Hoppa yfir valmynd
4. desember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 344/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 344/2018

Þriðjudaginn 4. desember 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. september 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. ágúst 2018, um að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. júní 2018, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar X. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. ágúst 2018, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði um fullt nám á haustönn 2017 væri ekki uppfyllt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 27. september 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 4. október 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi lokið BA-gráðu í [...] frá B vorið 2018 og eignast barn í X sama ár. Kærandi hafi óskað eftir undanþágu frá einingafjölda á grundvelli þess að henni hafi ekki staðið til boða að taka fleiri einingar, bæði á haustönn 2017 og vorönn 2018. Kærandi hafi fengið undanþágu fyrir vorönnina en ekki haustönnina sem skjóti skökku við í ljósi þess að sama staða hafi verið uppi hjá henni á báðum önnum skólaársins 2017-2018. Kærandi óskar eftir að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna þar sem hún hafi verið í fullu háskólanámi en ekki á vinnumarkaði.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldrar, sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, eigi rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda hafi fæðst X. Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé því horft til tímabilsins frá X fram að fæðingardegi þess. Á námsferilsyfirliti frá B, dags. 8. júní 2018, komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi lokið 19 ECTS einingum á haustmisseri 2017 og 19 ECTS einingum á vormisseri 2018 í BA námi við […]deild skólans. Í vottorði frá sama skóla, dags. 26. júlí 2018, komi meðal annars fram að kærandi hafi lokið 19 ECTS einingum á haustmisseri 2017 og 19 ECTS einingum á vormisseri 2018, þar af hafi hún lokið áfanganum [...] sem eingöngu hafi verið kenndur á vormisseri háskólaárið 2017-2018 í námsleiðinni [...]. Á háskólastigi jafngildi 30 einingar á önn 100% námi og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Samkvæmt upplýsingum um námsleiðina [...] við B þá sé um að ræða 180 eininga fullt nám í þrjú ár eða sex misseri. Fagið [...] tilheyri vormisseri á öðru ári námsins. Af námsferilsyfirliti kæranda verði ráðið að hún hafi byrjað nám sitt á X og lokið því á X og því dreift þriggja ára fullu námi á X ár. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda uppfylli hún ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns á haustmisseri 2017 og vormisseri 2018.

Fæðingarorlofssjóður tekur fram að í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sé kveðið á um undanþágu vegna námsloka foreldris. Þar segi að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 19. gr. laga nr. 95/2000 og 15. gr. reglugerðarinnar, þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri eigi eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst sé að viðkomandi sé að ljúka tiltekinni prófgráðu. Foreldri skuli jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laganna. Síðasta önn kæranda í námi hafi verið vormisseri 2018 þegar hún hafi lokið áfanganum [..…]. Því sé ljóst að undanþáguákvæði 16. gr. reglugerðarinnar taki til vormisseris 2018 hjá kæranda. Samkvæmt sama ákvæði skuli kærandi jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga nr. 95/2000 sem hún geri ekki. Samkvæmt því sé óhjákvæmilegt annað en að hafna kröfu kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað en kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Almennt teljast 30 ECTS-einingar á önn því vera 100% nám við háskóla og fullt nám í skilningi laganna því 22–30 einingar.

Barn kæranda fæddist X. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X fram að fæðingardegi barnsins. Kærandi stundaði nám við […]deild B en um er að ræða 180 ECTS eininga fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Samkvæmt yfirliti frá B, dags. 8. júní 2018, lauk kærandi 19 ECTS einingum á haustönn 2017 og 19 ECTS einingum á vorönn 2019 sem telst ekki vera fullt nám. Að framangreindu virtu þykir ljóst að kærandi fullnægði ekki hinu almenna skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er kveðið á um undanþágu frá þeim skilyrðum sem gilda um rétt til fæðingarstyrks vegna námsloka foreldris. Þar segi að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 19. gr. laga nr. 95/2000 og 15. gr. reglugerðarinnar þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri eigi eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst sé að viðkomandi sé að ljúka tiltekinni prófgráðu. Foreldri skuli jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga nr. 95/2000. Ákvæðinu er þannig ætlað að koma til móts við þá námsmenn sem stundað hafa fullt nám í skilningi laganna en fullnægja ekki skilyrði um einingafjölda á lokaönn þar sem þeir eiga færri einingar eftir af námi sínu en áskilinn er í lögunum.

Kærandi brautskráðist B í júní 2018 og var síðasta önn hennar í námi því vorönn 2018. Samkvæmt skýru orðalagi 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 er einungis heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám á þeirri önn. Þá er jafnframt skýrt kveðið á um að til að foreldri geti nýtt rétt samkvæmt undanþáguákvæðinu verði það að uppfylla önnur skilyrði 19. gr. laganna. Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að kærandi var ekki í fullu námi á haustönn 2017. Að mati nefndarinnar þykir því ljóst að kærandi uppfylli ekki hið almenna skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um að hafa verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. ágúst 2018, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta