Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 19. júní
Mætt: Lára Björnsdóttir (LB) formaður, Björn Ragnar Björnsson (BRB), tiln. af fjármálaráðuneyti, Eiríkur Jónsson, tiln. af Kennarasambandi Íslands, Garðar Hilmarsson (GH), tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðríður Ólafsdóttir (GÓ), tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp, Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB), tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Héðinn Unnsteinsson (HU) varamaður Guðrúnar Sigurjónsdóttur, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson (KS), tiln. af Rauða krossi Íslands, Margrét Sæmundsdóttir (MS), tiln. af viðskiptaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir (SK) tiln. af Alþýðusambandi Íslands, Stella K. Víðisdóttir (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, Vilborg Oddsdóttir (VO), tiln. af Biskupsstofu, og starfsmennirnir Þorbjörn Guðmundsson (ÞG) og Ingibjörg Broddadóttir (IB).
1. Fundargerð 11. fundar stýrihópsins
Fundargerðin var samþykkt.
Með vísun til 4. mgr. 2. liðar fundargerðarinnar lagði MS áherslu á að samstarf yrði haft við félagsvísahópinn varðandi endurbætur á skráningu barnaverndarmála hjá sveitarfélögunum.
2. Ráðstafanir í ríkisfjármálum
Frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum var dreift (þskj. 155 — 118. mál). Einnig lögð fram fréttatilkynning frá félags- og tryggingamálaráðuneyti með lýsingu á ráðstöfunum á málefnasviði ráðuneytisins og vakin athygli á fylgiskjali með fréttatilkynningunni þar sem farið er nánar yfir áhrif fyrirhugaðra breytinga, sbr. frumvarpið.
Stýrihópurinn leggur áfram áherslu á mikilvægi þess að athuga sérstaklega áhrif aðgerðanna á þá sem verst standa og hópurinn svari þeirri spurningu hvort verið sé að verja kjör þeirra verst settu. Enn fremur var bent á að líklega væru mun fleiri í áhættu en þeir sem lökust hafa kjörin; er einkum átt við þá sem hafa getað staðið í skilum en geta það ekki lengur og munu þessir hópar birtast á næstu mánuðum. Þá megi ekki gleyma að áhrifin eru ekki einungis fjárhagsleg heldur einnig félagsleg og hugsanlega heilsufarsleg og mikilvægt að horfa á afleiðingarnar bæði á hópa en ekki síður á einstaklinga og einstaka fjölskyldur.
Rætt var sérstaklega um grunnþarfir fólks, svo sem mat og lyf, og nefndu fulltrúar félagasamtaka dæmi um fjölskyldur sem ekki gætu greitt fyrir lyf, bæði vegna barna og fullorðinna. Um þetta verður fjallað eftir því sem við á í skýrslum vinnuhópanna.
Bent var á að brýnast sé á hinn bóginn að koma atvinnulífinu í gang á ný, annars verði þetta einungis varnarbarátta sem dragi kjark úr fólki. Því sé mikilvægt að sem allra fyrst komi fram vísbendingar um betri tíma því óvissan sé verst. Líklegt sé þó að betri tímar birtist ekki fyrr en á næsta vori.
Samþykkt að vinnuhóparnir taki framangreind gögn til athugunar auk væntanlegra gagna frá öðrum ráðuneytum sem fjalla um aðgerðir í ríkisfjármálum og noti eftir atvikum upplýsingar úr þeim í áfangaskýrslunum.
3. Næsta áfangaskýrsla
Samþykkt að vinnuhópar skili skýrslum til IB eigi síðar en mánudaginn 29. júní nk. LB lagði áherslu á að skýrslurnar verði stuttar eins og síðast eða um það bil tvær til þrjár blaðsíður. Þar komi fram helstu niðurstöður (2 til 3) og tillögur hópanna (2 til 3). Þetta verði stöðuskýrslur eins konar framhald af skýrslunum frá mars síðast liðnum og taki til tímabilsins 15. mars til 20. júní um það bil. Í áfangaskýrslunni verður einnig meðal annars fjallað um aðgerðir stýrihópsins í tengslum við ályktun hans um barnaverndarmál. Formenn vinnuhópanna munu funda 22. júní og fjalla meðal annars um verkefni hópanna í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð frá mars 2009 og munu greina frá þeim í skýrslum sínum eftir því sem við á.
4. Önnur mál
a) Þeir sem eru verst settir: Samþykkt að fjalla nánar um þennan hóp eftir sumarleyfi og leggja fram ályktun þar að lútandi, sbr. ákvörðun 11. fundar stýrihópsins.
b) Upplýsingar til þeirra sem starfa með þeim sem verða illa úti vegna efnahagsástandsins: VO vakti athygli á þörf fyrir aðgengilegan upplýsingabanka með öllum úrræðum fyrir ráðgjafa sem vinna með fólki í þessari stöðu. Bent var á að mótvægissjóðurinn muni auglýsa eftir umsóknum í þetta verkefni.
Næsti fundur hópsins verður föstudaginn 26. júní 2009, kl. 13.15–15.15 hjá BSRB, Grettisgötu 89, Reykjavík.
Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.