Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 68/2012

Fimmtudaginn 24. janúar 2013

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. júní 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 25. júní 2012. Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 31. maí 2012, um að synja kæranda um grunngreiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna samkvæmt lögum nr. 22/2006, vegna sonar hennar X.

Með bréfi, dags. 17. júlí 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins sem barst með bréfi, dags. 15. ágúst 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um foreldragreiðslur til eins árs. Umsókninni hafi verið hafnað á þeim forsendum að skilyrði 19. gr. laga nr. 22/2006, með síðari breytingum, um að vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila sé ekki viðkomið, sé ekki uppfyllt.

Ástæða umsóknar kæranda hafi verið sú að sonur kæranda sé fjölfatlaður og hann hafi verið mjög veikur og úthaldslítill veturinn fyrir umsókn aðila. Kærandi hafi því ekki séð sér fært að fara út á vinnumarkaðinn að svo stöddu.

Veturinn 2011–2012 hafi sonur kæranda fengið fleiri og harðari flog en vanalega og úthaldið hafi verið mun minna. Auk þess hafi engar framfarir verið hjá syni kæranda þann veturinn. Eftir skóla hafi ekki verið hægt að gera mikið annað en að liggja upp í sófa og horfa á sjónvarpið. Kærandi eigi annan strák sem fæddur sé 2010 og sé vel virkur og þurfi sinn tíma eins og önnur börn, en vegna veikinda eldri sonarins hafi yngri drengurinn þurft að vera mikið í pössun. Veturinn hafi verið mjög erfiður og tekið mikið á. Erfitt hafi verið að finna vinnu þar sem atvinnurekendur séu ekki tilbúnir til að ráða fólk með langveikt barn.

Kærandi hafi ætlað að hefja nám við Háskóla Íslands haustið 2011 en vegna stöðu fjölskyldunnar hafi hún ekki skráð sig í nám.

Sonur kæranda hafi verið að ljúka fyrsta ári sínu í grunnskóla og hafi verið í sérdeild í G-skóla. Dagsplön hafi þurft að miða út frá úthaldi drengsins dag hvern. Suma daga hafi verið lítið hægt að gera en þá hafi honum þó iðulega verið leyft að vera í skólanum. Sonur kæranda sé í frístund eftir skóla sem hafi verið hugsuð til að efla hann félagslega en ekki sem pössun. Þar hitti hann jafnaldra sína sem hann hafi lært að leika sér við og þau lært að leika sér með honum. Oft hafi ekki gengið upp að senda drenginn í frístund vegna slappleika og lítils úthalds. Hann hafi verið hjá stuðningsfjölskyldu framangreindan vetur, tvo daga í mánuði, en þó ekki nýtt það að fullu vegna veikinda.

Faðir drengsins búi í sveitarfélaginu C og geti því ekki aðstoðað kæranda í veikindum sonar þeirra, sem búi í sveitarfélaginu D. Maki kæranda sé vélstjóri og starfi á sjó og því sé kærandi stóran hluta tímans ein með drengina tvo. Maki kæranda hafi ekki tækifæri til að fara úr vinnu til að sinna veikindum drengsins. Af þeim sökum hafi kærandi ekki séð fram á að geta unnið þar sem drengurinn sé alltaf að veikjast.

II. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins.

Af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í málinu liggi fyrir greinargerð og umsókn kæranda um almenna fjárhagsaðstoð (grunngreiðslur), dags. 22. apríl 2012, læknisvottorð E læknis á F-sjúkrahúsinu, dags. 3. janúar 2012 og 4. maí 2012, tilkynning um greiðslu sjúkradagpeninga hjá Félagi verslunar- og skrifstofufólks, dags. 23. apríl 2012, greinargerð H, ráðgjafa í málefnum fatlaðra hjá Fjölskyldudeild D-sveitarfélagsins, dags. 19. desember 2011, og staðfesting frá G-skóla um veikindi sonar kæranda á skólaárinu.

Í gögnum málsins komi fram að sonur kæranda sé greindur með blandað form af CP heilalömun, þroskahömlun, flogaveiki og jafnvæga frílitningaendurröðun. Hann þurfi svo til fulla aðstoð við allar athafnir í daglegu lífi, sé úthaldslítill og með mikið af ósjálfráðum hreyfingum, noti hjólastól en geti gengið við göngugrind inni við. Þá komi fram að hann hafi hafið skólagöngu síðastliðið haust og við það hafi aukist álag á hann töluvert, mótstöðuafl hans hafi minnkað til muna og hann hafi verið mjög pestsækinn og mikið frá skóla vegna veikinda. Drengurinn sé í sérdeild G-skóla og samkvæmt kæranda sé viðvera hans þar 5–8 klst. þegar hann sé frískur. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum hafi drengurinn verið frá skóla 21 kennsludag vegna veikinda. Kærandi hafi lokið fæðingarorlofi í ágúst 2011 og hafi fengið atvinnuleysisbætur eftir það, en hafi ekki verið á atvinnuleysisbótum þegar umsókn hafi verið lögð fram.

Í 19. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum, sé kveðið á um heimild til almennrar fjárhagsaðstoðar til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Þar komi fram í 2. mgr. að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum skv. 1. mgr. hafi barn þess greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem falli undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veiti barninu þjónustu, barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi, sbr. og 25. gr. laganna.

Sonur kæranda sé í sérdeild G-skóla og sé þar 5–8 klst. á dag samkvæmt kæranda. Hann sé hjá stuðningsfjölskyldu einu sinni í mánuði, sé í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku, iðjuþjálfun á skólatíma og talþjálfun einu sinni í viku. Þá sé hann í sundþjálfun tvisvar í viku. Samkvæmt gögnum málsins sé hægt að flokka veikindi drengsins undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. laganna og ljóst að drengurinn þarfnast verulegrar og sérstakrar umönnunar og stuðnings sem móðir hans veitir honum og takmarkar möguleika hennar á vinnumarkaði. Hins vegar sé drengurinn í skóla nánast allan daginn alla daga, þrátt fyrir einhverja fjarveru vegna veikinda sem þó sé ekki meiri en almennt geti talist fyrir barn á hans aldri. Því telji Tryggingastofnun að skýrt skilyrði 19. gr., sbr. og 25. gr. laganna, um að annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila verði ekki viðkomið, sé ekki uppfyllt og eigi kærandi ekki rétt á almennri fjárhagsaðstoð skv. 19. gr. laganna.

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um almenna fjárhagsaðstoð skv. IV. kafla laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með bréfi, dags. 31. maí 2012.

Samkvæmt gögnum málsins er sonur kæranda greindur með blandað form af CP heilalömun, þroskahömlun, flogaveiki og jafnvæga frílitningaendurröðun. Hann þarf svo til fulla aðstoð við allar athafnir í daglegu lífi, er úthaldslítill og með mikið af ósjálfráðum hreyfingum, notar hjólastól en getur gengið við göngugrind inni við. Kærandi telur sig hvorki getað sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar sonar síns og hefur því sótt um grunngreiðslur til foreldris, almenna fjárhagsaðstoð, samkvæmt lögum nr. 22/2006. Með hinni kærðu ákvörðun synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda, með vísan til þess að skilyrði laganna um að vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila sé ekki við komið, væri ekki uppfyllt.

Í IV. kafla laga nr. 22/2006 er mælt fyrir um almenna fjárhagsaðstoð til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar mælt fyrir um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig skv. 26. og 27. gr. laganna, samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Í málinu liggja fyrir læknisvottorð E, barnalæknis á F-sjúkrahúsinu, en ljóst er að mati úrskurðarnefndar að fötlun barns kæranda er umtalsverð og uppfyllir þau skilyrði sem 2. mgr. 19. gr., sbr. 26. og 27. gr. laganna, setja fyrir almennri fjárhagsaðstoð.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 19. gr. er það hins vegar jafnframt skilyrði fjárhagsaðstoðar að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, „enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið...“ Samkvæmt gögnum málsins er barn kæranda í sérdeild G-skóla og samkvæmt kæru er viðvera hans þar 5–8 klst. þegar hann er frískur, fyrst í skólanum og síðan í frístundavistun. Þá kemur fram í kæru að drengurinn hafi verið hjá stuðningsfjölskyldu yfir skólaárið, tvo daga í mánuði, sem hann hafi reyndar ekki getað nýtt að fullu vegna veikinda. Í greinargerð með frumvarpi til 17. gr. laga nr. 158/2007, þar sem umrætt ákvæði 19. gr. kom inn í lög nr. 22/2006, er tekið fram að við það sé miðað að standi barni til boða vistunarþjónusta á vegum opinberra aðila komi foreldrar ekki til með að eiga rétt á þeim greiðslum sem þarna sé mælt fyrir um. Miðað við þá staðreynd að barni kæranda standi til boða vistun í skóla og á frístundaheimili 5–8 tíma á dag virðist ekki fullnægt því skilyrði ákvæðis 2. mgr. 19. gr. um að annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila verði ekki við komið.

Þó ber einnig að líta til þess að í fyrrnefndum athugasemdum við greinargerð með 17. gr. laga nr. 158/2007 er tekið fram að framkvæmdaraðili meti aðstæður ávallt heildstætt. Sem dæmi geti komið upp þær aðstæður að barn geti ekki nýtt vistunarþjónustu sem skyldi, til dæmis vegna ónæmisbælingar sökum illkynja sjúkdóma eða annarra alvarlegra veikinda, og foreldrar geti því ekki verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

Í vottorði frá skóla drengsins, dags. 31. maí 2012, kemur fram að veikindadagar drengsins veturinn 2011–2012 hafi verið 21 talsins. Að mati nefndarinnar er ekki hægt að líta svo á að þau veikindi séu með þeim hætti að unnt sé að fullyrða að barnið geti ekki nýtt vistunarþjónustu sem skyldi. Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að framangreint skilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 22/2006, um að annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila verði ekki við komið, sé ekki uppfyllt. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslur skv. IV. kafla laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, er staðfest.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta