Nr. 560/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 24. maí 2024 kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 560/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU23110053
Kæra […] og barna hennar á ákvörðunum Útlendingastofnunar
Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 13. nóvember 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Venesúela, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 25. október 2023, um að synja henni og börnum hennar, […], fd. […] (hér eftir A) og […], fd. […] (hér eftir B), ríkisborgurum Venesúela, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal kærunefnd meta að nýju alla þætti kærumáls og getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju hjá þeirri stofnun sem tók hina kærðu ákvörðun. Við meðferð kæru þessar fer fram endurskoðun á ákvörðunum Útlendingastofnunar sem felur í sér sjálfstætt efnislegt mat á því hvort kærandi og börn hennar eigi rétt á veitingu alþjóðlegrar verndar á grundvelli 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna, hvort skilyrði séu fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laganna og hvort skilyrði fyrir brottvísun séu uppfyllt ef svo á við. Auk þess fer fram skoðun á því hvort formreglum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið fullnægt. Kröfur í máli þessu eru í samræmi við framangreint.
Kæruheimild er í 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Málsatvik
Samkvæmt lögregluskýrslu kom kærandi til landsins frá Venesúela og lagði fram umsóknir um alþjóðlega vernd fyrir sig og börn sín 25. janúar 2023. Kvaðst kærandi vera að sækja um alþjóðlega vernd vegna slæmra aðstæðna í heimaríki sínu og að hún vilji betra líf fyrir son sinn.
Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 11. júlí 2023 og greindi frá ástæðum flótta síns. Kærandi kvaðst hafa sætt ofbeldi af hálfu fyrrverandi maka en hann hafi beitt hana líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. Hún hafi kært hann í október 2021 og hann hafi látið hana í friði í skamman tíma. Í nóvember 2022 hafi hann mætt heim til kæranda og nauðgað henni og kærandi orðið þunguð eftir nauðgunina. Þá hafi ótilgreind kona komist yfir viðkvæmar ljósmyndir af kæranda, sem kærandi kvað fyrrverandi maka sinn hafa haft aðgang að, og konan reynt að kúga fé út úr kæranda með því að hóta því að birta ljósmyndirnar á samfélagsmiðlum. Kærandi kvaðst ekki hafa brugðist við fjárkúguninni heldur lokað á konuna. Kærandi kvaðst ekki hafa kært konuna heldur hafi hún ákveðið að yfirgefa Venesúela. Þá greindi kærandi frá því að fyrrverandi maki hennar hafi lagt hendur á barn hennar, sem hún hafi átt úr fyrra sambandi, og ítrekað hótað því við kæranda að hann myndi beita hann ofbeldi. Kærandi kvað lögreglu ekkert gera í heimilisofbeldismálum gegn konum og því hafi hún ekki kært hann aftur. Kærandi kvaðst óttast að fyrrverandi maki hennar myndi komast að því að hún væri ófrísk af barni hans því hann gæti skaðað hana eða börn hennar. Hún kvaðst hafa lokað á hann á samfélagsmiðlum og ekki vera í samskiptum við hann.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kæranda kom fram að ekki væri tilefni til að taka viðtal við þau með vísan til ungs aldurs þeirra og framburðar móður þeirra.
Með ákvörðunum Útlendingastofnunar var kæranda og börnum hennar synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu og henni ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljug innan frests sem henni hefði verið veittur yrði endurkomubann hennar fellt niður. Börnum kæranda var brottvísað frá landinu. Kærandi kærði ákvarðanirnar til kærunefndar 13. nóvember 2023 og kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 27. nóvember 2023. Viðbótargögn bárust 28. nóvember 2023, 29. febrúar 2024, 18. og 26. mars 2024 og 23. apríl 2024.
Greinargerð til kærunefndar
Nefndin hefur farið yfir greinargerð kæranda og lagt mat á þau sjónarmið er þar koma fram. Í ljósi niðurstöðu nefndarinnar verður greinargerð kæranda ekki reifuð hér.
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Lög um útlendinga og reglur stjórnsýsluréttar
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Í viðtali greindi kærandi frá því að hafa sætt heimilisofbeldi af hálfu fyrrverandi maka síns. Lýsti kærandi kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu hans. Greindi kærandi einnig frá því að hann hafi í eitt skipti lagt hendur á barn hennar og ítrekað hótað því við hana að beita hana og barnið ofbeldi eða myrða þau. Kærandi lýsti því að hún hafi lagt fram kæru í Venesúela í október 2021 vegna ofbeldisins og hafi hann látið hana í friði fram til nóvember 2022 þegar hann hafi brotist inn til hennar og nauðgað henni. Kvað kærandi lögregluna ekki hafa aðhafst sérstaklega í málinu og hafi fyrrverandi maki hennar aldrei verið fangelsaður.
Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ljósmyndir af áverkum á líkama sínum og líkama barns síns sem hún kvað stafa af heimilisofbeldi af hálfu fyrrverandi maka síns. Einnig lagði kærandi fram skjáskot af skilaboðum sem hún kveður vera við hann þar sem hann hótar henni m.a. lífláti. Ekki verður séð að Útlendingastofnun hafi tekið afstöðu til skilaboðanna en fram kemur í rökstuðningi stofnunarinnar að hún hafi eingöngu lagt fram ljósmyndir af áverkum sem leiði líkur að því að hún hafi sætt heimilisofbeldi. Komst stofnunin í kjölfarið að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi upplifað eða ætti á hættu ofsóknir, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í heimaríki og að henni stæði til boða vernd og aðstoð yfirvalda teldi hún sig hafa þörf á því. Var ekki tekin afstaða til fullyrðingar kæranda um að hún hafi leitað aðstoðar lögreglu í Venesúela vegna ofbeldisins án árangurs.
Af lestri ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda verður ekki ráðið að meginmálsástæða kæranda, að hún eigi á hættu bæði líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi af hálfu barnsföður síns, hafi fengið fullnægjandi skoðun. Er í ákvörðuninni ítrekað vísað til trúverðugleikamats og komist að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða hafi ríka þörf fyrir vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða án þess að að trúverðugleiki hennar hafi verið dreginn í efa. Þá tók stofnunin ekki afstöðu til þess hvernig aðstæður kæranda horfðu við hugsanlegum rétti hennar til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að ákvæðið geri beinlínis ráð fyrir því að konur sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi, sem kærandi kvaðst hafa sætt, geti átt rétt til slíks dvalarleyfis sé sýnt fram á að það geti leitt til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki. Vísast í því samhengi til frásagnar kæranda um að hún hafi orðið þunguð í kjölfar nauðgunar af hálfu fyrrverandi maka síns og óttist nú að hann muni komast að því og gera henni og barninu, sem hafi fæðst hér á landi, mein.
Kærandi greindi frá því að hún væri tvíkynhneigð og tilheyrði því minnihlutahópi í heimaríki sínu. Útlendingastofnun tók ekki afstöðu til þeirrar málsástæðu kæranda og er ekki fjallað almennt um stöðu tvíkynhneigðra í ákvörðuninni. Er ennfremur byggt á því í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi eigi foreldra og systkini í heimaríki án þess að vikið sé að þeirri frásögn kæranda um að faðir hennar hafi slitið sambandi við hana vegna kynhneigðar hennar.
Þá er óumdeilt að börn geti átt sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar. Þegar um er að ræða börn í fylgd með foreldri hefur Útlendingastofnun afgreitt mál hvers einstaklings í sérstakri ákvörðun en í rökstuðningi í málum barna er um ákveðin atriði vísað til rökstuðnings með ákvörðun foreldris. Þegar þessi leið er farin verða ákvarðanir fjölskyldunnar í heild sinni þó ávallt að uppfylla reglur stjórnsýslulaga um rökstuðning og vera að öðru leyti settar fram á þann hátt að af lestri þeirra megi ráða að í reynd hafi farið fram skyldubundið mat á hagsmunum barnanna á viðhlítandi grundvelli.
Kærandi greindi frá því í viðtali að fyrrverandi maki hennar hafi í eitt skipti beitt A ofbeldi, sem kærandi hafi átt úr fyrra sambandi, og ítrekað hótað því við hana að hann myndi meiða barnið eða myrða það. Þá kvaðst hún óttast eins og fram hefur komið að hann kæmist að því að hún hafi eignast barn hans, B, og myndi gera sér og barninu mein. Útlendingastofnun tók enga afstöðu til framangreindrar frásagnar kæranda, þ.e. hvort börnunum stafaði ógn af fyrrverandi maka kæranda og föður B. Þá verður hvorki af lestri ákvörðunar kæranda né B ráðið að fram hafi farið einstaklingsbundið mat á aðstæðum barnsins með hliðsjón af þeirri málsástæðu að faðir þess hafi beitt kæranda ofbeldi.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Framangreindar ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar bera með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum þeirra. Annmarkar voru á rannsókn stofnunarinnar þar sem aðstæður kæranda og barna hennar voru ekki skoðaðar með einstaklingsbundnum hætti með hliðsjón af aðstæðum í Venesúela. Ekki var tekin afstaða til þess hvort börn kæranda ættu á hættu ofbeldi og var málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvarðana í málum kæranda og barna hennar ennfremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Framangreindir annmarkar á málsmeðferð Útlendingastofnunar eru verulegir og er ekki unnt að bæta úr þeim á kærustigi og er því rétt að mál kæranda og barna hennar hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Með vísan til framangreinds eru hinar kærðu ákvarðanir felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til meðferðar á ný.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the cases.
F.h. kærunefndar útlendingamála, skv. 3. mgr. 8. gr. laga um útlendinga,
Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.