Hoppa yfir valmynd
6. september 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kynning nýrra gæðaviðmiða fyrir frístundaheimili

Ný markmið og viðmið í gæði starfs á frístundaheimilum hafa verið kynnt rekstraraðilum frístundaheimila á alls 14 fundum víðs vegar um landið sem haldnir voru á vegum ráðuneytisins, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og fræðsluyfirvalda sveitarfélaga.

Leiðarljós frístundaheimila er að bjóða börnum upp á þátttöku í fjölbreyttu frístunda- og tómstundastarfi með það að markmiði að efla sjálfstraust og félagsfærni þeirra. Lögð er áhersla á að umhverfi starfsins einkennist af öryggi, fagmennsku og virðingu þar sem jákvæð samskipti og lýðræðislegir starfshættir eru í hávegum hafðir í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Megináherslur viðmiðanna má nálgast á veggspjaldi sem einnig hefur verið þýtt á ensku og pólsku. Þau má nálgast á Stjórnarráðsvefnum. Öllum sveitarfélögum sem reka grunnskóla og frístundaheimili fyrir 6-9 ára börn verða sendar upplýsingar um hvar nálgast má efnið.

„Frístundaheimili gegna mikilvægu hlutverki í lífi margra fjölskyldna barna á grunnskólaaldri. Þar fer fram frábært starf og innleiðing gæðaviðmiðanna verður til þess að efla það enn frekar. Þetta eru metnaðarfull viðmið sem veita skýrar leiðbeiningar til allra er tengjast slíku starfi og ég hvet alla áhugasama til þess að kynna sér þau. Mikið og gott samráð hefur átt sér stað í þessari vinnu við sveitarfélögin sem reka frístundaheimilin og aðra helstu hagsmunaaðila starfseminnar. Alls staðar komu fram jákvæð viðhorf við gerð markmiða og viðmiða og rætt um þýðingarmikið skref til að efla faglegt starf frístundaheimila og auka þróunarstarf í heimabyggð,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Menntavísindasvið HÍ vinnur einnig að fræðsluefni um fagstarf frístundaheimila. Því er ætlað að varpa ljósi á hugmyndafræðilegan grunn starfs í frístundaheimilum og þjóna sem bæði innblástur og stuðningur við starfsfólk þeirra um land allt.

Starfsemi frístundaheimila hefur breyst mjög frá árinu 1995 þegar heimildarákvæði um þau var sett grunnskólalög. Í kjölfar lagasetningar 2016 hóf starfshópur að vinna viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, stjórnun og menntun starfsfólks frístundaheimila. Viðmið og markmið frístundaheimila voru síðan formlega gefin út árið 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta