Hoppa yfir valmynd
27. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 37/2012

Miðvikudaginn 27. júní 2012

 

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2012, kærir B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Sjúkratrygginga Íslands um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu, dags. 3. október 2011, tilkynnti kærandi um slys sem hann hefði orðið fyrir við vinnu sína þann 1. febrúar 2010. Í nákvæmri lýsingu á tildrögum og orsök slyssins og hvernig það tengist vinnu segir í tilkynningunni:

 „gerist við aðgangsstýringu inn á lokað svæði á einkalóð. Nánari lýsing í lögregluskýrslu.“

Í tilkynningu kæranda segir að hann hafi strax leitað læknis vegna slyssins. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð C, læknis á slysa- og bráðadeild Landspítala, dags. 29. júlí 2011. Í vottorðinu segir m.a. svo:

 „Þessi maður kom á slysadeild 01.02.2010 kl.19.22 til að fá áverkavottorð eftir atburð sem skeð hafði stuttu fyrir komu. Sagt að keyrt hafi verið á hann vísvitandi þar sem hann stóð kyrr og hann sé öryggisvörður í D. Stuðari bílsins rakst í hnén á honum. Hann hékk á bílnum og kastaðist af honum að sögn. Við skoðun er sagt að hann sé með mar framan á báðum hnjám. Ekki vökvi í liðum eða óstabilitet. Ekki eymsli yfir liðböndum.

Greining SBD : Mar á hnjám S 80.0.“

Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 4. nóvember 2011, á þeirri forsendu að atvik kunni að hafa borið til fyrir tilverknað sem ekki hafi orðið af slysni og falli atvikið því utan við bótasvið 27. gr. almannatryggingalaga.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir m.a. svo:

 „Málsatvik voru þau að þann 1. febrúar 2010 var haldinn viðburður í D í Reykjavík þar sem m.a. voru viðstaddir Forseti Íslands, ráðherrar ríkisstjórnarinnar, íslenska landsliðið í handbolta auk almennra gesta. E ehf. sá um öryggisgæslu á staðnum vegna umrædds viðburðar. Umbj. minn, sem starfsmaður E ehf., átti að sjá um öryggisgæslu á lokuðu svæði bak við Laugardalshöllina, nánar tiltekið að sjá um aðgangsstýringu en á það svæði máttu aðeins ákveðnir aðilar koma inn á og leggja bifreiðum, m.a. bifreiðar ráðherranna en almennt umferð var óheimil inn á svæðið. Búið var að loka svæðið af með keilum en hlutverk umbj. míns var að fylgjast með lokuninni og gæta þess að enginn færi þar framhjá, sem ekki átti erindi inn á umrætt svæði. Síðan gerist það að maður ekur bifreið að hinu lokaða svæði, fer út úr bifreiðinni og fer að færa keilurnar frá til þess að komast með bifreiðina inn á svæðið. Umbj. minn bakkaði þá bifreið, er hann notaði við störf sín, fyrir framan bifreið mannsins svo að hann kæmist ekki framhjá. Umbj. minn fer síðan út úr bifreið sinni og ræðir við manninn um að þetta svæði sé lokað. Eftir það ók maðurinn síðan aftur af stað framhjá bifreið umbj. míns. Umbj. minn steig þá í veg fyrir bifreið mannsins og gaf honum merki um að hann skyldi stöðva bifreiðina, sem maðurinn gerði. Maðurinn tók síðan aftur af stað með þeim afleiðingum að hann ók á umbj. minn. Umbj. minn leitaði sama dag á slysadeild Landspítalans í Fossvogi vegna áverka á hnjám sem hann varð fyrir vegna umrædds atviks.

Með bréfi dags. 4. nóvember 2011 tilkynnti Sjúkratryggingar Íslands (hér eftir SÍ) að ekki væri unnt að verða við umsókn umbj. míns um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga. Í bréfi sínu vísar SÍ til þess, að út frá lýsingu í lögregluskýrslu sé ljóst, að komið sé langt út fyrir sem það fallið getur undir venjubundin störf við aðgangsstýringu. Þá segir í bréfi SÍ að atvik hafi þróast út í eins konar átök eða ágreining milli umbj. míns og þess sem hugsanlega ók á hann. Eigi það eftir atvikum undir almenn hegningarlög en ekki lög um almannatryggingar. Þá er í bréfi SÍ umfjöllun um slysahugtak almannatryggingalaga nr. 100/2007 (hér eftir ATL) og talið að umrætt atvik falli ekki undir þá skilgreiningu. Loks segir í bréfi SÍ eftirfarandi: „Að því gefnu að ágreiningur hafi verið kveikjan að þeim atburði sem leiddi til þess að umsækjandi hlaut áverka af fellur atvikið utan við bótasvið 27. gr. slysatryggingarhluta almannatryggingalaga.“

Umbj. minn getur ekki fallist á framangreinda ákvörðun SÍ og gerir þá kröfu að umsókn hans um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga verði samþykkt.

Í bréfi SÍ er vísað til þess, eins og fram kom hér að ofan, að ljóst sé út frá lýsingu í lögregluskýrslu að komið sé langt út fyrir það sem fallið getur undir venjubundin störf við aðgangsstýringu og falist getur í skyldum umbj. míns til að þola af hendi þeirra sem hann meinar aðgang að svæðinu. Umbj. minn mótmælir þessum rökum SÍ. Í starfi umbj. míns fólst í umrætt sinn að sinna öryggisgæslu á tilteknu lokuðu svæði við D vegna tiltekins viðburðar, sem átti sér stað inn í D. Þá er það ljóst að þau atvik geta komið upp hjá þeim sem starfa við öryggisgæslu, að hindra þurfi aðgang fólks að ákveðnum svæðum sem óheimilt er að fara um. Slíkt gerðist einmitt í tilviki umbj. míns þegar hann reyndi að hindra aðgang umrædds manns, með því að standa fyrir framan bifreið mannsins, er vildi komast inn á umrætt svæði sem honum var óheimilt. Maðurinn ók síðan bifreið sinni á umbj. minn þegar sá síðarnefndi reyndi að koma í veg fyrir það, að maðurinn kæmist inn á umrætt svæði. Umbj. minn fór því ekki út fyrir starfssvið sitt þegar hann reyndi að hindra aðgang mannsins inn á umrætt svæði og því stendur atvikið í beinu sambandi við starf hans við öryggisgæslu í umrætt sinn. Umbj. minn mótmælir þ.a.l. því sem fram kemur í bréfi SÍ, að komið hafi verið langt út fyrir það sem fallið getur undir venjubundin störf við aðgangsstýringu.

Samkvæmt IV. kafla ATL eru launþegar slysatryggðir við vinnu sína að uppfylltum nánari skilyrðum laganna. Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 27. gr. ATL er með slysi átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Í bréfi SÍ er því haldið fram að umrætt atvik falli ekki undir framangreint slysahugtak ATL. Um þetta segir nánar tiltekið í bréfi SÍ: „Í hugtakinu slys er gert ráð fyrir óvæntu og utanaðkomandi atviki sem verði án vilja þess sem fyrir verður. Ætla má að umsækjandi hafi orðið fyrir bíl í þessu tilviki án þess að vijla það, en atvik kann að hafa borið til fyrir tilverknað sem ekki varð af slysni.“ Þrátt fyrir að hér hafi verið ágreiningur á milli umbj. míns og þess manns er reyndi að komast inn á hið lokaða svæði, sem leiddi til þess að maðurinn ók á umbj. minn, þá telur umbj. minn að atvikið falli undir slysahugtak 1. mgr. 27. gr. ATL. Í því sambandi er vísað til þess að í vátryggingarrétti telst líkamsárás vera slys í skilningi slysahugtaksins en í greinargerð með frumvarpi því er varð að ATL kemur fram, að umrætt slysahugtak 1. mgr. 27. gr. ATL sé í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð er í vátryggingarétti. Þá hefur Hæstiréttur einnig komist að þeirri niðurstöðu að líkamsárás getur talist vera slys í skilningi slysahugtaksins, sbr. dóm Hæstaréttar frá 8. júní 2000 (mál nr. 21/2000). Í málinu varð maðurinn S, sem var í skiprúmi á skipi H, fyrir meiðslum í átökum við annan skipverja meðan þeir voru að vinnu á þilfari skipsins, þar sem það var að veiðum. Einhver ágreiningur hafði verið milli umræddra skipverja, sem endaði þannig að hinn skipverjinn stökk upp á aðgerðarborð, sem þeir stóðu báðir við, og síðan ofan af því og að S. H hélt því fram í málinu að S hefði ekki orðið fyrir slysi í merkingu 1. mgr. 172. gr. siglingalaga og vísaði m.a. til þess að í skilmálum áhafnatryggingar sé orðið „slys“ skilgreint á þann veg, að átt sé við „skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans.“ Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að umrætt atvik teldist slys í skilningi hins hefðbundna slysahugtaks en um þetta segir m.a. eftirfarandi í dóminum: „Sú atburðarás, sem úrslitum réði, gerðist af skyndingu, og má ætla eftir gögnum málsins, að átökin hafi gengið lengra og orðið afdrifaríkari en áfrýjandi gat séð fyrir. Að þessu athuguðu verður að hafna því sjónarmiði stefnda, að meiðsl áfrýjanda verði ekki talin stafa af slysi í skilningi 1. mgr. 172. gr. siglingalaga. “

Umbj. minn varð fyrir því að ekið var á hann, þegar hann var að sinna starfi sínu sem öryggisvörður á lokuðu svæði, þegar hann reyndi að hindra aðgang manns sem átti ekki erindi inn á umrætt svæði. Umbj. minn telur að þegar metið er hvort um skyndilegan utanaðkomandi atburð sé að ræða, þá þurfi að horfa á atburðinn frá sjónarhóli tjónþola en ekki tjónvalds. Ákeyrslan sem slík var ófyrirséð og þótt um viljaverk þess manns hafi verið að ræða sem ók á umbj. minn, þá er ljóst að atburðurinn gagnvart umbj. mínum var skyndilegur utanaðkomandi atburður sem gerðist án vilja hans sem olli honum meiðslum.

Með vísan til framangreinds sem og gagna málsins kærir umbj. minn ofangreinda ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og byggir umbj. minn á því að atvikið sem hann varð fyrir hafi verið slys í skilningi 1. mgr. 27. gr. ATL og gerir þá kröfu að umsókn hans um bætur úr slysatryggingu ATL verði samþykkt.“

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2012, var óskað eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands. Í greinargerðinni, dags. 21. febrúar 2012, segir svo:

 „Þann 7. október 2011 barst Sjúkratryggingum Íslands (hér eftir SÍ) tilkynning um vinnuslys sem kærandi varð fyrir 1. febrúar 2010. Með ákvörðun dags. 4. nóvember 2011 var umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga synjað á þeim grundvelli að atvikið félli utan bótasviðs 27. gr. laga nr. 100/2001 um almannatryggingar (hér eftir almannatryggingalaga) og því var málið ekki skoðað frekar efnislega. Synjun á bótaskyldu er nú kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Málsatvik

Í hinni kærðu ákvörðun var bótaskyldu synjað þar sem atvikið fellur utan bótasviðs 27. gr. almannatryggingalaga. Rétt þykir að yfirfara gögn málsins með tilliti til þeirra upplýsinga sem þar er að finna.

Þann 7. október 2011 barst SÍ tilkynning um slys sem kærandi varð fyrir 10. apríl 2011. Í slysatilkynningu er vísað til lögregluskýrslu dags. 21.02.2010 um nánari lýsingu á atvikinu sem átti sér stað þegar kærandi var starfsmaður öryggisfyrirtækis sem sá um öryggisvörslu á viðburði í Laugardalshöll þar sem forseti Íslands, landslið Íslands í handbolta og ráðherrar voru staddir ásamt almennum gestum. Kærandi lýsti atvikinu fyrir lögreglu þegar hún kom á staðinn með eftirfarandi hætti skv. lögregluskýrslunni:

A kvaðst hafa verið við keilulokun og hafi verk hans verið að fylgjast með lokuninni og gæta þess að enginn færi þar framhjá. Hafi þá bifreiðin X komið að lokuninni og ökumaður hennar, G, farið út úr bifreiðinni og fært til keilurnar. A sagði G svo hafa farið aftur inn í bifreiðina og ætlað að aka inn á svæðið sem var lokað. [...] A kvaðst hafa ekið bifreið sem hann var íí veg fyrir bifreiðina X. Hafi þá bifreiðinni X verið ekið af stað og stöðvuð rétt við bifreið hans. A kvaðst hafa farið út úr bifreiðinni og rætt við G sem hafi brugðist mjög illa við því að mega ekki fara inn á svæðið og hafi G hótað A því að aka á bifreið A. [...] A sagði G svo hafa ekið af stað aftur, framhjá bifreið A. Hafi A þá stigið í veg fyrir bifreið G og gefið honum merki um að stoppa sem G gerði alveg við hann. Sagði A svo G hafa tekið aftur af stað með þeim afleiðingum að hann ók á A. Kvaðst A hafa hafnað uppi á vélarhlíf bifreiðarinnar og verið á hlífinni á meðan bifreiðinni var ekið inn á svæðið. Sagðist hann svo hafa runnið af hlífinni er bifreiðin staðnæmdist.

Þann 8. apríl 2010 sagði kærandi frá atvikinu í yfirheyrslu á lögreglustöðinni og segir í lögregluskýrslu:

 „Ég var með skýr fyrirmæli um það að íslenska ríkisstjórnin og rútan með íslenska handboltalandsliðinu mætti koma á þetta svæði og engin annar. [...] Er hann bakkaði orlítið frá þá fór ég að snúa mér að öðru en skyndilega ekur hann bifreið sinni alveg upp að mér og öskrar á mig og segjir mér að færa mig sem ég gerði ekki og þá flautar hann og hamast á bensíngjöfinni eins og hann ætli að aka á stað. Ég stend fyrir framan bifreið hans og þá ekur hann á mig (ýtti mér lítlega áfram) og við það lem ég með báðum lófum á vélarhlíf bifreiðar hans og öskra á hann og spyr hvað hann sé að gera, við það stöðvast bifreiðin alveg og ég öskra á hann aftur. Þá tekur hann af stað og ég var þá fyrir framan bifreiðina, við það hoppa ég upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og reyni að halda í bifreiðina, skyndilega tekur ökumaður bifreiðarinnar krappa hægri beygju og við það hendist ég af bifreiðinni og lendi á hægri öxl á götunni.“ [sic]

Skv. lögregluskýrslu styðja framburðir tveggja vitna framburð A í lögregluskýrslu.

Þá segir í læknisvottorði frá C lækni, dags. 29.07.2011: „Sagt að keyrt hafi verið á hann vísvitandi þar sem hann stóð kyrr og hann sé öryggisvörður í D. Stuðari bílsins rakst í hnén á honum. Hann hékk á bílnum og kastaðist af honum að sögn. Við skoðun er sagt að hann sé með mar framan á báðum hnjám. Ekki vökvi í liðum eða óstabilitet. Ekki eymsli yfir liðböndum.

Ákvörðun SÍ

Í ákvörðun SÍ frá 4. nóvember 2011 er bent á að ágreiningur sé um atvik að því leyti hversu vilji ökumanns hafi staðið til ákeyrslunnar. Þá sé ljóst út frá lýsingu í lögregluskýrslu að komið sé langt út fyrir það sem fallið geti undir venjubundin störf við aðgangsstýringu og falist geti í skyldum kæranda að þola af hendi þeirra sem hann meini aðgang að svæðinu. Hafi atvik þróast út í eins konar átök eða ágreining milli kæranda og þess sem hugsanlega hafi ekið á hann. Eigi það eftir atvikum undir almenn hegningarlög en ekki lög um almannatryggingar.

Þá sé samkvæmt lögum um almannatryggingar áskilið að um sé að ræða slys þannig að atvik geti átt undi bótasvið þeirra. Slysahugtakið sé lögfest og svari það til slysahugtaks þess sem lagt sé til grundvallar í vátryggingarrétti. Í hugtakinu slys sé gert ráð fyrir óvæntu og utanaðkomandi atviki sem verði án vilja þess sem fyrir verður. Ætla megi að kærandi hafi orðið fyrir bíl í þessu tilviki án þess að vilja það en atvik kunni að hafa borið til fyrir tilverknað sem ekki hafi verið af slysni.

Af því gefnu að ágreiningur hafi verið kveikjan að þeim atburði sem leiddi til þess að kærandi hlaut áverka af falli atvikið utan bótasviðs 27. gr. slysatryggingahluta almannatryggingalaga og því hafi málið ekki verið skoðað frekar efnislega.

Athugasemdir við kæru

Í kæru kemur fram að í starfi kæranda hafi falist að sinna öryggisgæslu á tilteknu lokuðu svæði við D vegna tiltekins viðburðar. Þá sé ljóst að þau atvik geti komið upp hjá þeim sem starfi við öryggisgæslu, að hindra þurfi aðgang fólks að ákveðnum svæðum sem óheimilt sé að fara um. Slíkt hafi gerst í tilviki kæranda og hann hafi því ekki farið út fyrir starfssvið sitt þegar hann reyndi að hindra aðgang mannsins inn á umrætt svæði og því stæði atvikið í beinu sambandi við starf hans við öryggisgæslu í umrætt sinn.

SÍ fallast á röksemdir kæranda um það að hann hafi ekki farið út fyrir starfssvið sitt þegar hann reyndi að hindra aðgang mannsins inn á umrætt svæði og því standi atvikið í beinu sambandi við vinnu hans. Hinsvegar er bent á að um ásetningsatlögu af hálfu þess sem keyrði á kæranda sé að ræða, þ.e. viljaverk en ekki slys og að öllum líkindum feli slík atlaga í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum.

Í kæru kemur jafnframt fram að kærandi telji atvikið falla undir slysahugtak 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaganna. Í því sambandi vísar kærandi til þess að í vátryggingarétti teljist líkamsárás vera slys í skilningi slysahugtaksins en í greinargerð með frumvarpi að almannatryggingalögum komi fram að slysahugtak 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga sé í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð sé í vátryggingarétti. Þessu til stuðnings vísar kærandi í dóm Hæstaréttar frá 8. júní 2000, nr. 21/2000.

SÍ benda á að í tilvísuðum dómi er verið að taka á hlutlægri ábyrgð útgerðarmanns á lífs- eða líkamstjóni vegna slysa á mönnum. Í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga kemur fram að útgerðarmaður beri slíka ábyrgð á mönnum sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum og staddir eru á skipi hans eða vinnu í beinum tengslum við rekstur þess, en lækka megi fébætur ef hinn slasaði hafi sýnt vítavert gáleysi sem leitt hafi til slyssins eða tjónsins. Vísað er til þess að orðið „slys“ í 172. gr. siglingalaga horfi til þess, er skipverji verður fyrir líkamstjóni vegna ákomu eða áhrifa utan að. SÍ vekja athygli á því að þarna er því verið að vísa til hlutlægrar ábyrgðar útgerðarmanns á lífs- eða líkamstjóni vegna slysa á mönnum samkvæmt siglingalögum. Skilgreining á orðinu slys skv. 172. gr. laganna er í samræmi við hefðbundin viðhorf í slysatryggingum hér á landi og eru þau notuð til leiðbeiningar við túlkun greinarinnar í dómnum. Hins vegar er jafnframt tekið fram að 172. gr. siglingalaga beri að skýra sjálfstætt og endanlega sé undir mati komið hvort hugtakið slys eigi við um tiltekin atvik.

SÍ benda á úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur staðfest, í tveimur nýlegum úrskurðum sínum, að slys sem verða af ásetningi annars en þess sem fyrir slysinu verður falli ekki undir slysahugtakið samkvæmt 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga. Þó má benda á að í báðum úrskurðunum var jafnframt um að ræða atvik sem ekki stóðu í slíku sambandi við vinnu viðkomandi aðila að tryggingavernd almannatrygginga næði til atvikanna.

Í úrskurði í máli nr. 066/2009 segir:

 „Það er mat nefndarinnar að líkamsárás sem kærandi tilkynnti sem vinnuslys falli ekki undir skilgreiningu á slysi í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 heldur sé að öllum læikindum um að ræða háttsemi sem er refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum. Samkvæmt orðana hljóðan 27. gr. laga 100/2007 er það skilyrði bótaskyldu að um utanaðkomandi atburð hafi verið að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar er atburður e-ð sem ber að höndum, eitthvað ófyrirséð. Í því tilviki sem hér um ræðir er um ásetningsverk ákveðins áráasarmanns að tefla. Viljaverk en ekki slys að mati nefndarinnar. Ekki ræður úrslitum þó atvikið hafi átt sér stað á vinnustað kæranda. “ [sic]

Þá segir í úrskurði í máli nr. 328/2010:

 „Ekki ræður úrslitum þó atvikið hafi átt sér stað á vinnustað kæranda. Atvikið stóð ekki í slíku sambandi við vinnu hennar að tryggingavernd almannatryggingalaga nái til atviksins. Það er mat nefndarinnar að líkamsárás sú sem kærandi tilkynnti sem vinnuslys falli ekki undir skilgreiningu á slysi í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 heldur sé um ásetningsatlögu að ræða sem að öllum líkindum felur í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum.“    

Með vísan til ofangreinds ber að staðfesta synjun SÍ á grundvelli þess að um ásetningsatlögu hafi verið að ræða sem að öllum líkindum felur í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum og því falli atvikið ekki undir skilgreiningu á slysi skv. 27. gr. almannatryggingalaga.“

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi, dags. 6. mars 2012, og honum gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og/eða athugasemdum. Slíkt barst ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um slysabætur vegna slyss sem kærandi varð fyrir við vinnu sína þann 1. febrúar 2010.

Af hálfu kæranda er á því byggt að um hafi verið að ræða slys í skilningi 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga. Tekið er fram að í starfi kæranda hafi falist að sinna öryggisgæslu á tilteknu lokuðu svæði við D í umrætt sinn. Kærandi hafi reynt að hindra aðgang manns með því að standa fyrir framan bifreið hans en hann hafi þá ekið bifreið sinni á kæranda. Kærandi hafi ekki farið út fyrir starfssvið sitt og því standi atvikið í beinu sambandi við starf hans við öryggisgæslu í umrætt sinn. Þá segir að þegar metið sé hvort um skyndilegan utanaðkomandi atburð sé að ræða þurfi að horfa á atburðinn frá sjónarhóli tjónþola en ekki tjónvalds. Ákeyrslan sem slík hafi verið ófyrirséð og þótt um viljaverk mannsins sem hafi ekið á kæranda hafi verið að ræða sé ljóst að atburðurinn gagnvart kæranda hafi verið skyndilegur utanaðkomandi atburður sem hafi gerst án vijla hans og valdið honum meiðslum.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er fallist á röksemdir kæranda um að hann hafi ekki farið út fyrir starfssvið sitt þegar hann hafi reynt að hindra aðgang mannsins inn á umrætt svæði. Hins vegar sé um að ræða ásetningsatlögu af hálfu mannsins sem hafi keyrt á kæranda, þ.e. viljaverk en ekki slys, og að öllum líkindum feli slík atlaga í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum.

Samkvæmt 27. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 taka slysatryggingar til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt ákvæðum 29. og 30. gr. laganna. Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Ekki er ágreiningur í máli þessu að kærandi hafi verið slysatryggður er atvik máls þessa átti sér stað. 

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi að störfum sem öryggisvörður þegar hann hindraði för ökumanns inn á lokað svæði sem ók þá bifreið sinni á kæranda með þeim afleiðingum að kærandi hlaut áverka.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins sem úrskurðarnefndin telur nægileg.

Í 27. gr. laganna kemur fram að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.

Samkvæmt Íslenskri orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar, útg. 2010, er orðið „skyndilegur“ skýrt sem snögglegur, fljótur, hraður. Orðið „utanaðkomandi“ er skýrt sem e-ð sem kemur að utan, sem heyrir ekki til þeim hóp sem um er að ræða, ókunnugur.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga lítur til til dóms Hæstaréttar í máli nr. 21/2000. Í dóminum segir m.a.:

 „Orðið „slys“ í 172. gr. horfir til þess, er skipverji verður fyrir líkamstjóni vegna ákomu eða áhrifa utan að. Áðurnefnd skilgreining er í samræmi við hefðbundin viðhorf í slysatryggingum hér á landi og þannig fallin til leiðbeiningar um það, hvað við sé átt í þessari lagagrein.“

Síðan segir í dóminum: „Hana ber þó að skýra sjálfstætt, og endanlega verður undir mati komið, hvort hugtakið slys eigi við um tiltekin atvik..

Tilvitnaður dómur Hæstaréttar varðar slys á sjómanni sem vegna áhættuþáttar starfsins nýtur aukinnar verndar vegna slysa á skipi eða til sjós samkvæmt orðanna hljóðan 172. gr. siglingalaga. Á hinn bóginn virðist röksemdarfærsla dómsins lúta beint að því hvort skilyrði hins hefðbundna slysahugtaks sé uppfyllt.

Atvikin sem leiddu til áverka kæranda gerðust af skyndingu og voru utanaðkomandi í þeim skilningi að afleiðingar þeirra voru af völdum þess að bifreið var ekið á kæranda. Að þessu athuguðu og því að starf kæranda fólst í öryggisvörslu og stóð því í beinu sambandi við slysatburðinn telur úrskurðarnefndin að skilyrði slysahugtaksins í máli þessu séu uppfyllt. Að mati úrskurðarnefndar verður að meta það sérstaklega í hverju tilviki hvort skilyrði slysahugtaks almannatryggingalaga um skyndilegan utanaðkomandi atburð sem gerist án vilja viðkomandi séu uppfyllt.

Það er mat nefndarinnar að sá atburður sem kærandi tilkynnti sem vinnuslys falli undir skilgreiningu á slysi í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Úrskurðarnefndin telur því að bótaskylda samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga sé fyrir hendi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir þann 1. febrúar 2010 er hrundið. Viðurkennd er bótaskylda. Málinu er heimvísað til fyllri meðferðar.   

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta