr. laga nr. 112/2008 að líta til þess að sérstaklega er fjallað um hvað felst í „heilbrigði“ í 1. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, sem vísað er til í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 112/2008. Í fyrrnefnda ákvæðinu kemur fram að meðal markmiða laga um heilbrigðisþjónustu sé að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma „til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“.

Ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 112/2008 ber því með sér að löggjafinn hafi ekki lagt þröngan skilning til grundvallar í þessu sambandi, eins og úrskurðarnefnd velferðarmála hefur lagt áherslu á, heldur þvert á móti sérstaklega tekið afstöðu til þess að tilgangur með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga á nauðsynlegum hjálpartækjum sé að vernda heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi. Þar verður jafnframt að líta til þess að ákvæðið tekur mið af 76. gr. stjórnarskrárinnar, um skyldu löggjafans til að tryggja í lögum öllum sem þess þurfa rétt til aðstoðar vegna meðal annars sjúkleika og örorku og felur í sér lýsingu á grundvallarréttindum sjúkratryggðra sem líta ber til við framkvæmd laga um sjúkratryggingar.

Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum verður því að ganga út frá því að þegar tekin er afstaða til þess hvort hjálpartæki teljist nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs í skilningi 26. gr. laga nr. 112/2008 þá beri að túlka það á þann veg að notkun tækisins nái þeim tilgangi að vernda andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi, og þá í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi.

[…]

Í ljósi þeirrar afstöðu úrskurðarnefndarinnar að jafnframt beri að leggja þröngan skilning í hugtakið daglegt líf í skilningi 26. gr. laga nr. 112/2008 tel ég tilefni til að minna á að á síðustu árum hefur fötluðu fólki verið búin aukin réttarvernd á grundvelli fjölþjóðlegra samninga og í lögum sem meðal annars leggja áherslu á að virðing sé borin fyrir sjálfsákvörðunarrétti þess. Þannig er löggjöf sem snýr að réttindum fatlaðs fólks almennt ætlað að tryggja því jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, sem voru í gildi þegar atvik þessa máls áttu sér stað.

Ef tekið er mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir við framkvæmd laga nr. 59/1992, í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laganna, þá hefur þar verið lögð áhersla á að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi, meðal annars með því að gera því kleift að komast ferða sinna og bæta aðgengi þess, sbr. til dæmis 9. og 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í þessu sambandi hefur verið lögð áhersla á að fötluðu fólki sé þannig veittur stuðningur til að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í ljósi alls framangreinds get ég því ekki fallist á þá þröngu túlkun sem úrskurðarnefnd velferðarmála hefur lagt til grundvallar að þessu leyti.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af lokamálslið 1. mgr., 3. mgr. og 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 760/2021 að meginreglan sé sú að styrkur sé einungis veittur vegna eins hjálpartækis af sömu gerð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur aftur á móti að ekki sé um fortakslaust skilyrði að ræða, þ.e. að ekki verði ráðið af framangreindum ákvæðum að einungis sé heimilt að veita styrk til kaupa á öðru hjálpartæki af sömu gerð í þeim tilvikum sem eru sérstaklega tilgreind í reglugerðinni. Að mati nefndarinnar ber Sjúkratryggingum Íslands að leggja á það einstaklingsbundið og heildstætt mat hverju sinni hvort auka hjálpartæki sé viðkomandi nauðsynlegt í skilningi 26. gr. laga um sjúkratryggingar, sbr. þau sjónarmið sem koma fram í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 10222/2019.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi sé fullorðinn og falli því ekki undir undanþáguheimild 3. gr. reglugerðar um hjálpartæki. Þá sé hann þegar með samþykkta salernislausn samkvæmt kafla 0912 í fylgiskjali við reglugerð og Sjúkratryggingar Íslands hafi þar af leiðandi þegar samþykkt leyfilegt magn hjálpartækja við salernisferðir. Úrskurðarnefndin telur að ráðið verði af framangreindu að Sjúkratryggingar Íslands hafi synjað kæranda um styrk til kaupa á salernislausn í hjólastól þegar af þeirri ástæðu að hann sé með salernislausn á heimili sínu, án þess að leggja í raun einstaklingsbundið og heildstætt mat á hvort kærandi hafi þörf fyrir salernislausn í hjólastól þegar hann er utan heimilis. Úrskurðarnefndin telur því rétt að vísa málinu aftur til stofnunarinnar til mats á því hvort salernislausn í hjólastól sé kæranda nauðsynleg í skilningi 26. gr. laga um sjúkratryggingar með hliðsjón af veikindum hans og aðstæðum.

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk til kaupa á salernislausn í hjólastól er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn A, um styrk til kaupa á salernislausn í hjólastól, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta