Anna Hallin og Olga S. Bergmann hlutu fyrstu verðlaun í samkeppni um listskreytingu fangelsis
Niðurstöður samkeppni um listskreytingar í nýju fangelsi á Hólmsheiði voru kynntar í dag og tilkynnti Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður dómnefndar, niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Tólf tillögur voru teknar til dóms í samkeppninni. Dómnefnd hefur undanfarið farið ofan í saumana á tillögum sem bárust og valið úr eina til útfærslu en veitt eru þrenn verðlaun.
Fyrstu verðlaun hlutu þær Anna Hallin og Olga S. Bergmann. Tillaga þeirra heitir Aboretum – trjásafn og er margþætt listaverk, þyrping 9 tegunda trjáa og ,,fuglahótel” með tilheyrandi fuglahúsum sem unnin eru í samvinnu við tréverkstæðið á Litla-Hrauni. Þær hljóta 500 þúsund krónur í verðlaun. Dómnefnd segir hana falla vel að umhverfi og hugmyndafræði fangelsisins, hafa listrænt og fagurfræðilegt gildi og sé innan kostnaðarviðmiða.
Á myndinni eru þær Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður dómefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og myndlistarmennirnir Anna Hallin og Olga S. Bergmann og fyrir neðan má sjá verðlaunatillöguna.
Önnur verðlaun, kr. 300 þúsund, hlaut tillaga Kristins E. Hrafnssonar, Fuglahús. Hún gerir ráð fyrir 28 fuglahúsum og 10 fuglaböðum og gjafastöndum víðs vegar í inni- og útigörðum fangelsisins.
Þriðju verðlaun, kr. 200.000, hlaut tillaga Brynhildar Þorgeirsdóttur, Að flytja fjöll. Það er keilulagaður skúlptúr úr 12 steinsteyptum einingum.
Innanríkisráðuneytið efndi til opinnar samkeppni um listskreytingu í nýju fangelsi á Hólmsheiði í Reykjavík í mars 2013 í samræmi við lög nr. 46/1998 um listskreytingar opinberra bygginga. Ráðuneytið fól Framkvæmdasýslu ríkisins að hafa umsjón með samkeppninni fyrir sína hönd. Samstarfsaðili var Listskreytingasjóður ríkisins fyrir hönd Sambands íslenskra myndlistarmanna/SÍM. Óskað var eftir tillögum að listaverkum á völdum útisvæðum fangelsins.
Nýtt gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga mun rísa við Hólmsheiði í Reykjavík. Fangelsisbyggingin verður með 56 fangarýmum. Framkvæmdir hófust í maí 2013 og haustið 2015 er stefnt að því að þeim verði lokið og byggingin tekin í notkun.
Bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði markar tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi. Síðasta fangelsið á Íslandi sem var hannað sem slíkt, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, var reist og tekið í gagnið árið 1875, fyrir tæplega 140 árum. Í ríflega hálfa öld hefur staðið til að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Um 1960 var Valdimar Stefánssyni sakadómara falið að gera tillögur að nýju fangelsi við Úlfarsá en þau áform dagaði uppi. Síðan hefur saga fangelsisbyggingarmála verið langdregin og einkennst af skýrslugerð, úttektum, athugunum og umræðum um ákjósanlega staðsetningu.
Staða fangelsismála á Íslandi hefur meðal annars verið gagnrýnd í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála hér á landi. Þar er nefnt að elstu fangelsin standist ekki nútímakröfur, biðlisti eftir fangelsisvist sé of langur og að ekki sé hugað nógu vel að stöðu kvenfanga og ungra afbrotamanna innan fangelsiskerfisins.
Fyrrverandi ríkisstjórn samþykkti að hefja endurbætur í fangelsismálum og efna í því skyni til opinnar hugmyndasamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Úrslit samkeppninnar lágu fyrir í júní 2012 og urðu Arkís arkitektar ehf. hlutskarpastir. Hönnun hefur staðið yfir síðan og var fyrsti hluti framkvæmda, jarðvinna og heimlagnir, boðinn út í vor.
Í dómnefnd sátu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður fyrir hönd innanríkisráðuneytis, Björn Guðbrandsson, arkitekt hússins, Guðrún Edda Guðmundsdóttir, frá Fangelsismálastofnun, og myndlistarmennirnir Þóra Sigurðardóttir og Jón Bergmann Kjartansson/Ransu sem voru tilnefnd af SÍM.