Nr. 551/2018 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 551/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18110033 og KNU18110034
Beiðni [...] og [...] og barns þeirra um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 22. nóvember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 20. september 2018 um að synja [...], fd. [...], og [...], fd. [...], ríkisborgurum Úkraínu (hér eftir kærendur), og barni þeirra, [...], fd. [...], um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 26. nóvember 2018. Þann sama dag barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku málsins. Þann 7. desember 2018 barst tölvupóstur frá kærendum.
Beiðni kærenda um endurupptöku máls þeirra byggir aðallega á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kærenda
Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli þeirra hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.
Kærendur halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi brotið gegn lögum um útlendinga nr. 80/2016 sem og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með því að ganga ekki nægilega úr skugga um hvort kærendur séu í raunverulegri lífshættu og bíði ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður í heimaríki hafi Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Aðstæður hafi breyst í heimaríki kærenda þar sem Rússar hafi hertekið þrjú úkraínsk herskip skammt frá Krímskaganum áður en úrskurður nefndarinnar hafi verið birtur kærendum. Séu aðstæður á svæðinu því óljósar og ótryggar og ljóst að mikil pólitísk spenna ríki á milli ríkjanna.
Að mati kæranda sé því ljóst að upp séu komnar nýjar aðstæður í máli kærenda sem gefi tilefni til þess að endurupptaka mál þeirra með tilliti til þeirra auknu hættu sem sé verið að senda fjölskylduna í. Vísa kærendur til fyrri greinargerðar um frekari málsatvik.
Kærendur fara fram á að mál þeirra verði tekið upp að nýju og að þeim og barni þeirra verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kærendum og barni þeirra verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kærendum og barni þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærendur telja að verði þeim gert að snúa til baka til heimaríkis sé það brot gegn non refoulment reglu 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kærenda þann 22. nóvember 2018 og var úrskurðurinn birtur kærendum 26. nóvember 2018. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærendur byggja beiðni um endurupptöku aðallega á því að ákveðnir atburðir hafi nýlega átt sér stað í heimaríki þeirra sem hafi skapað óvissu um öryggi þeirra þar.
Í beiðni kærenda um endurupptöku er ekki fjallað sérstaklega um það hvernig þeir atburðir sem áttu sér stað við Kerch-sund þann 25. nóvember síðastliðinn hafi áhrif á stöðu kærenda. Kærunefnd hefur kynnt sér upplýsingar um þá atburðarrás sem hefur átt sér stað í kjölfarið m.a. samþykkt úkraínska þingsins á setningu herlaga sem gildi á ákveðnum svæðum landsins, þ.á m. Kharkiv heimaborg kærenda, fram til 26. desember n.k. Kærunefnd hefur yfirfarið beiðni kærenda um endurupptöku ásamt fyrirliggjandi gögnum um heimaríki kærenda sem yfirfarin voru við meðferð máls þeirra hjá kærunefndinni. Þá hefur kærunefnd kannað nýlegar heimildir um ofangreinda atburði s.s. upplýsingar frá sérstakri sendinefnd öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sem hefur eftirlit með ástandinu í Úkraínu (e. OSCE Special Monitoring Mission to Ukraine), ferðaupplýsingar frá breska utanríkisráðuneytinu (e. Foreign and Commonwealth Office), fréttum af íslenskum og erlendum fréttamiðlum og úkraínsk lög um herlög frá árinu 2015 sem ákvörðun stjórnvalda Úkraínu um setningu herlaga frá nóvember sl. byggir á. Af þeim gögnum er ljóst að spenna hefur ríkt á milli úkraínskra og rússneskra stjórnvalda allt frá því að rússnesk stjórnvöld innlimuðu Krímskagann í mars 2014 og hersveitir hliðhollar rússneskum stjórnvöldum tóku yfir stjórn svæða í Donetsk og Luhansk. Þau átök hafa þó verið bundin við ofangreind svæði og hafa íbúar á öðrum svæðum landsins ekki verið í hættu vegna þeirra þó svo að átökin hafi haft áhrif víðar um landið. Þrátt fyrir hina nýlegu atburði verður ekki séð að aðstæður í heimaríki kærenda hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 22. nóvember 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kærenda um endurupptöku málsins er því hafnað.
Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kærenda um endurupptöku máls þeirra hjá kærunefnd er því hafnað.
Úrskurðarorð
Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellants to re-examine their case is denied.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir