Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar NATO funduðu í Brussel

Þórdís Kolbrún og Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu á fundinum í dag - myndAtlantshafsbandalagið

Stríðið í Úkraínu var í forgrunni tveggja daga fundar utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag. Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, ávarpaði fundinn en auk hans tóku þátt utanríkisráðherrar frá nokkrum öðrum þjóðum sem eiga í samstarfi við Atlantshafsbandalagið.

„Þær hörmungar sem rússnesk stjórnvöld hafa nú þegar valdið eru ólýsanlegar og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar við þessar aðstæður er aðdáunarvert. Fordæming bandalagsríkjanna og samstarfsríkjanna á aðgerðum Rússlands er eindregin og var mikill samhljómur um aukinn og tímanlegan stuðning við varnir Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Ég lagði í mínu máli áherslu á að við stöndum vörð um  mannréttindi, réttarríkið og lýðræðið, en það eru þau gildi sem bandalagið byggist á.“

Viðbrögð bandalagsins við gerbreyttri stöðu í öryggismálum Evrópu voru sömuleiðis ofarlega á baugi og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um fælingar- og varnarstöðu bandalagsins. Á fundinum var einnig rætt um hvernig styðja megi betur við þau samstarfsríki bandalagsins sem líklegt er að stafi hætta af útþenslutilburðum Rússland, ekki síst Georgíu og Moldóvu en einnig Bosníu-Hersegóvínu.

Mótun nýrrar grunnstefnu bandalagsins var til umfjöllunar á fundinum en stefnt er að því að hún verði lögð fyrir leiðtogafund bandalagsins í Madríd 29.-30. júní nk. „Það liggur ljóst fyrir að ný grunnstefna mun taka mið af þeirri ógn sem bandalagsríkjunum stafar af Rússlandi. Hún mun einnig undirstrika gildi bandalagsins,“ segir utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna auk Ástralíu, Finnlands, Georgíu, Japans, Suður-Kóreu, Nýja-Sjálands, Svíþjóðar og Úkraínu, sátu fundinn, auk utanríkismálastjóra ESB. Á fundinum var einnig fjallað um öryggisáskoranir í víðara samhengi, meðal annars áhrif Kína, og þá ógn sem steðjar að alþjóðlegu reglu- og lagaumhverfi um þessar mundir. 

Á fundinum var samþykkt að styrkja samstarf bandalagsins við Japan, Suður-Kóreu, Ástralíu og Nýja-Sjáland, sem miðar að því að efla pólitískt samráð og hagnýta samvinnu við þessi líkt þenkjandi samstarfsríki, til að takast á við öryggispólitískar áskoranir og standa vörð um reglur og lög í alþjóðasamskiptum.

Utanríkisráðherrarnir samþykktu stofnskrá nýsköpunarhraðals bandalagsins (Defence Innovation Accelerator for the North Atlantic, DIANA). Markmið nýsköpunarhraðalsins er að efla samvinnu bandalagsríkjanna á sviði hátækni og skapa vettvang fyrir nýsköpun á þessu sviði sem mun efla getu bandalagsins til að bregðast við öryggisáskorunum framtíðarinnar.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta