Menningarsjóðir úthluta 120 milljónum til bókasafna, tónlistarmanna og hljóðritunar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, veitti í dag styrki úr þremur menningarsjóðum – tónlistarsjóði, hljóðritasjóði og bókasafnasjóði við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu.
„Stuðningur við menningu og skapandi greinar skiptir samfélagið miklu máli og því er einstaklega gleðilegt að geta afhent svona styrki til svona fjölbreyttra verkefna,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
- Þetta er síðari úthlutun tónlistarsjóðs sem að þessu sinni veitir styrki til 100 tónlistartengdra verkefna að upphæð rúmlega 71 milljóna króna. Til úthlutunar var 50 milljóna viðbót stjórnvalda, viðspyrnuúrræði vegna heimsfaraldursins.
- Bókasafnasjóður veitir alls 20 milljónir króna til níu verkefna.
- Hljóðritasjóður veitir alls 29 milljónir króna til 59 verkefna
Tónlistarsjóður
Alls bárust 149 umsóknir frá mismunandi greinum tónlistar á umsóknarfresti 2. maí sl. Sótt var um ríflega 166 milljónir kr. Umsóknir um stuðning til verkefna í sígildri og samtímatónlist voru áberandi fleiri en umsóknir til verkefna til hryntónlistarverkefna og endurspeglast það í úthlutun (sígild og samtímatónlist 69 og hryntónlist 21).
Hæstu styrki að upphæð þrjár milljónir hljóta: Tónlistarhátíðin Norrænir músikdagar og verkefnið Óperudagar á vegum Peru óperukollektíf en báðar hátíðirnar fara fram í október. Hátíðin Ung nordisk musik hlýtur næsthæsta styrkinn eða 2.500.000 kr.
Hljóðritasjóður
Sjóðurinn styrkir 59 hljóðritunarverkefni að upphæð 28.720 milljónum kr. Fimmta hljóðplata Moses Hightower fær hæsta styrkinn, 1.2 milljónir króna.
Bókasafnasjóður
Níu verkefni fá styrk úr Bókasafnasjóði, en alls bárust 15 umsóknir. Háskólinn á Bifröst fær hæsta styrkinn eða 4,5 milljónir króna, og snýr verkefnið að því að koma á kennsluvef í upplýsingalæsi